Lífvænleg reikistjarna loks fundin?
Sævar Helgi Bragason
30. sep. 2010
Fréttir
Hópur stjarnvísindamanna telur sig hafa fundið lífvænlega reikistjörnu á braut um nálæga stjörnu.
Í dag, í nýjasta hefti Astrophysical Journal, tilkynnti hópur bandarískra stjarnvísindamanna um uppgötvun á reikistjörnu á stærð við jörðina umhverfis nálæga stjörnu. Það sem er athyglisverðast við þessa uppgötvun er að reikistjarnan er í miðju lífbeltis sólstjörnunnar. Lífbelti er sá staður í sólkerfi þar sem fljótandi vatn gæti verið til staðar á yfirborði reikistjörnu. Verði uppgötvunin staðfest er því hér um að ræða fyrstu lífvænlegu reikistjörnuna sem finnst utan okkar sólkerfis.
Í greininni er sagt frá því að tvær reikistjörnur hafi fundist umhverfis stjörnuna Gliese 581. Þessi stjarna er rauður dvergur, mun minni en sólin og töluvert kaldari (3.400°C á móti 5.600°C). Hún er í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Voginni.
Þetta er ekki fyrsta sinn sem reikistjörnur finnast umhverfis Gliese 581. Áður vissu menn um fjórar aðrar. Sólkerfið sem hér um ræðir inniheldur því að minnsta kosti sex reikistjörnur. Aðeins stjarnan HD 10180 hefur líklega fleiri reikistjörnur. Allar eru þessar reikistjörnur á því sem næst hringlaga brautum, líkt og reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar.
Reikistjarnan sem hér um ræðir nefnist Gliese 581 g (g þýðir að hún er sjötta reikistjarnan sem vitað er um í sólkerfinu, hinar nefnast b, c, d, e og f). Hún er sennilega þrefalt massameiri en jörðin og 1,2 til 1,4 sinnum breiðari. Massinn og stærðin benda því til þess að um bergreikistjörnu með fast yfirborð sé að ræða. Hún hefur líklega álíka sterkan þyngdarkraft og jörðin sem er meira en nóg til þess að viðhalda þykkum lífvænum lofthjúpi.
Árið á reikistjörnunni er næstum 10 sinnum styttra en á jörðinni eða aðeins um 37 dagar. Reikistjarnan snýr alltaf sömu hliðinni að stjörnunni, rétt eins og tunglið okkar snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Munurinn er hins vegar sá að aðeins önnur hlið þessarar reikistjörnu nýtur sólarljóss, hin ekki (á tunglinu njóta allar hliðar sólarljóss á einhverjum tíma).
Reikistjarnan fannst með óbeinum hætti með svonefndum sjónstefnumælingum. Með öflugum litrófsrita sem nefnist HIRES á Keck I sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii (einum stærsta sjónauka heims) tókst stjörnufræðingum að mæla hve mikið móðurstjarnan færðist fram og aftur af völdum þyngdartogsins frá reikistjörnunni.
|
Skýringarmynd af lífbelti okkar sólkerfis og Gliese 581. Reikistjarnan Gliese 581 g er í miðju lífbeltinu. Mynd: ESO/Stjörnufræðivefurinn
|
Hægt er að sjá þetta fyrir sér með því að ímynda sér sleggjukastara. Þegar kastarinn sveiflar sleggjunni vaggar hann örlítið vegna þess að massi sleggjunnar togar í hann. Vaggið í tilviki stjörnunnar er rétt rúmlega 1 metri á sekúndu sem er hægara en gönguhraði! Það er því gífurlega vandasamt verk að finna reikistjörnur með þessum hætti og í þessu tilviki voru 238 mælingar gerðar yfir 11 ár!
Sólkerfið Gliese 581 er heldur betur áhugavert. Á sitthvorum enda lífbeltisins eru tvær aðrar reikistjörnur, báðar næstum tífalt massameiri en jörðin. Á heitari endanum (þar sem Venus væri hjá okkur) er Gliese 581 c en á kaldari endanum (þar sem Mars er hjá okkur) er Gliese 581 d. Einhverjir stjarnvísindamenn hafa haldið því fram að ef Gliese 581 d hefur þykkan lofthjúp og öflug gróðurhúsaáhrif gæti hún líka verið lífvænleg. Flestir stjörnufræðingar draga það þó mjög í efa. Aftur á móti er nýja reikistjarnan í miðju lífbeltinu - á „Gullbrár-svæðinu“ þar sem hvorki er of heitt né of kalt.
Þessi uppgötvun er frekar merkileg og hefur áhugaverða þýðingu í för með sér. Hún bendir til þess að lífvænlegar reikistjörnur gætu verið tiltölulega algengar í Vetrarbrautinni okkar. Ef lífvænlegar reikistjörnur væru sjaldgæfar hefðum við ekki fundið þær svona snemma og svona nálægt. Það gætu því verið milljarðar af lífvænlegum reikistjörnum í Vetrarbrautinni okkar.
Við lifum á mögnuðum tímum. Kannski leynist eitthvað stórfenglegt á yfirborði þessarar reikistjörnu? Hver veit?
Tengiliður
Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Raunvísindastofnun Háskólans
Dunhaga 3, 107 Reykjavík
Tölvupóstfang: saevar[hjá]stjornuskodun.is
Sími: 896-1984
Lífvænleg reikistjarna loks fundin?
Sævar Helgi Bragason 30. sep. 2010 Fréttir
Hópur stjarnvísindamanna telur sig hafa fundið lífvænlega reikistjörnu á braut um nálæga stjörnu.
Í dag, í nýjasta hefti Astrophysical Journal, tilkynnti hópur bandarískra stjarnvísindamanna um uppgötvun á reikistjörnu á stærð við jörðina umhverfis nálæga stjörnu. Það sem er athyglisverðast við þessa uppgötvun er að reikistjarnan er í miðju lífbeltis sólstjörnunnar. Lífbelti er sá staður í sólkerfi þar sem fljótandi vatn gæti verið til staðar á yfirborði reikistjörnu. Verði uppgötvunin staðfest er því hér um að ræða fyrstu lífvænlegu reikistjörnuna sem finnst utan okkar sólkerfis.
Í greininni er sagt frá því að tvær reikistjörnur hafi fundist umhverfis stjörnuna Gliese 581. Þessi stjarna er rauður dvergur, mun minni en sólin og töluvert kaldari (3.400°C á móti 5.600°C). Hún er í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Voginni.
Þetta er ekki fyrsta sinn sem reikistjörnur finnast umhverfis Gliese 581. Áður vissu menn um fjórar aðrar. Sólkerfið sem hér um ræðir inniheldur því að minnsta kosti sex reikistjörnur. Aðeins stjarnan HD 10180 hefur líklega fleiri reikistjörnur. Allar eru þessar reikistjörnur á því sem næst hringlaga brautum, líkt og reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar.
Reikistjarnan sem hér um ræðir nefnist Gliese 581 g (g þýðir að hún er sjötta reikistjarnan sem vitað er um í sólkerfinu, hinar nefnast b, c, d, e og f). Hún er sennilega þrefalt massameiri en jörðin og 1,2 til 1,4 sinnum breiðari. Massinn og stærðin benda því til þess að um bergreikistjörnu með fast yfirborð sé að ræða. Hún hefur líklega álíka sterkan þyngdarkraft og jörðin sem er meira en nóg til þess að viðhalda þykkum lífvænum lofthjúpi.
Árið á reikistjörnunni er næstum 10 sinnum styttra en á jörðinni eða aðeins um 37 dagar. Reikistjarnan snýr alltaf sömu hliðinni að stjörnunni, rétt eins og tunglið okkar snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Munurinn er hins vegar sá að aðeins önnur hlið þessarar reikistjörnu nýtur sólarljóss, hin ekki (á tunglinu njóta allar hliðar sólarljóss á einhverjum tíma).
Reikistjarnan fannst með óbeinum hætti með svonefndum sjónstefnumælingum. Með öflugum litrófsrita sem nefnist HIRES á Keck I sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii (einum stærsta sjónauka heims) tókst stjörnufræðingum að mæla hve mikið móðurstjarnan færðist fram og aftur af völdum þyngdartogsins frá reikistjörnunni.
Hægt er að sjá þetta fyrir sér með því að ímynda sér sleggjukastara. Þegar kastarinn sveiflar sleggjunni vaggar hann örlítið vegna þess að massi sleggjunnar togar í hann. Vaggið í tilviki stjörnunnar er rétt rúmlega 1 metri á sekúndu sem er hægara en gönguhraði! Það er því gífurlega vandasamt verk að finna reikistjörnur með þessum hætti og í þessu tilviki voru 238 mælingar gerðar yfir 11 ár!
Sólkerfið Gliese 581 er heldur betur áhugavert. Á sitthvorum enda lífbeltisins eru tvær aðrar reikistjörnur, báðar næstum tífalt massameiri en jörðin. Á heitari endanum (þar sem Venus væri hjá okkur) er Gliese 581 c en á kaldari endanum (þar sem Mars er hjá okkur) er Gliese 581 d. Einhverjir stjarnvísindamenn hafa haldið því fram að ef Gliese 581 d hefur þykkan lofthjúp og öflug gróðurhúsaáhrif gæti hún líka verið lífvænleg. Flestir stjörnufræðingar draga það þó mjög í efa. Aftur á móti er nýja reikistjarnan í miðju lífbeltinu - á „Gullbrár-svæðinu“ þar sem hvorki er of heitt né of kalt.
Þessi uppgötvun er frekar merkileg og hefur áhugaverða þýðingu í för með sér. Hún bendir til þess að lífvænlegar reikistjörnur gætu verið tiltölulega algengar í Vetrarbrautinni okkar. Ef lífvænlegar reikistjörnur væru sjaldgæfar hefðum við ekki fundið þær svona snemma og svona nálægt. Það gætu því verið milljarðar af lífvænlegum reikistjörnum í Vetrarbrautinni okkar.
Við lifum á mögnuðum tímum. Kannski leynist eitthvað stórfenglegt á yfirborði þessarar reikistjörnu? Hver veit?
Tengiliður
Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Raunvísindastofnun Háskólans
Dunhaga 3, 107 Reykjavík
Tölvupóstfang: saevar[hjá]stjornuskodun.is
Sími: 896-1984