Kröftugur sólstormur varðveittist í 14 þúsund ára gömlum trjám

Sævar Helgi Bragason 20. okt. 2023 Fréttir

Furutré í Frakklandi og ís í Grænlandsjökli geyma merki um öflugan sólstorm fyrir 14.373 árum

  • Subfossil-tree

Vísindamenn sem rannsökuðu ævaforna trjáboli í Frakklandi og Þýskalandi og ískjarna úr Grænlandsjökli hafa uppgötvað atburð sem varð í andrúmsloftinu fyrir 14.373 árum. Eina þekkta skýringin er sérstaklega kröftugur sólstormur.

Hamfarir - Vísindalæsi

Vísindamenn sem rannsökuðu gamla furutrjáboli við bakka Drouzet-árinnar í frönsku Ölpunum hafa uppgötvað einstaka sögu sem varðveitt er í árhringjum trjánna. Svo virðist sem að fyrir 14.373 árum hafi geysiöflugur sólstormur skollið á og sett mark sitt á andrúmsloftið okkar. Í einum árhringnum sést mikil aukning á geislavirku kolefni eða geislakoli, C-14.

Drouzet-tre

Ævafornir trjábolir við Drouzet-ánna í frönsku Ölpunum. Mynd: Cécile Miramont (IMBE, Aix-Marseille University)

Þegar kröftugur sólblossi verður rignir ekki aðeins geislun yfir Jörðina heldur líka háorkuögnum. Þegar þessar orkuríku agnir rekast á sameindir andrúmsloftsins verða efnahvörf þar sem samsætan nitur-14 umbreytist í kolefni-14 eða geislakol. Tré draga kolefni vitskuld í sig og varðveita það þegar þau vaxa. 

Til að fá frekari staðfestingu á sólstorminum skoðuðu vísindamennirnir líka ískjarna úr Grænlandsjökli. Í einu íslaginu þar, sem er ríflega 14 þúsund ára gamalt, kom í ljós aukning á öðru efni, beryllíumi, sem verður líka til þegar háorkugeimgeislun dembist inn í andrúmsloftið.

Með því að skoða fjölda annarra trjáa frá Frakklandi og Þýskalandi og grænlenska ískjarnann gátu vísindamennirnir neglt niður tímasetninguna ótrúlega nákvæmlega: Sólstormurinn skall á Jörðinni fyrir 14.373 árum.

Subfossil-tree

Árhringir í 14 þúsund ára gömlum trjábol sem varðveitir sólblossa. Mynd: Cécile Miramont (IMBE, Aix-Marseille University)

Sólblossar geta valdið tjóni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óveður í geimnum setur mark sitt á andrúmsloftið og jarðlög og plöntur varðveita. Aðrir sambærilegir sólstormar virðast hafa orðið árin 774, 993 og 660 f.Kr. og 7175 f.Kr. 

Sólstormurinn árið 993 hefur verið notaður til að tímasetja hvenær norrænir menn sigldu frá Íslandi og settust að í Norður Ameríku. Merki um hann fundust í trjábolum sem hoggnir voru 28 árum eftir storminn eða árið 1021.

Eini sambærilegi sólstormur nútímans er Carrington-atburðurinn sem varð í ágúst og september árið 1859. Þegar hann skall á spönuðust upp straumar í Jörðinni sem leiddu í símrita svo neistaði í þeim. Við það kviknaði í símskeytapappírum. Norðurljós sáust sömuleiðis um nánast allan heim, langt suður að miðbaug. Sólstormurinn fyrir 14 þúsund árum var tifalt öflugri en Carrington-atburðurinn.

Í rafvæddu nútímasamfélagi væri samskonar atburður virkilega slæmar fréttir. Í dag hefði sólstormur af þessu tagi slegið út rafveitukerfi, sprengt spennubreyta, skemmt netjóna og sæstrengi, eyðilagt gervihnetti og raskað flugferðum. 

Þetta getur gerst og mun gerast aftur. Spurningin er aðeins hvenær. Rannsóknir sem þessar gefa okkur dýrmæta innsýn í virkni sólar og áhrif hennar á Jörðina og hjálpar okkur að átta okkur betur á hvernig við gætum brugðist við kröftugum sólstormi til að koma í veg fyrir tjón.