Ringulreið í stjörnumyndunarsvæði

Sævar Helgi Bragason 02. maí 2013 Fréttir

Ný mynd frá ESO sýnir vel þá ringulreið sem ræður ríkjum þegar stjörnur verða til í sameindaskýjum í geimnum

  • stjörnumyndunarsvæði, NGC 6559, geimþoka

Þessi glæsilega mynd af NGC 6559 var tekin með danska 1,54 metra sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndin sýnir vel þá ringulreið sem ræður ríkjum þegar stjörnur verða til í sameindaskýjum í geimnum.

NGC 6559 er gas- og rykský í um 5.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þetta glóandi ský er tiltölulega lítið, aðeins fáein ljósár á breidd en til samanburðar spannar fræg þoka í nágrenninu, Lónþokan (Messier 8, eso0936), meira en hundrað ljósár. Þótt þessi þoka fari framhjá mörgum vegna nágrannans sem stelur senunni er NGC 6559 í aðalhlutverki á þessari nýju mynd.

Gasið í skýjum NGC 6559, aðallega vetni, er hráefnið í myndun stjarna. Þegar svæði innan í þokunni safnar að sér nægilegu miklu efni byrjar það að falla saman vegna eigins þyngdarkrafts. Miðja skýsins verður sífellt þéttari og heitari uns kjarnasamruni hefst og stjarna fæðist. Vetnisatóm bindast saman og mynda helíumatóm sem losa orku: Þess vegna skína stjörnurnar.

Þessar ungu, heitu og skæru stjörnur sem fæðast í skýinu örva vetnisgasið í þokunni [1]. Gasið geislar aftur frá sér þessari orku og mynda rauðleitu skýjaslæðurnar sem sjást við miðja mynd. Þetta fyrirbæri kallast ljómþoka.

En NGC 6559 er ekki aðeins úr vetnisgasi. Í skýinu eru líka rykagnir sem úr þyngri frumefnum á borð við kolefni, járni og kísli. Blái bletturinn næst rauðu ljómþokunni er kominn til af ljósi frá nýmynduðum stjörnum sem dreifist — endurvarpast í allar áttir — af örsmáum ögnum í þokunni. Stjörnufræðingar kalla þetta endurskinsþoku en fyrirbæri af því tagi eru venjulega bláleit vegna þess að ljósdreifingin er meiri á styttri bylgjulengdum ljóssins [2].

Á þéttustu svæðunum byrgir rykið alveg sýn á ljósið fyrir aftan, eins og sjá má í dökku blettunum og bugðóttu slæðunum neðarlega vinstra og hægra megin á myndinni. Til að horfa í gegnum skýin á það sem leynist fyrir aftan þyrftu stjörnufræðingar að kanna þokuna á lengri bylgjulengdum sem skýið gleypir ekki.

Vetrarbrautin fyllir upp í bakgrunn myndarinnar með ótal öldruðum gulleitum stjörnum. Sumar þeirra virðast daufari og rauðari vegna ryks í NGC 6559.

Þessi fallega mynd af fæðingarstað stjarna var tekin með danska Faint Object Spectrograph and Camera (DFOSC) á 1,54 metra danska sjónaukanum í La Silla í Chile. Þessi sjónauki hefur verið í notkun í La Silla frá árinu 1979 en hann var nýlega tekinn lagfærður og breytt í fjarstýrðan sjónauka í hæsta gæðaflokki.

Skýringar

[1] Þessar ungu stjörnur eru venjulega af litrófsgerð O og B og milli 10.000 og 60.000 gráðu heitar. Þær gefa frá sér mjög orkuríkt útfjólublátt ljós sem jónar vetnisatómin.

[2] Rayleigh dreifing, nefnd eftir breska eðlisfræðingnum Rayleigh lávarði, verður til þegar ljós dreifist af efnisögnum sem eru miklu minni en nemur bylgjulengd ljóssins. Dreifingin verður meiri fyrir stuttar bylgjulengdir ljóss, það er bylgjulengdir sem samsvara bláa enda sýnilega hluta rafsegulsrófsins. Þess vegna er ljósið bláleitt. Sama ferli skýrir hvers vegna himininn er blár.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1320.

Tengdar myndir

  • stjörnumyndunarsvæði, geimþoka, NGC 6559Þessi glæsilega mynd af NGC 6559 var tekin með danska 1,54 metra sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndin sýnir vel það stjórnleysi sem ræður ríkjum þegar stjörnur verða til í sameindaskýjum í geimnum. Á þessu svæði á himninum eru rauðglóandi ský úr vetnisgasi, bláleit svæði þar sem örsmáar rykagnir dreifa ljósi frá stjörnum og dökkir blettir þar sem ryk er þykkt og ógegnsætt. Mynd: ESO