Litadýrð Tvístrókaþokunnar
Sævar Helgi Bragason
25. ágú. 2015
Fréttir
Hringþokur eru meðal fegurstu fyrirbæra næturhiminsins. Á þessari
mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést ein slík sem kallast
Fiðrildaþokan eða Tvístrókaþokan.
Tveir efniskekkir liggja út frá tvístirnakerfi í miðjunni en inn í þeim eru gasstraumar sem flæða út í geiminn á meira en milljón km hraða á klukkustund.
Fiðrildalaga geimþokan sem sést hér á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA er kölluð Tvístrókaþokan (Twin Jet Nebula). Þokan gengur líka undir nafninu Fiðrildaþokan og skráarheitinu PN M2-9. M-ið vísar til þýsk-bandaríska stjörnufræðingsins Rudolph Minkowski sem fann þokuna árið 1947 en PN stendur fyrir þá staðreynd að M2-9 er hringþoka (planetary nebula).
Þokan sýnir lokastigið í ævi meðalstórrar stjörnu sem svipar til sólarinnar okkar. Stjarnan hefur varpað frá sér ytri lögum sínum og skilið kjarnann eftir nakinn sem lýsir upp skýið með orkuríku útfjólubláu ljósi. Litadýrðina má rekja til mismunandi og misheitra gastegunda sem stjarnan framleiddi á langri ævi sinni.
Tvístrókaþokan er tvískauta hringþoka sem rekja má til þess að í miðju hennar er tvístirnakerfi. Í hefðbundnum hringþokum er ein stjarna í miðjunni, eins og til dæmis í Hringþokunni í Hörpunni.
Stjörnurnar tvær í Tvístrókaþokunni eru álíka efnismiklar og sólin okkar. Minni stjarnan er 0,6 til 1,0 sólmassar en stærri stjarnan er 1,0 til 1,4 sólmassar. Stærri stjarnan er að deyja og hefur varpað frá sér efninu sem sést á myndinni en fylgistjarnan hefur þegar gengið í gegnum sama ferli og er nú hvítur dvergur.
Mynstrin í „vængjum“ Tvístrókaþokunni má rekja til snúnings stjarnanna tveggja um sameiginlega massamiðju. Þyngdarkraftur hvíta dvergsins vindur upp á efnið sem hin stjarnan varpar frá sér. Vængirnir eru enn að breiða úr sér og hafa stjörnufræðingar reiknað út að þokan sé aðeins um 1200 ára gömul.
Innan í vængjnum má sjá bláa bletti sem liggja út frá kerfinu eins og æðar. Þessir blettir eru gasstrókar sem streyma út í geiminn á yfir milljón km hraða á klukkustund.
Stjörnurnar tvær í miðju þokunnar hringsóla hver um aðra á 100 árum. Þessi snúningur framkallar ekki aðeins mynstrin í strókunum tveimur, heldur dregur hvíti dvergurinn til sín efni frá stærri stjörnunni. Úr verður risavaxin efnisskífa í kringum stjörnuna sem er sennilega 15 sinnum breiðari en sem nemur fjarlægð Plútós frá sólinni okkar! Þótt skífan sé mikil um sig er hún of smá til þess að Hubble komi auga á hana.
Tvístrókaþokan er í um 2100 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Naðurvalda.
Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: Judy Schmidt
Litadýrð Tvístrókaþokunnar
Sævar Helgi Bragason 25. ágú. 2015 Fréttir
Hringþokur eru meðal fegurstu fyrirbæra næturhiminsins. Á þessari mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést ein slík sem kallast Fiðrildaþokan eða Tvístrókaþokan.
Tveir efniskekkir liggja út frá tvístirnakerfi í miðjunni en inn í þeim eru gasstraumar sem flæða út í geiminn á meira en milljón km hraða á klukkustund.
Fiðrildalaga geimþokan sem sést hér á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA er kölluð Tvístrókaþokan (Twin Jet Nebula). Þokan gengur líka undir nafninu Fiðrildaþokan og skráarheitinu PN M2-9. M-ið vísar til þýsk-bandaríska stjörnufræðingsins Rudolph Minkowski sem fann þokuna árið 1947 en PN stendur fyrir þá staðreynd að M2-9 er hringþoka (planetary nebula).
Þokan sýnir lokastigið í ævi meðalstórrar stjörnu sem svipar til sólarinnar okkar. Stjarnan hefur varpað frá sér ytri lögum sínum og skilið kjarnann eftir nakinn sem lýsir upp skýið með orkuríku útfjólubláu ljósi. Litadýrðina má rekja til mismunandi og misheitra gastegunda sem stjarnan framleiddi á langri ævi sinni.
Tvístrókaþokan er tvískauta hringþoka sem rekja má til þess að í miðju hennar er tvístirnakerfi. Í hefðbundnum hringþokum er ein stjarna í miðjunni, eins og til dæmis í Hringþokunni í Hörpunni.
Stjörnurnar tvær í Tvístrókaþokunni eru álíka efnismiklar og sólin okkar. Minni stjarnan er 0,6 til 1,0 sólmassar en stærri stjarnan er 1,0 til 1,4 sólmassar. Stærri stjarnan er að deyja og hefur varpað frá sér efninu sem sést á myndinni en fylgistjarnan hefur þegar gengið í gegnum sama ferli og er nú hvítur dvergur.
Mynstrin í „vængjum“ Tvístrókaþokunni má rekja til snúnings stjarnanna tveggja um sameiginlega massamiðju. Þyngdarkraftur hvíta dvergsins vindur upp á efnið sem hin stjarnan varpar frá sér. Vængirnir eru enn að breiða úr sér og hafa stjörnufræðingar reiknað út að þokan sé aðeins um 1200 ára gömul.
Innan í vængjnum má sjá bláa bletti sem liggja út frá kerfinu eins og æðar. Þessir blettir eru gasstrókar sem streyma út í geiminn á yfir milljón km hraða á klukkustund.
Stjörnurnar tvær í miðju þokunnar hringsóla hver um aðra á 100 árum. Þessi snúningur framkallar ekki aðeins mynstrin í strókunum tveimur, heldur dregur hvíti dvergurinn til sín efni frá stærri stjörnunni. Úr verður risavaxin efnisskífa í kringum stjörnuna sem er sennilega 15 sinnum breiðari en sem nemur fjarlægð Plútós frá sólinni okkar! Þótt skífan sé mikil um sig er hún of smá til þess að Hubble komi auga á hana.
Tvístrókaþokan er í um 2100 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Naðurvalda.
Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: Judy Schmidt