Hubble tekur mynd af halastjörnunni ISON

Sævar Helgi Bragason 23. apr. 2013 Fréttir

Hubblessjónaukinn hefur tekið mynd af halastjörnunni ISON sem skreyta mun himininn í lok þessa árs

  • halastjarna, ISON

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók mynd af halastjörnunni C/2012 S1 (ISON) þann 10. apríl síðastliðinn. Halastjarnan var þá rétt fyrir innan braut Júpíters í um 618 milljón km fjarlægð frá sólinni (um 630 milljón km frá Jörðinni).

Þrátt fyrir þessa miklu fjarlægð er halastjarnan þegar orðin nokkuð virk. Sólarljósið hitar upp yfirborðið og veldur því að frosin reikul efni eins og vatn gufa upp. Við það myndast hjúpur eða haddur í kringum kjarna halastjörnunnar.

Athuganir Hubbles benda til að kjarni ISON sé í kringum 5-6 km í þvermál — ótrúlega lítill miðað við hversu virk halastjarnan er í þetta mikilli fjarlægð frá sólinni. Stjörnufræðingar nota myndir Hubbles til að kanna virkni halastjörnunnar og mæla stærð kjarnans. Þessar upplýsingar eru síðan notaðar til að spá fyrir um virknina þegar halastjarnan þýtur framhjá sólinni í aðeins 1,2 milljón km hæð yfir brennheitu yfirborði hennar þann 28. nóvember næstkomandi.

Haddur halastjörnunnar er um 5.000 km í þvermál, aðeins stærri en Ástralía. Rykhalinn teygir sig meira en 90.000 km út í geiminn, langt út fyrir sjónsvið Hubbles.

Myndin var tekin í sýnilegu ljósi með Wide Field Camera 3 í Hubblessjónaukanum. Blái liturinn er ýktur til að draga fram smáatrði í halastjörnunni sem ella sæjust illa.

Í desember gæti ISON orðið ein glæsilegasta halastjarna sem sést hefur frá Jörðinni um árabil, jafnvel aldir. Ísland er sérstaklega vel staðsett til

Frekari upplýsingar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA, J.-Y. Li (Planetary Science Institute) og Hubble Comet ISON Imaging Science Team

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • ISON, halastjarnaHalastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Blái liturinn hefur verið ýktur til að draga fram smáatriði sem annars sæjust illa.
  • ISON, halastjarnaHalastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Búið er að skerpa myndina sérstaklega til að sýna smáatriði í innri hluta hjúpsins. Sjá má áberandi strók skaga út úr halastjörnunni.