Ný mynd frá Hubble af Abell 1689

Sævar Helgi Bragason 12. sep. 2013 Fréttir

Hubble hefur náð einni bestu myndinni hingað til af vetrarbrautaþyrpingunni Abell 1689 og þyngdarlinsuhrifum hennar.

  • Vetrarbrautaþyrpingin Abell 1689 og þyngdarlinsa hennar

Hubble hefur náð einni bestu myndinni hingað til af vetrarbrautaþyrpingunni Abell 1689 og þyngdarlinsuhrifum hennar. Þyrpingin er svo efnismikil að hún verkar eins og gríðarstór linsa í geimnum, sem magnar upp ljós frá fyrirbærum fyrir aftan hana og gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka svæði í geimnum í órafjarlæg. Abell 1689 er ekki aðeins uppfull af vetrarbrautum, heldur inniheldur þyrpingin líka aragrúa kúluþyrpinga.

Hubble hefur áður beint sjónum sínum að vetrarbrautaþyrpingunni Abell 1689 (árið 2002). Með þessari mynd hafa stjörnufræðingar hins vegar skeytt saman myndum Hubbles af sýnilegu og innrauðu ljósi, sem Advanced Camera for Surveys nemur, og geta þannig skoðað þetta svæði í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Í heild nam lýsingartíminn rúmum 34 klukkustundum.

Þessar nýju djúpumælingar voru gerðar til að rannsaka kúluþyrpingar í Abell 1689 [1]. Rannsóknin hefur leitt í ljós að í Abell 1689 er mestur fjölda kúluþyrpinga sem fundist hefur hingað til. Um 150 slíkir hópar gamalla stjarna hafa fundist á sveimi um Vetrarbrautina okkar en í Abell 1689 fann Hubble rúmlega 10.000 kúluþyrpingar. Út frá því áætla stjörnufræðingar að í vetrarbrautaþyrpingunni allri séu yfir 160.000 kúluþyrpingar.

Þetta náttúrulega stækkunargler hefur áður hjálpað stjörnufræðingum að leysa ráðgátur um alheiminn. Árið 2010 rannsökuðu stjörnufræðingar hulduefni og hulduorku með því að kortleggja samsetningu Abell 1689 (opo1037a, heic1014). Þyrpingin, sem verkar eins og súmlinsa, gerði Hubble ennfremur kleift að finna vetrarbraut sem kallast A1689-zD1 árið 2008, eina fjarlægustu og björtustu vetrarbraut sem sést hafði á þeim tíma (heic0805).

Myndin er prýdd mörgum fallegum, gulglóandi klumpum, björtum stjörnum og fjarlægum þyrilvetrarbrautum. Sumar þessara vetrarbrauta stefna hraðbyri í átt að miðju þyrpingarinnar en í leiðinni fýkur efni burt frá þeim og gefur þeim útlit dropa.

Í kringum þokukenndu vetrarbrautirnar í miðjunni sjást nokkrir bláleitir bogar eða rákir [2]. Þessar rákir eru komnar til af þyngdarlinsuhrifum. Abell 1689 er svo efnismikil, að hún beygir og bjagar rúmið í kringum sig og hefur þannig mikil áhrif á ljósið frá fyrirbærum fyrir aftan þyrpinguna. Rákirnar eru í raun bjagaðar myndir vetrarbrauta, langt fyrir aftan Abell 1689.

Á næstu árum mun Hubble rannsaka fleiri þyrpingar eins og Abell 1689 á meðan Frontier Fields verkefnið stendur yfir. Vonast er til að linsuhrif efnismikilla þyrpinga muni hjálpa stjörnufræðingum að sjá enn lengra út í hinn fjarlæga alheim.

Skýringar

[1] Kúluþyrpingar eru kúlulaga söfn mörg hundruð þúsund stjarna. Sumar þeirra innihalda elstu stjörnur alheims.

[2] Rákirnar sýnast bláar því mikil og ör stjörnumyndun á sér stað í vetrarbrautunum. Ungu stjörnurnar eru mjög heitar og gefa vetrarbrautinni bláan blæ.

Frekari upplýsingar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA), J. Blakeslee (NRC Herzberg Astrophysics Program, Dominion Astrophysical Observatory), og H. Ford (JHU).<(p>

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • vetrarbrautir, vetrarbrautaþyrping, Abell 1689, þyngdarlinsaVetrarbrautaþyrpingin Abell 1689 á mynd sem sett er saman úr mælingum Hubbles á sýnilegu og innrauðu ljósi sem stóðu yfir í 34 klukkustundir. Gulu kekkirnir eru vetrarbrautir en bláu rákirnar eru enn fjarlægari vetrarbrautir. Abell 1689 er svo efnismikil að hún verkar eins og risavaxin súmlinsa sem bjagar og magnar upp ljós frá fyrirbærum fyrir aftan.
  • vetrarbrautir, vetrarbrautaþyrping, Abell 1689, þyngdarlinsaLitlu punktarnir á innfelldu myndinni eru kúluþyrpingar í Abell 1689. Talið er að í þyrpingunni allri séu um 160.000 kúluþyrpingar.
  • vetrarbrautir, vetrarbrautaþyrping, Abell 1689, þyngdarlinsaLitlu punktarnir á myndinni eru kúluþyrpingar í Abell 1689 en stóru gulu kekkirnir eru vetrarbrautir. Talið er að í þyrpingunni allri séu um 160.000 kúluþyrpingar.