Kveikt í myrkrinu

Sævar Helgi Bragason 16. jan. 2013 Fréttir

Á nýrri mynd APEX sjónaukans í Chile sést fallegt rykský í stjörnumerkinu Óríon.

  • NGC 1999, skuggaþoka, geimþoka, Óríon

Á nýrri mynd Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukans í Chile sést fallegt rykský í stjörnumerkinu Óríon. Þótt þessi þéttu geimský virðist dimm í sýnilegu ljósi getur LABOCA myndavél APEX numið varmageislun frá rykinu og fundið felustaði stjarna í mótun. Eitt skýið er þó ekki alveg sem það sýnist.

Í geimnum eru gas- og rykský fæðingarstaðir nýrra stjarna. Séð í sýnilegu ljósi er rykið dimmt og byrgir sýn á stjörnur í bakgrunni. Þegar stjörnufræðingurinn William Herschel skoðaði eitt slíkt ský í stjörnumerkinu Sporðdrekanum árið 1774, taldi hann sig vera að sjá eyðu í geimnum og er sagður hafa komist þannig að orðu: „Sannarlega er hér hola í himninum!“ [1]

Til að átta sig betur á myndun stjarna þurfa stjörnufræðingar sjónauka sem geta numið lengri bylgjulengdir eins og á hálfsmillímetra sviðinu en þar gefa dökkar rykagnir frá sér ljós í stað þess að gleypa það. APEX sjónaukinn á Chajnantor hásléttunni í Chile er stærsti staki hálfsmillímetra sjónaukinn sem er að störfum á suðurhveli jarðar og kjörinn fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka myndun stjarna á þennan hátt.

Sameindaskýið í Óríon er nálægasta stóra stjörnumyndunarsvæðið við jörðina í 1.500 ljósára fjarlægð og geymir heilann fjársjóð bjartra geimþoka, skuggaþoka og ungra stjarna. Nýja myndin sýnir aðeins lítinn hluta af þessu mikla skýi í sýnilegu ljósi en mælingar APEX hafa verið lagðar ofan á. Þær eru í skærappelsínugulum tónum sem virðast kveikja í dökku skýjunum. Oft eru glóandi kekkirnir sem APEX greinir dökkir blettir í sýnilegu ljósi — merki um þétt rykský sem gleypir sýnilegt ljós en skín á hálfsmillímetra sviðinu og er sennilega myndunarstaður stjarna.

Bjarti bletturinn fyrir neðan miðja mynd geimþokan NGC 1999. Stjörnufræðingar kalla þetta svæði — séð í sýnilegu ljósi — endurskinsþoku þar sem fölblár bjarmi bakgrunnsstjörnu endurkastast af ryki í skýinu. Unga stjarnan V380 Orionis [1], sem lúrir í hjarta hennar, lýsir hana upp með orkuríkri geislun sinni. Í miðju þokunnar er dökkur blettur sem sést jafnvel betur á frægri myndHubble geimsjónauka NASA og ESA.

Alla jafna myndi dökkur blettur á borð við þennan til þess að þarna væri þykkt geimský sem hylur stjörnur og þokur fyrir aftan. Á myndinni sjáum við hins vegar að bletturinn er óvenju dökkur, jafnvel þótt mælingar APEX séu teknar með í reikninginn. Mælingar APEX og innrauðar mælingar annarra sjónauka hafa sýnt stjörnufræðingum að bletturinn er í raun og veru hola eða geil í þokunni sem efni frá stjörnunni V380 Orionis hefur myndað. Þetta er þá, eftir allt saman, hola í himninum!

Svæðið á myndinni er um það bil tvær gráður suður af Sverðþokunni miklu í Óríon (Messier 42) en hún sést við efri brún víðmyndarinnar sem gerð var úr gögnum Digitized Sky Survey.

Thomas Stanke (ESO), Tom Megeath (Toledo háskóla í Bandaríkjunum) og Amy Stutz (Max Planck stofnunni í stjörnufræði í Heidelberg í Þýskalandi) höfðu umsjón með mælingum APEX sem myndin er búin til úr. APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.

Skýringar

[1] Hier ist wahrhaftig ein Loch im Himmel!“ á þýsku.

[2] Yfirborðshitastig V380 Orionis er hátt, um það bil 10.000 Kelvin (nokkurn veginn það sama í Celsíusgráðum), nærri tvisvar sinnum meira en hitastig sólarinnar. Massi stjörnunnar er áætlaður 3,5 sinnum meiri en sólar.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

  • Fjallað er um rannsóknina á dökka blettinum í NGC 1999 í grein eftir T. Stanke et al., A&A 518, L94 (2010), sem einnig er aðgengileg sem forprent.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1304.

Tengdar myndir

  • NGC 1999, skuggaþoka, geimþoka, ÓríonÁ nýrri mynd Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukans í Chile sést fallegt rykský í stjörnumerkinu Óríon. Þótt þessi þéttu geimský virðist dimm í sýnilegu ljósi getur LABOCA myndavél APEX numið varmageislun frá rykinu og fundið felustaði stjarna í mótun. Myndin sýnir svæði í kringum endurskinsþokuna NGC 1999 í sýnilegu ljósi en mælingar APEX hafa verið lagðar ofan á. Þær eru í skærappelsínugulum tónum sem virðast kveikja í dökku skýjunum. Mynd: ESO/APEX (MPIfR/ESO/OSO)/T. Stanke et al./Digitized Sky Survey 2
  • NGC 1999, skuggaþoka, geimþoka, ÓríonÁ þessari víðmynd sést svæðið í kringum endurskinsþokuna NGC 1999 í stjörnumerkinu Óríon. Myndin sýnir sýnilegu ljósi. Stóra, bjarta svæðið efst á myndinni er Sverðþokan fræga (Messier 42). Myndin var sett saman úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.