Stjörnuskoðunarfélagið á Vísindavöku Rannís

Sævar Helgi Bragason 20. sep. 2010 Fréttir

Vísindavaka Rannís fer fram föstudagskvöldið 24. september. Stjörnuskoðunarfélagið tekur að sjálfsögðu þátt.

  • Vísindavaka, Stjörnuskoðunarfélagið

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er þátttakandi í Vísindavöku Rannís sem fram fer í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, föstudaginn 24. september. Á Vísindavökunni býðst gestum að handleika 4.500 milljón ára gamla loftsteina og fræðast um undur alheimsins. Galíleósjónaukinn verður á staðnum og honum verður beint á Satúrnus, tunglið og Sjöstirnið. Vísindavakan hefst klukkan 17:00 og stendur yfir til klukkan 22:00 á föstudagskvöldið.

Vísindavaka Rannís fer nú fram í fimmta sinn og er þetta í þriðja skiptið sem Stjörnuskoðunarfélagið tekur þátt. Markmiðið Vísindavökunnar er að tendra áhuga almennings á viðfangsefnum vísinda á lifandi og skemmtilegan hátt. Undanfarin ár hefur viðburðurinn verið mjög vel sóttur enda ættu allir að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Í ár ætla félagsmenn úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness að kynna viðfangsefni stjarnvísinda á hátt sem þeim einum er lagið líkt og fyrri ár. Á Vísindavökunni býðst þér að handleika elsta grjót sem finnst á jörðinni; 4.500 milljón ára gamla loftsteina sem fallið hafa til jarðar. Sumir steinanna eru úr járni og voru því eitt sinn í kjarna hnattar sem splundraðist, ef til vill við risaárekstur.

Galíleósjónaukanum verður stillt upp og beint á Satúrnus, tunglið og Sjöstirnið. Verði veður hagstætt er hugsanlegt að boðið verði upp á stjörnuskoðun fyrir utan listasafnið. Einnig verða sýndar stórar ljósmyndir af undrum alheimsins. Stjörnukorti mánaðarins verður dreift meðan birgðir endast og stjörnufræðihugbúnaðurinn Stellarium kynntur. Ennfremur verða einhverjir glaðningar gefnir gestum.

Tenglar

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1003