Nasasjón af framtíðinni

Sævar Helgi Bragason 14. des. 2017 Fréttir

Ný mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýnir yfirstandandi samruna tveggja vetrarbrauta sem kallast NGC 5256 og eru í 350 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í Stórabirni

  • NGC 5256

Eftir um það bil 4 milljarða ára verður árekstur í geimnum þegar Vetrarbrautin okkar og Andrómeduþokan renna saman. Þótt geimurinn sé að mestu leyti tómur eru vetrarbrautaárekstrar tíðir og standa yfir í mörg hundruð milljónir ára.

828x315_facebookhaus_Geimverur2

Á þessari mynd sem Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók sést yfirstandandi samruni tveggja vetrarbrauta. Saman kallast þær NGC 5256 en ganga líka undir nafninu Markarian 266. Báðar eru í um 350 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Stórabirni en aðeins 13.000 ljósár skilja milli kjarna þeirra.

NGC 5256, einnig kölluð Markarian 266, er óregluleg vetrarbraut í um 350 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Stórabirni. Hún er reyndar ekki ein vetrarbraut heldur tvær en bilið milli kjarnar þeirra eru aðeins 13.000 ljósár.

Í vetrarbrautunum sjást þegar merki um samrunann. Rauðleitt gas og dökkleitar rykslæður eru farnar að blandast saman, kastast í kekki og verða að stjörnumyndunarsvæðum. Bláleitu svæðin eru ungar stjörnuþyrpingar, fullar af björtum bláum risasjtörnum. Báðar vetrarbrautirnar innihalda líka virk risasvarthol sem nærast á efni sem fellur til þeirra.

Við samruna vetrarbrauta rekast nánast engar stjörnur saman því vegalengdin á milli þeirra er gífurleg. Stjörnur geta skotist út úr vetrarbrautunum vegna flóðkrafta sem verka á milli vetrarbrautanna þangað til ró kemst á.

Vetrarbrautasamrunar voru algengari fyrr á tímum í sögu alheimsins og eru þeir taldir hafa knúið þróun vetrarbrauta. Í Vetrarbrautinni okkar eru merki um langa sögu árekstra, því hún inniheldur leifar margra smærri vetrarbrauta sem hún gleypti í fortíðinni. Í dag er hún að gleypa dvergsporvöluþokuna í Bogmanninum.

Hægra megin við NGC 5256 sést annar enn fjarlægari vetrarbrautasamruni sem stjörnufræðingar hafa enn ekki kannað.