Skrítnar stjörnuþyrpingar í mjúkum efnisskeljum

Sævar Helgi Bragason 10. okt. 2013 Fréttir

Fagrar efnisskeljar umlykja vetrarbrautina PGC 6240 eins og rósablöð á nýrri mynd Hubblessjónauka NASA og ESA.

  • Mynd Hubbles af PGC 6240

Fagrar efnisskeljar umlykja vetrarbrautina PGC 6240 eins og rósablöð á nýrri mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Í bakgrunni sjást fjölmargar fjarlægar vetrarbrautir. Þessi stjarnfræðilega blómgun hefur vakið athygli stjörnufræðinga vegna ójafnrar lögunar og vegna óvenjulegra stjörnuþyrpinga sem sveima um vetrarbrautina. Bæði þessi atriði benda til að hér hafi tvær vetrarbrautir runni saman.

PGC 6240 er sporvöluþoka sem líkist helst sölnaðri rós á himni. Fölar skeljarnar umlykja bjarta miðjuna. Sumar skeljarnar sitja þétt við miðju vetrarbrautarinnar, á meðan aðrar hafa skotist burt. Nokkrar efnisslæður hafa þeyst svo langt, að svo virðist sem þær tilheyri ekki lengur vetrarbrautinni.

Stjörnufræðingar hafa kannað PGC 6240 ítarlega vegna gerðar sinnar og einnig vegna kúluþyrpinga í kring. Kúluþyrpingar eru þéttir hópar stjarna sem þyngdaraflið bindur saman og svífa um aðrar vetrarbrautir. Um 150 kúluþyrpingar hringsóla um vetrarbrautina okkar og í þeim finnast aðeins gamlar stjörnur.

Allar kúluþyrpingarnar um tiltekna vetrarbraut myndast svo til samtímis, svo allar eru þær álíka gamlar. Það sama á náttúrulega við stjörnurnar í þyrpingunum, enda mynduðust þær einnig þá. Þetta á þó ekki við um PGC 6240. Sumar kúluþyrpinganna geyma gamlar stjörnur en aðrar talsvert yngri.

Sennilegasta skýringin á lagskiptingu efnisskeljanna og ungum aldri kúluþyrpinganna, er að PGC 6240 hafi líkast til rekist á aðra vetrarbraut einhvern tímann fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Við slíkan atburð bylgjast vetrarbrautin svo hún aflagast. Upp úr því myndast þessar skeljar sem virðast einmitt allar deila sömu miðju. Jafnframt hrinda atburðirnir af stað hrinu stjörnumyndunar bæði í vetrarbrautinni og nágrenni hennar, svo úr verða nýjar ungar kúluþyrpingar umhverfis PGC 6240.

PGC 6240 er sporvöluþoka í stjörnumerkinu Lagarorminum. Þá sjást einnig fjölmargar aðrar vetrarbrautir handan PGC 6240. Og þrátt fyrir að órafjarlægðir skilji okkur frá þeim getum við samt greint byggingu þeirra, sér í lagi hinna smáu þyrilþoka sem eru áberandi á svartri festingunni.

Frekari upplýsingar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Ottó Elíasson
Stjörnufræðivefnum
Dalvíkurútibú
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1318

Tengdar myndir

  • PGC 6240, vetrarbrautEfnisskeljar umlykja vetrarbrautina PGC 6240 eins og rósablöð á nýrri mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Í bakgrunni sjást fjölmargar fjarlægar vetrarbrautir. PGC 6240 er sporvöluþoka í um 350 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Lagarorminum. Umhverfis hana ganga kúluþyrpingar, ungar og aldnar. Þær bera vitni samruna tveggja vetrarbrauta sem átti sér hér stað ekki svo alls fyrir löngu. Mynd: ESA/Hubble & NASA. Þakkir: Judy Schmidt
  • PGC 6240, vetrarbrautMynd úr Digitized Sky Survey (DSS) verkefninu sem sýnir sporvöluþokuna PGC 6240 og nágrenni hennar. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2