Hubble uppgötvar að stór hluti stjarna í alheiminum urðu til í dvergvetrarbrautum

Sævar Helgi Bragason 19. jún. 2014 Fréttir

Nýjar mælingar frá Hubblessjónaukanum sýna að stjörnumyndunarhrinur í dvergvetrarbrautum, snemma í sögu alheimsins, mynduðu stóran hluta þeirra stjarna sem við sjáum í alheiminum í dag

  • Dvergvetrarbrautir í GOODS sviðinu

Nýjar mælingar frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýna að stjörnumyndunarhrinur í dvergvetrarbrautum, snemma í sögu alheimsins, mynduðu stóran hluta þeirra stjarna sem við sjáum í alheiminum í dag. Uppgötvunin hjálpar stjörnufræðingum að átta sig á því hvar og hvernig flestar stjörnur urðu til í alheiminum og hvernig vetrarbrautir hafa þróast í gegnum tíðina.

Þótt nýjar stjörnur myndist enn í dag í vetrarbrautum, myndaðist stærstur hluti stjarna milli 2 til 6 milljörðum ára eftir Miklahvell. Að rannsaka þetta mikilvæga skeið í sögu alheimsins er því lykillinn að því að skilja hvernig stjörnur urðu til og hvernig vetrarbrautir hafa vaxið og þróast.

Stjörnufræðingar notuðu Wide Field Camera 3, innrauða myndavél Hubble geimsjónaukans, til að skoða safn dvergvetrarbrauta frá þessu skeiði í sögu alheimsins, einkum hóp af hrinuvetrarbrautum í þessu sama safni. Hrinuvetrarbrautir mynda stjörnur af miklu offorsi, miklu örar en dæmigerðar stjörnumyndandi vetrarbrautir. Eldri rannsóknir á hrinuvetrarbrautum hafa einkum beinst að meðalstórum eða stórum vetrarbrautum, svo gat var í þekkingu okkar á þeim mikla fjölda dvergvetrarbrauta sem til voru á þessu stjörnumyndunartímabili.

„Okkur grunaði að hrinudvergvetrarbrautirnar hefðu lagt sitt af mörkum til stjörnumyndunar, en þetta er í fyrsta sinn sem okkur hefur tekist að mæla áhrif þeirra,“ segir Hakim Atek við École Polytechnique Fédérale de Lausanne (EPFL) í Sviss, aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birtist í vefútgáfu tímaritsins The Astrophysical Journal þann 19. júní 2014. „Dvergvetrarbrautir virðast þannig hafa leikið mjög stórt hlutverk á þessu skeiði þegar stjörnumyndun var hve örust í alheiminum,“ segir hann.

„Þessar vetrarbrautir mynda stjörnur svo hratt, að þær gætu í raun tvöfaldað stjörnufjöldann á aðeins 150 milljónum ára — flestar vetrarbrautir væru 1-3 milljarða ára að gera slíkt hið sama,“ segir Jean-Paul Kneib, meðhöfundur greinarinnar, einnig við EPFL.

Niðurstöðurnar byggja á áratuga langri rannsókn sem hafði það markmið að varpa ljósi á tengslin á milli massa vetrarbrauta og stjörnumyndunar í þeim og draga upp mynd af atburðum snemma í sögu alheimsins.

Fyrir utan að gefa okkur nýja sýn á hvar og hvernig stjörnur í alheiminum mynduðust, munu þessar niðurstöður hjálpa okkur að svipta hulunni af leyndardómum um þróun vetrarbraut.

Hrinuvetrarbrautir eru ekki svo ýkja algengar en það bendir til þess að stjörnumyndunarhrinur séu komnar til af einhverju eins og samruna vetrarbrauta, víxlverkun við aðra vetrarbraut eða höggbylgjum frá sprengistjörnum.

Með því að rannsaka þessar vetrarbrautir nánar og reyna að skilja hvernig þær mynduðust og þróuðust í upphafi, vonast stjörnufræðingar til að finna orsök stjörnumyndunarhrinanna og læra meira um þróun vetrarbrauta í alheiminum.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • GOODS, dvergvetrarbrautirÁ myndinni sést svæðið sem stjörnufræðingar notuðu til að kanna dvergvetrarbrautir snemma í sögu alheimsins. Mælingar Hubblessjónaukans sýna að þessar dvergvetrarbrautir mynduðu stjörnur með miklu offorsi á því skeiði í sögu alheimsins þegar stjörnumyndun var hve örust. Mynd: NASA, ESA, GOODS teymið og M. Giavalisco (STScI/University of Massachusetts)