Fóbos er hægt og rólega að tvístrast

Sævar Helgi Bragason 11. nóv. 2015 Fréttir

Nýtt líkan vísindamanna hjá NASA benda til að stórar, langar sprungur á Fóbosi séu fyrstu merki þess að tunglið sé að sundrast vegna flóðkrafta.

  • Marstunglið Fóbos. Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona

Á Fóbosi, öðru tveggja tungla Mars, eru stórar, langar sprungur sem menn hafa lengi átt erfitt með að útskýra. Nýtt líkan vísindamanna hjá Goddard geimferðamiðstöð NASA í Maryland bendir til þess að sprungurnar séu fyrstu merkin um bresti í tunglinu sem muni að lokum leiða þess að það sundrast vegna flóðkrafta.

Fóbos er stærra tunglið af tveimur sem hringsóla um Mars. Fóbos svífur í aðeins 6000 km hæð yfir yfirborðinu, nær reikistjörnunni sinni en nokkurt annað tungl í sólkerfinu.

Vegna nálægðarinnar togar Mars svo fast í Fóbos að braut tunglsins lækkar um sem nemur 2 metrum á öld. Stjörnufræðingar hafa reiknað út að eftir um 30-50 milljónir ára muni tunglið sundrast og leifarnar falla niður á Mars.

Þegar fyrstu gervitunglin heimsóttu Mars komu í ljós miklar sprungur á yfirborði Fóbosar. Lengst af töldu menn að sprungurnar mætti rekja til mikils áreksturs sem myndaði stærsta gíginn á Fóbosi, gíginn Stickney. Áreksturinn fór enda langt með að tvístra Fóbosi.

Þegar betur var að gáð sáu menn að sprungurnar lágu ekki út frá gígnum sjálfum. Aðrar tilgátur voru þá settar fram, til dæmis að sprungurnar væru röð árekstragíga sem myndast hefðu eftir grjótkast frá Mars í kjölfar áreksturs þar.

Á fundi reikistjörnufræðinga í bandaríska stjarnvísindafélaginu sem fram fer þessa dagana í National Harbor í Maryland, kynnti Terry Hurford, vísindamaður við Goddard geimferðamiðstöð NASA, niðurstöður nýs líkans sem styðja þá tilgátu að sprungurnar séu sprungusveimar sem verða til þegar flóðkraftar sundra Fóbosi hægt og rólega.

Þyngdarkrafturinn milli Mars og Fóbosar leiðir óhjákvæmlega til flóðkrafta á sama hátt og gerist þegar Jörðin og tunglið toga hvort í annað. Úr verða flóðbungur sem valda flóði og fjöru um leið og bæði tunglið og reikistjarnan verða örlítið egglaga í stað þess að vera því sem næst hnattlaga.

Sama tilgáta var raunar sett fram skömmu eftir að Viking geimförin sendu nærmyndir af Fóbosi til Jarðar. Á þeim tíma var talið að Fóbos væri gegnheill. Þegar flóðkraftarnir voru reiknaðir kom í ljós að spennan af völdum þeirra dygði skammt til að sundra svo stóru gegnheilu fyrirbæri.

Síðari tíma rannsóknir benda til þess að Fóbos sé ekki gegnheill, heldur fremur eins og ruslahaugur — samansafn hnullunga, bergbrota og ryks sem haldist naumlega saman. Þessi ruslahaugur er svo umvafinn um 100 metra þykkri berghulu á yfirborðinu.

Þegar ruslahaugurinn verður fyrir flóðkröftum myndast nægilega mikil spenna í innviðunum til þess að tunglið liðist hægt og bítandi í sundur. Sprungur myndast á yfirborðinu sem berghulan sekkur ofan í.

Álagssprungurnar sem líkanið spáir fyrir um koma vel heim og saman við sprungurnar sem sjást á Fóbosi. Líkanið útskýrir líka vel þá staðreynd að sumar sprungur eru yngri en aðrar en sú væri einmitt raunin ef myndunarferlið er enn að eiga sér stað.

Sömu örlög bíða Neptúnusartunglsins Trítons en á yfirborði þess sjást keimlíkar sprungur. Tríton mun dag einn sundrast vegna flóðkrafta og mynda hring um Neptúnus. Samskonar örlaga bíða ennfremur margra reikistjarna sem fundist hafa utan okkar sólkerfis.

– Sævar Helgi Bragason