Lendingarstaður valinn á halastjörnu Rosetta

Sævar Helgi Bragason 16. sep. 2014 Fréttir

Evrópska geimvísindastofnunin tilkynnti í gær um val á lendingarstað fyrir Philae, könnunarfar Rosetta geimfarsins, á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko

  • Lendingarstaður Philae á 67P/Churyumov-Gerasimenko

Evrópska geimvísindastofnunin ESA tilkynnti í gær um val á lendingarstað fyrir Philae, könnunarfar Rosetta geimfarsins, á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko. Fimm lendingarstaðir komu til greina en að lokum völdu vísindamenn og verkfræðingar stað á „höfði“ halastjörnunnar sem talinn er bæði nokkuð öruggur til lendingar og vísindalega áhugaverður. Lending Philae er fyrirhuguð í kringum 11. nóvember næstkomandi.

Leit að lendingarstað fyrir Philae könnunarfarið hófst um leið og Rosetta geimfar ESA fór á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko hinn 6. ágúst síðastliðinn.

Hinn 24. ágúst hafði nægum gögnum verið aflað úr um það bil 100 km hæð til þess að greina mætti fimm áhugaverðustu staðina, sem jafnframt væru nægilega öruggir til að Philae gæti lent á þeim.

Síðan hefur geimfarið fært sig í innan við 30 km hæð yfir halastjörnunni og gert mönnum kleift að skoða staðina betur.

Við val á lendingarstað voru ýmsir þættir hafðir í huga. Flugleið, eða öllu heldur fallleið (kanninn mun falla stjórnlaust niður á yfirborðið), Philae varð að vera eins örugg og hægt var.

Á yfirborðinu urðu birtuskilyrði að vera góð, þ.e. dagur og nótt urðu að vera nokkurn veginn jafn löng og Rosetta varð að geta flogið reglulega yfir lendingarstaðinn til að halda fjarskiptasambandi við Philae.

Enginn hugsanlegur lendingarstaður sem skoðaður var uppfyllti öll skilyrði leiðangursstjóra svo skásti kosturinn var valinn.

Lendingarstaður Philae á 67P/Churyumov-Gerasimenko
Staðirnir fimm á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko sem komu til greina fyrir lendingu Philae könnunarfars Rosetta. Mynd: ESA/Rosetta/MPS fyrir OSIRIS hópinn MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Lendingarstaðurinn fyrirhugaði er kallaður staður J á „höfði“ gúmmíandarlaga halastjörnunnar. Hann er tiltölulega flatur á lítilli ístungu sem vonir standa til að innihaldi frumstætt efni, þ.e.a.s. efni lítið sem ekkert hefur breyst.

Á staðnum eru líka áhugaverð yfirborðskennileiti, landslagshalli lítill sem dregur úr líkum á að Philae velti við lendingu, fáir hnullungar og birtuskilyrði góð þannig að Philae geti haldið rannsóknum áfram á yfirborðinu fram yfir áætlaðan endingartíma rafhlaðanna.

Lendingarstaður Philae á 67P/Churyumov-Gerasimenko
Fyrirhugaður lendingarstaður Philae könnunarfarsins (merktur með hvítum krossi) á „höfði“ halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko. Mynd: ESA/Rosetta/MPS fyrir OSIRIS hópinn MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Til vara er staður C á „líkama“ halastjörnunnar.

Allt lendingarferlið verður þaulskipulagt fyrirfram. Áður en Philae er losað frá Rosetta mun því hafa borist allar skipanir frá leiðangursstjórum við þýsku geimvísindastofnunina (DLR) en það verður sjálfvirkt við aðskilnað.

Halastjarnan er svo langt frá Jörðinni, að útilokað er fyrir menn að fjarstýra lendingunni.

Fyrstu útreikningar benda til að Philae verði um sjö klukkustundir að falla niður á halastjörnuna. Við lendingu, sem verður á gönguhraða, skýtur geimfarið skutlum og ísskrúfum til að hlekkja sig við yfirborðið, ella gæti geimfarið skoppað upp af því og burt frá halastjörnunni aftur.

Eftir lendingu tekur geimfarið 360 gráðu víðmynd af svæðinu. Fyrstu mælingar hefjast strax í kjölfarið, til dæmis rafgas- og segulmælingar og hitastigsmælingar, bæði á yfirborði og undir því.

Philae mun einnig bora í ísinn, safna sýnum og flytja í tilraunastofu sem er um borð til nánari skoðunar. Innri bygging halastjörnunnar verður líka könnuð með því að senda útvarpsbylgjur í gegnum hana til Rosetta.

Þetta er í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til að lenda á halastjörnu. Óvenjuleg lögun halastjörnunnar gerir lendinguna enn erfiðara og eru menn síður en svo vissir um að hún heppnist. Menn hafa enga stjórn á lendingarfarinu eftir aðskilnað heldur ræður þyngdarkrafturinn för.

Dagsetning lendingar verður staðfest 26. september eftir að ítarlegri skoðun hefur farið fram. Lokaákvörðun um lendingu verður tekin hinn 14. október.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984