Keplerssjónaukinn finnur þrjár nýjar reikistjörnur sem gætu verið lífvænlegar
Sævar Helgi Bragason
18. apr. 2013
Fréttir
Keplerssjónauki NASA hefur fundið þrjár reikistjörnur á stærð við Jörðina í tveimur sólkerfum sem gætu verið lífvænlegar
Keplerssjónauki NASA hefur fundið þrjár reikistjörnur á stærð við Jörðina í tveimur sólkerfum sem gætu verið lífvænlegar. Allar eru þær í lífbeltum sinna stjarna — því svæði í sólkerfi þar sem hitastig er hæfilegt til þess að vatn geti verið á fljótandi formi. Reikistjörnurnar nefnast Kepler-62e, Kepler-62f og Kepler-69c.
Kepler geimsjónauki NASA starir stöðugt á yfir 150.000 stjörnur í Vetrarbrautinni okkar, nánar tiltekið á svæði á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Sjónaukinn fylgist með hárfínum birtubreytingum stjarnanna sem rekja má til reikistjarna sem ganga fyrir stjörnurnar, svipað og þegar Venus gekk fyrir sólina okkar árið 2012. Kepler er fyrsti geimsjónauki NASA sem er fær um að finna reikistjörnur á stærð við Jörðina í kringum stjörnur á borð við sólina.
Kepler-62 er fremur dæmigerð stjarna í Vetrarbrautinni okkar. Hún er appelsínugulur dvergur af gerðinni K2 í um 1.200 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hörpunni. Hún er því bæði nokkuð minni og kaldari en sólin okkar en líka örlítið eldri, eða um sjö milljarða ára. Á braut um hana eru að minnsta kosti fimm reikistjörnur, þar af tvær sem eru í hæfilegri fjarlægð frá stjörnuni til þess að vatn gæti verið á fljótandi formi á yfirborðum þeirra.
Reikistjörnurnar tvær nefnast Kepler-62e og Kepler-62f og eru báðar aðeins stærri en Jörðin. Kepler-62e er 60% breiðari en Jörðin og gengur umhverfis móðurstjörnuna á 122 dögum, svo hún er við innri brún lífbeltisins. Kepler-62f, sem er 40% breiðari en Jörðin, er aðeins lengra í burtu frá móðurstjörnunni. Hún hringsólar um hana á um 267 dögum og er því við ytri brún lífbeltisins. Hún er jafnframt sú reikistjarna í lífbelti annarrar stjörnu sem er næst Jörðinni að stærð. Báðar þessar reikistjörnur eru svokallaðar risajarðir og að öllum líkindum úr bergi.
Hinar reikistjörnurnar þrjár í þessu sólkerfi — Kepler-62b, Kepler-62c og Kepler-62d — eru miklu nær móðurstjörnunni. Tvær þeirra eru stærri en Jörðin en ein á stærð við Mars. Þær þjóta um Kepler-62 á aðeins fimm, tólf og átján dögum svo allar eru þær mjög heitar og ólífvænlegar.
Hin stjarnan, Kepler-69, er sömu gerðar og sólin okkar (G) en er bæði aðeins minni (93% af stærð sólar) og daufari (80% af birtu sólar). Hún er í um það bil 2.700 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum.
Á sveimi um Kepler-69 er reikistjarnan Kepler-69c. Hún er 70% stærri en Jörðin og gengur um móðurstjörnuna á 242 dögum. Hún er því við innri brún lífbeltisins og líkist sennilega nágranna okkar, Venusi.
Vitaskuld er ekki vitað hvort reikistjörnurnar þrjár séu lífvænlegar en það er háð ýmsum þáttum sem við vitum enn ekkert um, svo sem massa þeirra, efnasamsetningu og gerð lofthjúpanna. Til dæmis gæti lofthjúpur Kepler-62e vel innihaldið koldíoxíð sem eykur yfirborðshitastigið svo mjög að hún væri ólífvænleg, eins og Venus í sólkerfinu okkar.
Þessar nýjustu uppgötvanir Keplerssjónaukans marka engu að síður stór skref fram á við í leitinni að hnetti sem líkist Jörðinni á braut um stjörnu sem svipar til sólarinnar. Reikistjörnurnar bætast í fjölbreytta flóru fjarreikistjarna sem fundist hafa á síðustu árum. Í dag þekkjum við tæplega 1000 önnur sólkerfi en okkar og fer þeim sífellt fjölgandi.
Tenglar
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]
Tengdar myndir
- Stærðarhlutföll þekktra reikistjarna í lífbeltum sinna sólkerfa. Mynd: NASA Ames/JPL-Caltech/Stjörnufræðivefurinn
- Samanburður á sólkerfinu okkar og Kepler-62 sólkerfinu. Mynd: NASA Ames/JPL-Caltech/Stjörnufræðivefurinn
- Samanburður á sólkerfinu okkar og Kepler-62 sólkerfinu. Mynd: NASA Ames/JPL-Caltech/Stjörnufræðivefurinn
Keplerssjónaukinn finnur þrjár nýjar reikistjörnur sem gætu verið lífvænlegar
Sævar Helgi Bragason 18. apr. 2013 Fréttir
Keplerssjónauki NASA hefur fundið þrjár reikistjörnur á stærð við Jörðina í tveimur sólkerfum sem gætu verið lífvænlegar
Keplerssjónauki NASA hefur fundið þrjár reikistjörnur á stærð við Jörðina í tveimur sólkerfum sem gætu verið lífvænlegar. Allar eru þær í lífbeltum sinna stjarna — því svæði í sólkerfi þar sem hitastig er hæfilegt til þess að vatn geti verið á fljótandi formi. Reikistjörnurnar nefnast Kepler-62e, Kepler-62f og Kepler-69c.
Kepler geimsjónauki NASA starir stöðugt á yfir 150.000 stjörnur í Vetrarbrautinni okkar, nánar tiltekið á svæði á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Sjónaukinn fylgist með hárfínum birtubreytingum stjarnanna sem rekja má til reikistjarna sem ganga fyrir stjörnurnar, svipað og þegar Venus gekk fyrir sólina okkar árið 2012. Kepler er fyrsti geimsjónauki NASA sem er fær um að finna reikistjörnur á stærð við Jörðina í kringum stjörnur á borð við sólina.
Kepler-62 er fremur dæmigerð stjarna í Vetrarbrautinni okkar. Hún er appelsínugulur dvergur af gerðinni K2 í um 1.200 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Hörpunni. Hún er því bæði nokkuð minni og kaldari en sólin okkar en líka örlítið eldri, eða um sjö milljarða ára. Á braut um hana eru að minnsta kosti fimm reikistjörnur, þar af tvær sem eru í hæfilegri fjarlægð frá stjörnuni til þess að vatn gæti verið á fljótandi formi á yfirborðum þeirra.
Reikistjörnurnar tvær nefnast Kepler-62e og Kepler-62f og eru báðar aðeins stærri en Jörðin. Kepler-62e er 60% breiðari en Jörðin og gengur umhverfis móðurstjörnuna á 122 dögum, svo hún er við innri brún lífbeltisins. Kepler-62f, sem er 40% breiðari en Jörðin, er aðeins lengra í burtu frá móðurstjörnunni. Hún hringsólar um hana á um 267 dögum og er því við ytri brún lífbeltisins. Hún er jafnframt sú reikistjarna í lífbelti annarrar stjörnu sem er næst Jörðinni að stærð. Báðar þessar reikistjörnur eru svokallaðar risajarðir og að öllum líkindum úr bergi.
Hinar reikistjörnurnar þrjár í þessu sólkerfi — Kepler-62b, Kepler-62c og Kepler-62d — eru miklu nær móðurstjörnunni. Tvær þeirra eru stærri en Jörðin en ein á stærð við Mars. Þær þjóta um Kepler-62 á aðeins fimm, tólf og átján dögum svo allar eru þær mjög heitar og ólífvænlegar.
Hin stjarnan, Kepler-69, er sömu gerðar og sólin okkar (G) en er bæði aðeins minni (93% af stærð sólar) og daufari (80% af birtu sólar). Hún er í um það bil 2.700 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum.
Á sveimi um Kepler-69 er reikistjarnan Kepler-69c. Hún er 70% stærri en Jörðin og gengur um móðurstjörnuna á 242 dögum. Hún er því við innri brún lífbeltisins og líkist sennilega nágranna okkar, Venusi.
Vitaskuld er ekki vitað hvort reikistjörnurnar þrjár séu lífvænlegar en það er háð ýmsum þáttum sem við vitum enn ekkert um, svo sem massa þeirra, efnasamsetningu og gerð lofthjúpanna. Til dæmis gæti lofthjúpur Kepler-62e vel innihaldið koldíoxíð sem eykur yfirborðshitastigið svo mjög að hún væri ólífvænleg, eins og Venus í sólkerfinu okkar.
Þessar nýjustu uppgötvanir Keplerssjónaukans marka engu að síður stór skref fram á við í leitinni að hnetti sem líkist Jörðinni á braut um stjörnu sem svipar til sólarinnar. Reikistjörnurnar bætast í fjölbreytta flóru fjarreikistjarna sem fundist hafa á síðustu árum. Í dag þekkjum við tæplega 1000 önnur sólkerfi en okkar og fer þeim sífellt fjölgandi.
Tenglar
Fjarreikistjörnur
Keplerssjónaukinn á Stjörnufræðivefnum
Kepler-22b
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]
Tengdar myndir