Eldur og ís í mynni Rauðadals

Sævar Helgi Bragason 17. feb. 2013 Fréttir

ESA hefur birt nýjar myndir Mars Express af forvitnilegu svæði skammt frá Tinto Vallis á Mars

  • Amenthes Planum, Mars, Mars Express.

Þann 13. janúar síðastliðinn tók High-Resolution Stereo Camera í Mars Express geimfari ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, þrívíða mynd í hárri upplausn af suðausturhorni Amenthes Planum svæðisins á Mars, skammt frá Palos gígnum og mynni Tinto Vallis (Rauðadals).

Á neðri hluta litmyndarinnar fyrir ofan og nærmyndinni hér undir, sést nálægur, styttri en breiðari dalur með fjölda aðrennslisæðar sem sameinast mynni Tinto Vallis og enda í Palos gígnum.

Tinto Vallis er 190 km langur og nefndur eftir hinu fræga Rio Tinto fljóti í Andalusíu héraði á Spáni. Talið er að dalurinn hafi myndast fyrir um 3,7 milljörðum ára — frekar snemma í sögu Mars.

Amenthes Planum, Hesperia Planum, Mars, Mars Express.
Dalur sem liggur inn í Palos gíginn. Þessi U-laga dalur ber merki þess að jarðhiti hafi brætt ís undir yfirborðinu svo vatn tók að seyla upp til yfirborðsins. Fyrir vikið hrundi yfirborðið niður. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Á myndinni fyrir ofan sést kerfi smærri dala sem talið er hafa myndast í kjölfar eldvirkni. Eldgos bræddu ís undir yfirborðinu og vatn tók að seytla upp til yfirborðsins. Við það varð yfirborðið lausara í sér og hrundi niður í eyðurnar sem ísinn skildi eftir. Með tímanum leiddi þetta ferli til myndunar brattra U-laga dala. Talið er að svipað ferli eigi sök á rofinu sem sjá má í mörgum öðrum dalakerfum á Mars.

Á hæðarmyndinni hér undir og litmyndinni efst sést annað áberandi landslagseinkenni vinstra megin: Djúpur 35 km breiður gígur. Í honum hafa menn komið auga á miklar skriður úr gígbörmunum, sér í meðfram suðurbrúninni (vinstri hliðin).

Þessi gígur situr ofan á að minnsta kosti þremur eldri gígum. Sá stærsti er 100 km breiður og mjög áberandi á vinstri helmingi myndarinnar.

Amenthes Planum, Hesperia Planum, Mars, Mars Express.
Hæðarkort af Amenthes Planum sem byggir á gögnum High-Resolution Stereo Camera. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Á botni hans er landslagið óreiðukennt og einkennist af stöpum og buttes. Þessar myndanir urðu líklega til þegar vatnsís undir yfirborðinu losnaði burt svo veikara efni í kring hrundi og staparnir mynduðust.

Á Íslandi þekkjum við mörg dæmi um stapa sem mynduðust reyndar í eldgosum undir jöklum. Í eyðimörkinni í Utah í Bandaríkjunum eru stapar líka algengir.

Amenthes Planum, Hesperia Planum, Mars, Mars Express.
Farvegur sem liggur yfir á Amenthes Planum. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Dökku svæðin sem sjást best á efstu myndinni eru þakin basaltsandi sem hefur borist þangað með vindi. Þau sjást líka vel á myndinni hér undir. Þar sést líka lítil sprunga á hraunbreiðu Amenthes Planum. Ef til vill hefur þar verið fljót úr fornu vatni sem eitt sinn fyllti Palos gíginn.

Þessar nýlegu myndir Mars Express halda áfram að sýna okkur hversu líkir sumir staðir á Mars og Jörðinni eru.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA At the Mouth of the Red Valley.