Stjörnuhimininn í október 2015

Sævar Helgi Bragason 30. sep. 2015 Fréttir

  • Stjörnur skoðaðar frá Hótel Rangá

Október hefur upp á margt að bjóða fyrir stjörnuáhugafólk, sér í lagi á morgunhimninum sem prýddur er þremur reikistjörnum.

Helstu stjarnfræðilegu atburðir í október 2015

Eftirfarandi tafla sýnir helstu stjarnfræðilegu atburði sem eiga sér stað í mánuðinum. Tímasetningar eru miðaðar við Ísland. Athugaðu að ekki allir atburðir sjást frá Íslandi vegna legu landsins og birtuskilyrða.

Dags.
Tími
Atburður
2. október

Aldebaran skammt austan við tunglið
4. október
21:06
SÍÐASTA KVARTIL TUNGLSINS
9. október
07:00
Júpíter, Mars, Venus og tunglið saman á morgunhimni
9. október
  Loftsteinadrífan Drakonítar nær hámarki
11. október
13:17
Tunglið í jarðfirrð: 406.389 km
12. október
03
Úranus í gagnstöðu
12. október
18
Merkúríus í sólnánd
13. október
00:06
NÝTT TUNGL
16. október
03
Merkúríus við mestu álengd: 18,1°V
20. október
20:31
FYRSTA KVARTIL TUNGLSINS
21. október
23
Loftsteinadrífan Óríonítar í hámarki
26. október
07
Venus við mestu álengd: 46,4°V
26. október
12:59
Tunglið í jarðnánd: 358.464 km
27. október
12:05
FULLT TUNGL
29. október
22:45
Aldebaran 0,6°S við tunglið

Vakin er sérstök athygli á helstu atburðum á Facebook síðu Stjörnufræðivefsins og, í sumum tilvikum, á Stjörnufræðivefnum sjálfum.

Settar verða inn ljósmyndir af helstu viðburðum eftir að atburðirnir eiga sér stað.

Reikistjörnur á morgunhimni

Morgunhimininn í október er einstaklega glæsilegur, skreyttur þremur reikistjörnum — Júpíter, Mars og Venusi — í suðaustri við sólarupprás í stjörnumerkinu Ljóninu. Venus er skærust (birtustig –4,5), Júpíter litlu daufari (birtustig –1,8) en Mars daufastur (birtustig +1,7).

Í gegnum sjónauka sést að Venus er vaxandi sigð en stærð hennar á himninum minnkar þegar líður á mánuðinn, enda að fjarlægast Jörðina á för sinni um sólina.

Að morgni föstudagsins 9. október myndar tunglið, sem er minnkandi, þríhyrning með Mars og Júpíter og Venusi og Regúlusi í Ljóninu fyrir ofan. Tveimur dögum síðar gæti verið hægt að sjá Merkúríus við hlið tunglsins, mjög lágt á lofti, í morgunbirtunni.

Júpíter, Mars, Venus og tunglið saman á morgunhimni
Tunglið og reikistjörnur á morgunhimninum yfir Íslandi föstudagsmorguninn 9. október 2015. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Í dögun dagana 24.-26. október skín þríeykið Venus, Júpíter og Mars á himni í austri. Innan við 2 gráður skilja að Venus og Júpíter og Mars verður aðeins 3 gráður fyrir neðan. 

Samstaða Júpíters, Venusar og Mars 26. október 2015
Samstaða þríeykisins Venusar, Júpíters og Mars á suð-austurhimni skömmu fyrir sólarupprás dagana 24.-26. október 2015. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Heimildir

  1. Calendar of Astronomical Events eftir Fred Espenak, www.AstroPixels.com.

- Sævar Helgi Bragason