Floti gervitungla búinn undir einstaka heimsókn halastjörnu til Mars

Sævar Helgi Bragason 16. okt. 2014 Fréttir

Hinn 19. október mun halastjarnan Siding Spring komast gerast einstaklega nærgöngul við Mars. Þessi einstaki atburður gefur vísindamönnum ómetanlegt tækifærit til að rannsaka halastjörnu úr Oortsskýinu

  • Halastjarna geysist framhjá Mars

Sunnudagskvöldið 19. október mun halastjarnan C/2013 A1 eða Siding Spring komast í innan við 139.500 km fjarlægð frá Mars, eða sem nemur einum þriðja af fjarlægðinni milli Jarðar og tunglsins. Halastjarnan verður næst Mars um klukkan 18:30 og þýtur þá framhjá reikistjörnunni á 56 kílómetra hraða á sekúndu (201.600 km/klst). Þessi mikla nálægð gefur vísindamönnum einstakt tækifæri til að rannsaka halastjörnu sem aldrei áður hefur ferðast inn í innra sólkerfið og áhrifin sem hún hefur á lofthjúp reikistjörnu.

Halastjarnan Siding Spring fannst frá Ástralíu árið 2013. Þegar braut hennar var könnuð kom í ljós að hana mátti rekja beint úr Oortsskýinu, risavaxinn sverm halastjarna sem umlykja sólina okkar um 5000 til 100.000 fjær sólu en Jörðin. Oortsskýið er leifar frá myndum sólkerfisins og halastjörnurnar sem þar eru hafa lítið sem ekkert breyst í 4,6 milljarða ára. Þær geyma því frumstæðasta efni sólkerfisins. Siding Spring verður þar af leiðandi fyrsta halastjarnan úr Oortsskýinu sem rannsökuð er í návígi.

Halastjarnan Siding Spring innan um stjörnur Vetrarbrautarinnar þremur sólarhringum fyrir stefnumót sitt við Mars. Mynd: Damian Peach
Halastjarnan Siding Spring innan um stjörnur Vetrarbrautarinnar þremur sólarhringum fyrir stefnumót sitt við Mars. Mynd: Damian Peach

Fimm geimför eru á braut um Mars þessi misserin auk jeppanna Opportunity og Curiosity á yfirborðinu. Til að búa geimförin undir heimsókn halastjörnunnar hafa NASA, ESA og ISRO (indverska geimstofnunin) breytt sporbrautum Mars Odyssey, Mars Reconnaissance Orbiter, MAVEN, Mars Express og Mars Orbiter Mission um plánetuna, til að draga úr hættu á að þau verði fyrir skaða frá hraðfleygum ís- og rykögnum frá halastjörnunni.

Hættan verður mest um 90 mínútum eftir að halastjarnan er næst Mars og stendur yfir í um 20 mínútur, þegar Mars er næst miðju hala halastjörnunnar. Bestu myndirnar munu koma frá brautarförunum skömmu fyrir og eftir að halastjarnan er næst Mars.

Engin hætta er á að geimförin rekist á halastjörnuna sjálfa, enda kjarni hennar aðeins örfáir kílómetrar í þvermál (á stærð við lítið fjall), heldur er mesta hættan fólgin í rykinu í halanum. Mars verður við brún rykhalans, svo ekki er jafn mikil hætta á ferðum og menn óttuðust í upphafi.

Lofthjúpur Mars er örþunnur en mun engu að síður hlífa jeppunum Opportunity og Curiosity fyrir halastjörnuryki. Báðir jepparnir munu beina myndavélum sínum og mælitækjum til himins og ná hugsanlega myndum af loftsteinahröpum (stjörnuhröpum).

Brautarförin fimm munu afla upplýsinga fyrir, á meðan og eftir að halastjarnan geysist framhjá Mars. Mælingar verða gerðar á stærð, snúningi og virkni á kjarna halastjörnunnar, gas- og rykhjúpnum í kringum hana og stærð og dreifingu rykagna í halanum.

Evrópska geimfarið Mars Express á að reyna að áætla magn vatns í hjúpi halastjörnunnar, rannsaka áhrif sólvindsins á hann og ljósmynda kjarnann og loftsteinahröp i lofthjúpi Mars. Þar sem lofthjúpur Mars er mun þynnri en lofthjúpur Jarðar munu agnirnar brenna upp mun nær yfirborðinu en á Jörðinni.

MAVEN, sem fór á braut um Mars 22. september síðastliðinn, verður notað til að kanna áhrif halastjörnunnar á lofthita og ský, sem og hvernig gas- og rykhjúpur hennar víxlverkar við sólvindinn og efri hluta lofthjúps Mars.

Sjónaukum á Jörðu niðri og geimsjónaukum eins og Hubble, Kepler, Swift, Spitzer og Chandra munu einnig fylgjast náið með þessum einstaka atburði.

Myndir verða birtar fljótlega eftir að þær berast til Jarðar og að sjálfsögðu verður fylgst náið með á Stjörnufræðivefnum og Facebook síðu okkar.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984