Ungar stjörnur matreiðast í Rækjuþokunni

Sævar Helgi Bragason 17. sep. 2013 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa náð glæsilegri mynd af nýfæddum stjörnum hreiðra um sig í fremur lítt þekktu stjörnumyndunarsvæði

  • Nákvæm mynd af Rækjuþokunni (IC 4628) frá VST sjónauka ESO

Glóandi gasskýið á þessari mynd er stórt stjörnumyndunarsvæði sem kallast Rækjuþokan. Myndin var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile og er að öllum líkindum sú skýrasta sem tekin hefur verið af þokunni. Á myndinni sjást heitar, nýfæddar stjörnur hreiðra um sig í skýjaslæðum þokunnar.

Í um 6.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, er geimþokan IC 4628, risavaxið ský úr gasi og ryki. Gasskýið er stjörnumyndunarsvæði sem hefur getið af sér bjartar og heitar, ungar sjtörnur. Í sýnilegu ljósi eru stjörnurnar nýfæddu bláhvítar en þær gefa líka frá sér orkuríka geislun á öðrum hluta rafsegulrófsins — einkum útfjólublátt ljós [1].

Það er þetta útfjólubláa ljós sem veldur því að skýið glóir. Geislunin rífur rafeindir af vetnisatómum sem síðar bindast þeim aftur og við það losnar orka á formi ljóss. Hvert frumefni hefur sinn einkennislit þegar þetta ferli á sér stað og í tilviki vetnis er rauður litur einkennandi. IC 4628 er dæmi um rafað vetnisský (HII svæði) [2].

Rækjuþokan er í kringum 250 ljósár í þvermál og þekur álíka stórt svæði á himninum og fjögur full tungl. Þrátt fyrir þessa miklu stærð fer þokan framhjá mörgum stjörnuáhugamönnum vegna þess hve dauf hún er. Þokan gefur auk þess aðallega frá sér ljós sem mannsaugað greinir með herkjum. Þokan er einnig kölluð Gum 56 eftir ástralska stjörnufræðingnum Colin Gum sem tók saman og gaf út skrá yfir röfuð vetnisský árið 1955.

Síðustu ármilljónirnar hafa fjölmargar stjörnur myndast á þessu svæði, bæði stakar og í þyrpingum. Á myndinni er til dæmis stór, gisin stjörnuþyrping sem kallast Collinder 316. Sú þyrping er hluti af miklu stærra safni mjög heitra og bjartra stjarna. Víða sjást ennfremur dökkar myndanir og holrúm þar sem öflugir vindar frá nálægum. heitum stjörnum hafa feykt burt miðgeimsefni.

Myndin var tekin með VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. VST er stærsti sjónauki heims sem hannaður er til að kortleggja himinhvolfið í sýnilegu ljósi. Þessi 2,6 metra sjónauki var smíðaður fyrir OmegaCAM myndavélina en í henni eru 32 CCD nemar sem saman taka 268 megapixla myndir. Þessi nýja 24.000 pixla breiða mynd er sett saman úr tveimur slíkum myndum og er ein stærsta staka ljósmyndin sem ESO hefur birt til þessa.

Myndin var tekin fyrir opinbert kortlagningarverkefni á stórum hluta Vetrarbrautarinnar sem kallast VPHAS+. Í verkefninu er greinigeta VST nýtt til að finna ný fyrirbæri, til dæmis ungar stjörnur og hringþokur og mun það einnig ná bestu myndunum hingað til af mörgum stjörnumyndunarsvæðum, eins og því sem hér sést.

Þótt myndir VST séu hnífskarpar voru þær betrumbættar með hágæða myndum sem Martin Pugh, afar fær stjörnuáhugamaður í Ástralíu, tók í gegnum mismunandi litsíur með 32 sentímetra og 13 sentímetra sjónaukum [3].

Þessi fréttatilkynning markar tímamót því hún er þúsundasta fréttatilkynning ESO. Sú fyrsta var birt árið 1985 og snerist um mynd af halastjörnu Halleys. Hægt er að nálgast allar tilkynningarnar hér.

Skýringar

[1] Þetta er sama tegund geislunar og veldur því að húðin á okkur brennur ef of mikið sólarljósi berst óhindrað að henni. Lofthjúpur Jarðar ver lífið fyrir útfjólubláu geisluninni að mestu leyti en einungis lengri bylgjulengdir (milli um það bil 300 og 400 nanómetrar) ná til Jarðar og valda sólbrúnku og sólbruna í húðunni. Hluti þeirrar útfjólubláu geislunar sem berst frá heitum stjörnum í röfuðum vetnisskýjum hefur mun styttri bylgjulengd (styttri en 91,2 nanómetrar) sem getur jónað vetni.

[2] Stjörnufræðingar nota hugtakið „HII“ til að lýsa jónuðu vetni en „HI“ fyrir ójónað vetni. Vetnisatóm samanstendur af rafeind sem bundin er við róteind; í jónuðu gasi eru atómin klofin í frjálsar rafeindir og jákvæðar jónir — í þessu tilviki eru jákvæðar jónir aðeins stakar róteindir.

[3] Frekari upplýsingar um mælingar Martin Pugh má nálgast á vef hans.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1340.

Tengdar myndir

  • Rækjuþokan, geimþokaRækjuþokan á mynd VST sjónauka ESO (víðmynd). Mynd: ESO. Þakkir: Martin Pugh
  • Rækjuþokan, geimþokaGlóandi gasskýið á þessari mynd er stórt stjörnumyndunarsvæði sem kallast Rækjuþokan. Myndin var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile og er að öllum líkindum sú skýrasta sem tekin hefur verið af þokunni. Á myndinni sjást heitar, nýfæddar stjörnur hreiðra um sig í skýjaslæðum þokunnar. Myndin inniheldur líka myndir af þokunni frá Martin Pugh. Mynd: ESO. Þakkir: Martin Pugh
  • Rækjuþokan, geimþokaÞessi myndbrot sýna mismunandi hluta af glóandi gasskýinu sem mynda stjörnumyndunarsvæðiðið Rækjuþokuna. Myndin var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile og er að öllum líkindum sú skýrasta sem tekin hefur verið af þokunni. Mynd: ESO. Þakkir: Martin Pugh

Krakkavæn útgáfa