Cassini finnur merki um haf innan í Enkeladusi
Sævar Helgi Bragason
03. apr. 2014
Fréttir
Mælingar sem gerðar voru með Cassini geimfarinu sýna að undir íshellu tunglsins Enkeladusar leynist um 10 km djúpt haf!
Mælingar sem gerðar voru með Cassini geimfarinu og útvarpssjónaukum NASA á jörðu niðri sýna, að á um það bil 30 til 40 km dýpi undir íshellu Satúrnusartunglsins Enkeladusar leynist um 10 km djúpt haf. Tilvist hafsins rennir stoðum undir þá tilgátu, að Enkeladus sé einn líklegasti staðurinn í sólkerfinu, fyrir utan jörðina, til að hýsa örverulíf. Greint er frá þessari uppgötvun í nýjasta hefti tímaritsins Science sem kemur út 4. apríl 2014.
Enkeladus er sjötta stærsta tungl Satúrnusar. Áður en Cassini geimfar NASA kom til Satúrnusar í júlí 2004, vissi enginn yfir hvaða leyndardómum þetta litla tungl, sem er álíka breitt og Ísland (um 500 km), byggi.
Þegar Cassini flaug fyrst framhjá Enkeladusi árið 2005, fundust gosstrókar sem spúðu vatnsgufu og ískristöllum upp úr sprungum á suðurhveli tunglsins og bjuggu þannig til einn af hringum Satúrnusar. Æ síðan hafa vísindamenn velt fyrir sér þeim möguleika, að undir ísilögðu yfirborði Enkeladusar gæti leynst fljótandi vatn og að staðurinn væri þá hugsanlega lífvænlegur.
Hingað til hefur Cassini geimfarið flogið nítján sinnum framhjá Enkeladusi. Þegar geimfarið flýgur framhjá tunglinu hefur þyngdartog þess áhrif á flugferilinn. Misþétt svæði á og innan í tunglinu toga með mismiklum krafti í geimfarið. Munurinn kemur fram sem breytingar á flughraða geimfarsins um tunglið og geta útvarpssjónaukar á jörðinni mælt breytinguna, sem verður á útvarpstíðninni í sendingunum frá geimfarinu, með Dopplermælingum — sömu tækni og lögreglan notar til að hraðamæla bíla.
Við þrjú framhjáflug milli áranna 2010 og 2012, voru gerðar mjög nákvæmar mælingar á flugferli geimfarsins. Þær sýndu að á suðurenda tunglsins voru svæði með hærri eðlismassa en aðrir hlutar innviðanna.
Þetta eru fyrstu jarðeðlisfræðilegu mælingarnar á innviðum Enkeladusar. Frávikin í þyngdarsviðinu, sem koma fram sem Dopplerhrif í útvarpssendingum frá geimfarinu, gefa upplýsingar um það sem leynist innan í tunglinu.
Á suðurpólnum er lægð í yfirborðinu sem veldur því að þyngdartogið minnkar staðbundið. Minnkunin var hins vegar minni en búist var við út frá stærð lægðarinnar. Það skýrist af því undir yfirborðinu leynist svæði með hærri eðlismassa. Með öðrum orðum, undir suðurpólnum er að öllum líkindum svæði sem fljótandi vatni sem hefur hærri eðlismassa en ís. Munurinn gerði mönnum kleift að mæla umfang vatnsgeymisins.
Þyngdarsviðsmælingarnar benda eindregið til þess að á um það bil 30 til 40 kílómetra dýpi undir íshellunni, leynist stórt og hugsanlega staðbundið um 10 kílómetra djúpt haf. Þetta haf rennir stoðum undir þá tilgátu að Enkeladus sé einn líklegasti staðurinn í sólkerfinu til að hýsa örverulíf!
Uppgötvunin gæti einnig hjálpað til við að skýra hvers vegna vatn gýs út úr sprungunum á suðurhvelinu. Sprungurnar sjálfar gætu hins vegar aðeins leitt niður á stað í tunglinu sem verður fyrir hitun (núningi) vegna flóðkrafta, sem teygja og toga ísskorpuna, þegar tunglið gengur á sinni sporöskjulaga braut um Satúrnus.
Mælingar Cassini hafa sýnt að strókarnir frá suðurpól Enkeladausar innihalda saltvatn og lífrænar sameindir. Þessi nýja uppgötvun á hafi á Enkeladusi gerir þetta litla tungl enn dularfyllra og áhugaverðara. Á Enkeladusi gætu leynst líf!
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]
Tengdar myndir
- Skýringarmynd af hafinu undir suðurpól Enkeladusar, sem er sjötta stærsta tungl Satúrnusar. Þyngdarmælingar sem gerðar voru með Cassini geimfarinu og útvarpssjónaukum NASA benda til þessa. Mynd: NASA/JPL-Caltech
- Gosstrókar sem spúa vatnsgufu og ískristöllum út úr sprungum á suðurhveli Enkeladusar. Mynd: NASA/JPL/Space Science Institute
Þetta er frétt frá Stjörnufræðivefnum sem byggir á fréttatilkynningu NASA
Cassini finnur merki um haf innan í Enkeladusi
Sævar Helgi Bragason 03. apr. 2014 Fréttir
Mælingar sem gerðar voru með Cassini geimfarinu sýna að undir íshellu tunglsins Enkeladusar leynist um 10 km djúpt haf!
Mælingar sem gerðar voru með Cassini geimfarinu og útvarpssjónaukum NASA á jörðu niðri sýna, að á um það bil 30 til 40 km dýpi undir íshellu Satúrnusartunglsins Enkeladusar leynist um 10 km djúpt haf. Tilvist hafsins rennir stoðum undir þá tilgátu, að Enkeladus sé einn líklegasti staðurinn í sólkerfinu, fyrir utan jörðina, til að hýsa örverulíf. Greint er frá þessari uppgötvun í nýjasta hefti tímaritsins Science sem kemur út 4. apríl 2014.
Enkeladus er sjötta stærsta tungl Satúrnusar. Áður en Cassini geimfar NASA kom til Satúrnusar í júlí 2004, vissi enginn yfir hvaða leyndardómum þetta litla tungl, sem er álíka breitt og Ísland (um 500 km), byggi.
Þegar Cassini flaug fyrst framhjá Enkeladusi árið 2005, fundust gosstrókar sem spúðu vatnsgufu og ískristöllum upp úr sprungum á suðurhveli tunglsins og bjuggu þannig til einn af hringum Satúrnusar. Æ síðan hafa vísindamenn velt fyrir sér þeim möguleika, að undir ísilögðu yfirborði Enkeladusar gæti leynst fljótandi vatn og að staðurinn væri þá hugsanlega lífvænlegur.
Hingað til hefur Cassini geimfarið flogið nítján sinnum framhjá Enkeladusi. Þegar geimfarið flýgur framhjá tunglinu hefur þyngdartog þess áhrif á flugferilinn. Misþétt svæði á og innan í tunglinu toga með mismiklum krafti í geimfarið. Munurinn kemur fram sem breytingar á flughraða geimfarsins um tunglið og geta útvarpssjónaukar á jörðinni mælt breytinguna, sem verður á útvarpstíðninni í sendingunum frá geimfarinu, með Dopplermælingum — sömu tækni og lögreglan notar til að hraðamæla bíla.
Við þrjú framhjáflug milli áranna 2010 og 2012, voru gerðar mjög nákvæmar mælingar á flugferli geimfarsins. Þær sýndu að á suðurenda tunglsins voru svæði með hærri eðlismassa en aðrir hlutar innviðanna.
Þetta eru fyrstu jarðeðlisfræðilegu mælingarnar á innviðum Enkeladusar. Frávikin í þyngdarsviðinu, sem koma fram sem Dopplerhrif í útvarpssendingum frá geimfarinu, gefa upplýsingar um það sem leynist innan í tunglinu.
Á suðurpólnum er lægð í yfirborðinu sem veldur því að þyngdartogið minnkar staðbundið. Minnkunin var hins vegar minni en búist var við út frá stærð lægðarinnar. Það skýrist af því undir yfirborðinu leynist svæði með hærri eðlismassa. Með öðrum orðum, undir suðurpólnum er að öllum líkindum svæði sem fljótandi vatni sem hefur hærri eðlismassa en ís. Munurinn gerði mönnum kleift að mæla umfang vatnsgeymisins.
Þyngdarsviðsmælingarnar benda eindregið til þess að á um það bil 30 til 40 kílómetra dýpi undir íshellunni, leynist stórt og hugsanlega staðbundið um 10 kílómetra djúpt haf. Þetta haf rennir stoðum undir þá tilgátu að Enkeladus sé einn líklegasti staðurinn í sólkerfinu til að hýsa örverulíf!
Uppgötvunin gæti einnig hjálpað til við að skýra hvers vegna vatn gýs út úr sprungunum á suðurhvelinu. Sprungurnar sjálfar gætu hins vegar aðeins leitt niður á stað í tunglinu sem verður fyrir hitun (núningi) vegna flóðkrafta, sem teygja og toga ísskorpuna, þegar tunglið gengur á sinni sporöskjulaga braut um Satúrnus.
Mælingar Cassini hafa sýnt að strókarnir frá suðurpól Enkeladausar innihalda saltvatn og lífrænar sameindir. Þessi nýja uppgötvun á hafi á Enkeladusi gerir þetta litla tungl enn dularfyllra og áhugaverðara. Á Enkeladusi gætu leynst líf!
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]
Tengdar myndir
Þetta er frétt frá Stjörnufræðivefnum sem byggir á fréttatilkynningu NASA