25 ára afmæli Hubbles fagnað með flugeldasýningu í geimnum

Sævar Helgi Bragason 23. apr. 2015 Fréttir

Á þessari nýju mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést fæðingarstaður stjarna í um 20.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Stjörnuþyrpingin nefnist Westerlund 2 og sést hér ásamt gas- og rykskýinu sem hún myndaðist úr.

  • Stjörnuþyrpingin Westerlund 2 og Gum 29 geimþokan

Myndin er birt í tilefni af 25 ára afmæli Hubblessjónaukans í geimnum. Stór útgáfa af myndinni var afhjúpuð í Vísindasmiðju Háskóla Íslands í dag.

Hinn 24. apríl árið 1990 var Hubble geimsjónauka NASA og ESA skotið á loft með geimferjunni Discovery. Í 25 ár hefur sjónaukinn breytt skilningi manna á alheiminum og um leið sýn almennings á stjarnvísindi, enda eru myndir sjónaukans oft sannkölluð listaverk.

Afmælismynd Hubbles árið 2015 er af risavaxinni stjörnuþyrpingu sem samanstendur af um 3000 stjörnum og kallast Westerlund 2 eftir sænska stjörnufræðingnum Bengt Westerlund sem uppgötvaði hana á sjöunda áratug 20. aldar.

Þyrpingin er aðeins um 10 ljósár að þvermáli og að finna innan í stóru og öflugu stjörnumyndunarskýi sem kallast Gum 29 og er í um 20.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum. Myndin af þyrpingunni var útbúin með því að blanda saman sýnilegu ljósi sem Advanced Camera for Surveys nam og nær-innrauðum ljósmyndum frá Wide Field Camera 3.

Stjörnuþyrpingin Westerlund 2 og Gum 29 geimþokan
Stjörnuþyrpingin Westerlund 2 og Gum 29 geimþokan. Myndin var tekin í tilefni af 25 ára afmælis Hubble geimsjónaukans. Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team (STScI/AURA), A. Nota (ESA/STScI), og Westerlund 2 Science Team

Þyrpingin er hulin ryki svo sýnilegt ljós frá stjörnunum í henni berst mjög illa í gegn. Hubble getur hins vegar skyggnst í gegnum rykið í nær-innrauðu ljósi með Wide Field Camera 3 myndavéli sinni.

Stjörnurnar í Westerlund 2 eru aðeins um 2 milljóna ára gamlar en í henni eru margar björtustu, heitustu og efnismestu stjörnum sem fundist hafa. Öflugustu stjörnur þyrpingarinnar gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós og öfluga sólvinda sem feykja gasi og ryki burt — rétt eins og þær séu að klekjast úr egginu.

Sama geislun og sömu vindar móta þau sérkennilegu form sem sjást í gas- og rykskýjunum á myndinni. Dökkleitu stólparnir í þokunni í kringum Westerlund 2 eru úr þéttu gasi og ryki. Þeir eru nokkur ljósár á hæð og vísa í átt að þyrpingunni í miðjunni. Talið er að stólparnir séu nokkurs konar stjörnuverksmiðjur.

Stjörnuþyrpingin Westerlund 2 og Gum 29 geimþokan
Stjörnumyndunarsvæðið Gum 29 sem stjörnuþyrpingin Westerlund 2 tilheyrir. Dökku stólparnir myndast fyrir tilverknað geislunar og vinda frá stjörnunum í þyrpingunni. Björtu báu stjörnurnar á myndinni tilheyra hvorki þyrpingunni né þokunni. Mynd: NASA, ESA, the Hubble Heritage Team (STScI/AURA), A. Nota (ESA/STScI), and the Westerlund 2 Science Team

Rauðu deplarnir á myndinni eru stjörnur í mótun, enn umluktar gas- og rykhjúpum sínum. Þessi stjörnufóstur hafa enn ekki hafið vetnisbruna í kjörnum sínum en þegar það gerist eru þær orðnar fullmótaðar stjörnur eins og sólin okkar. Bláu stjörnurnar á víð og dreif um myndina eru flestallar nær okkur í Vetrarbrautinni.

Stjörnuþyrpingin Westerlund 2 og Gum 29 geimþokan
Nýjar stjörnur í kringum Westerlund 2. Mynd: NASA, ESA, the Hubble Heritage Team (STScI/AURA), A. Nota (ESA/STScI), and the Westerlund 2 Science Team

Þessi stórkostlega mynd er gott dæmi um frábæra greinigetu Hubble geimsjónaukans og sýnir að þrátt fyrir 25 ár í geimnum er saga hans hvergi nærri á enda. Árið 2018 verður arftaka Hubbles skotið á loft, James Webb geimsjónaukanum, og ef af líkum lætur munu báðir stara út í alheiminn samtímis í nokkur ár.

Tenglar

- Sævar Helgi Bragason