Niturjöklar og fjallasalir á nýjustu myndum New Horizons

Sævar Helgi Bragason 17. sep. 2015 Fréttir

Stórkostlegar myndir halda áfram að berast frá New Horizons geimfarinu af Plútó.

  • Stórbrotið yfirborð og lagskiptur lofthjúpur á myndum New Horizons

Á nýjustu myndunum sjást allt að 3500 metra há ísfjöll varpa löngum skuggum á landslagið, niturjöklar og mistur í lofthjúpnum.

Myndirnar hér að ofan og neðan voru teknar aðeins 15 mínútum eftir að New Horizons var næst Plútó hinn 14. júlí síðastliðinn úr 18.000 km hæð. Geimfarið leit til baka í átt að sólinni og tók myndina sem sýnir stórbrotið útsýnið við sólsetur. Sputnik Planum sléttan sést hægra megin en við vesturbrún hennar eru allt að 3500 metra há fjöll sem hafa verið kölluð Norgay Montes Við sjóndeildarhringinn eru Hillary Montes.

Í lofthjúpnum sést meira en tugur misturslaga, það hæsta í um 100 km hæð.

Stórbrotið yfirborð og lagskiptur lofthjúpur á myndum New Horizons
Mynd: NASA/JHUAPL/SwRI

Nærmyndir sýna ennfremur skriðjökla úr nitri sem ganga niður úr fjöllunum á Sputnik Planum íssléttuna. Á Plútó virðist því vera niturhringrás ekki ósvipuð hringrás vatns á Jörðinni: Nitur gufar upp af yfirborðinu og myndar ský í lofthjúpnum sem síðan falla sem snjór og bæta á jöklana. Jöklarnir skríða fram á sléttuna þar sem ferlið hefst á ný.

Skriðjöklar á Plútó
Mynd: NASA/JHUAPL/SwRI

- Sævar Helgi Bragason