Einstök sýn á þrilvetrarbrautir

Sævar Helgi Bragason 27. okt. 2010 Fréttir

Nýjar ljósmyndir frá HAWK-I myndavélinni á Very Large Telescope sýna sex glæsilegar þyrilvetrarbrautir.

  • Sex þyrilvetrarbrautir á ljósmyndum HAWK-I á VLT

Sex glæsilegar vetrarbrautir prýða nýjar ljósmyndir sem teknar voru í innrauðu ljósi með HAWK-I myndavéinni á Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal-stjörnustöðinni í Chile. Ljósmyndirnar eiga eftir að hjálpa stjörnufræðingum að skilja hvernig þyrilarmarnir vetrarbrauta myndast og þróast.

HAWK-I [1] er ein nýjasta og öflugasta myndavél Very Large Telescope (VLT) ESO. Hún er næm á innrauða sviði rafsegulrófsins svo með henni geta stjörnufræðingar skyggnst inn í rykuga þyrilarma vetrarbrauta. HAWK-I hefur sextán sinnum betri upplausn en eldri innrauðar myndavélar á VLT, eins og til dæmis ISAAC, sem enn er í notkun. HAWK-I sér líka mun stærri hluta af himninum í einu og er auk þess mun næmari fyrir daufri innrauðri geislun en eldri myndavélar [2]. Myndavélin er því kjörin til þess að rannsaka eldri stjörnur í þyrilörmum vetrarbrauta sem oft eru huldar á bak við ryk og glóandi gas.

Ljósmyndirnar af vetrarbrautunum sex sem hér sjást eru hluti af rannsóknum Prebens Grosbøl hjá ESO á þyrilörmum vetrarbrauta. Myndirnar voru teknar til þess að hjálpa stjarnvísindamönnum að skilja þau flóknu ferli sem liggja að baki myndun svo fullkominna þyrilarmanna.

Á fyrstu ljósmyndinni er NGC 5247, þyrilvetrarbraut með tvo risastóra arma í um 60-70 milljón ljósára fjarlægð. Frá jörðu séð horfum við beint ofan á vetrarbrautina og höfum þar af leiðandi sérstaklega góða sýn á þyrilarma hennar. Vetrarbrautin er í Meyjarmerkinu.

Vetrarbrautin á mynd númer tvö er Messier 100 eða NGC 4321 en hún uppgötvaðist á 18. öld. Hún er gott dæmi um mjög tignarlega þyrilvetrarbraut með sérstaklega áberandi og vel afmarkaða þyrilarma. Messier 100 er í um það bil 55 milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Hún tilheyrir vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við Meyjuna en er sjálf í Bereníkuhaddi (stjörnumerki sem nefnt er eftir hári Bereníku II, drottningu í Forn-Egyptalandi).

Þriðja myndin er af NGC 1300. Hún er líka þyrilvetrarbraut með arma sem skaga hvor úr sínum enda enda á mjög áberandi bjálka í miðju hennar. NGC 1300 er í 65 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Fljótinu.

Á fjórðu myndinni er þyrilvetrarbrautin NGC 4030. Hún er í um 75 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Meyjunni. Árið 2007 sá japanski geimfarinn og stjörnuáhugamaðurinn Takao Doi sprengistjörnu í henni sem varð til skamms tíma næstum jafnbjört og vetrarbrautin í heild sinni.

Fimmta myndin sýnir þyrilvetrarbrautina NGC 2997 sem er í um 30 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Dælunni. NGC 2997 er bjartasta vetrarbrautin í vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við þessa vetrarbraut. Sú vetrarbrautaþyrping er hluti af grenndar-reginþyrpingunni, reginþyrpingu vetrarbrauta sem grannhópurinn, sem inniheldur meðal annars Vetrarbrautina okkar, er líka hluti af.

Síðast en ekki síst er NGC 1232. Hún er afar falleg vetrarbraut í 65 milljón ljósára fjarlægð í Fljótinu. Þessi vetrarbraut er flokkuð sem millistig þyrilvetrarbrautar og bjálkaþyrilvetrarbrautar. NGC 1232 og fylgivetrarbraut hennar NGC 1232 A voru viðfangsefni einnar af fyrstu ljósmyndum VLT sjónaukans (eso9845). Sú ljósmynd sýnir vetrarbrautirnar í sýnilegu ljósi. Innrauð ljósmynd HAWK-I dregur upp allt aðra mynd af henni.

Allar þessar myndir sýna að HAWK-I gerir okkur kleift að sjá skýrt og greinilega einstök smáatriði í þyrilörmum þessara sex vetrarbrauta, nokkuð sem einungis er mögulegt í innrauðu ljósi.

Skýringar

[1] HAWK-I stendur fyrir High-Acuity Wide field K-band Imager. Tæknilegri upplýsingar um myndavélina er að finna í eldri fréttatilkynningu (eso0736).

[2] Frekari upplýsingar um VLT mælitækin er að finna hér.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey telescopes Public Information Officer
Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1042.