EVALSO: Ný háhraðatenging við stjörnustöðvarnar í Chile

Sævar Helgi Bragason 04. nóv. 2010 Fréttir

Nýr 100 km langur fjarskiptastrengur tengir stjörnustöðvar í Chile innbyrðis og við Evrópu, með háhraðatengingu.

  • eso1043b

Með nýjum fjarskiptastreng sem tekinn var í notkun á dögunum skapast ný tækifæri við stjörnustöðvar ESO á Paranal og Cerro Armazones í Chile. Strengurinn liggur 100 km leið gegnum Atacamaeyðimörkina í Chile og tengir stjörnustöðvarnar saman við vísindagagnaveitur í Rómönsku Ameríku. Nú eru þær allar tengdar innbyrðis og við Evrópu, með háhraðatengingu.

Nýi fjarskiptastrengurinn er hluti af EVALSO verkefninu (e. Enabling Virtual Access to Latin American Southern Observatories) [1]. Verkefnið er að hluta til fjármagnað af 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins [2]. Framkvæmd þess er í höndum Triesteháskóla sem fer með hlut ESO, Observatorio Cerro Armazones (OCA, sem er hluti af Ruhrháskólanum í Bochum), chileska háskólanetinu REUNA og annarra samtaka. EVALSO verkefnið snýr einnig að kaupum á plássi í grunngerðum sem þegar eru til staðar, svo unnt sé að ljúka uppsetningu háhraðatengingar frá Paranal svæðinu til höfuðstöðva ESO í München í Þýskalandi.

„Gott samstarf hefur verið milli aðila verkefnisins“ segir Fernando Liello, einn af forsvarsmönnum þess. „Fyrir utan uppsetningu á háhraðatengingu milli stjörnustöðvanna er hagræðingin enn meiri fyrir menntasamfélögin í Evrópu og Rómönsku Ameríku.“

Paranal og Armazones henta ákaflega vel til stjörnuathugana því fjöllin gnæfa hátt yfir sjávarmál og himinninn er alla jafna heiðskír, fjarri allri ljósmengun. Svæðin eru aftur á móti langt frá öllum fjarskiptakerfum og hafa því hingað til verið háð örbylgjusambandi til gagnaflutninga í gagnaveitur nærri Antofagasta, næstu borgar við Paranal.

Á hverri nóttu verða til meira en 100 gígabæti af gögnum í sjónaukum Paranal stjörnustöðvar ESO. Það jafngildir yfir 20 DVD diskum þótt gögnin séu þjöppuð. Sú tenging sem notuð hefur verið nægir til þess að flytja gögn frá þeim tækjum sem Very Large Telescope (VLT) er búinn nú um stundir, en hefur ekki þá flutningsgetu sem þarf til að flytja gögn frá VISTA sjónaukanum (Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy, sjá eso0949) eða nýrri kynslóð mælitækja VLT sem verða tekin í notkun á næstu árum.

Þetta þýðir að eina hagkvæma leiðin til að flytja gögn frá Paranal er að vista þau á harðan disk og senda með flugi til höfuðstöðva ESO. Það getur þýtt nokkurra daga eða jafnvel vikna bið áður en athuganir frá VISTA eru tilbúnar til greiningar.

Tengingin sem nú er í notkun getur mettast á álagstímum, jafnvel þótt gagnaflutningum sé fimlega stjórnað. Þótt þetta sé ekki vandamál nú, bendir það til þess að tengingin nálgist hámarksafkastagetu.

„Stjörnustöð ESO í Paranal fer óðum stækkandi með nýjum sjónaukum og tækjum sem verða brátt tekin í notkun“ sagði Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO. „Stjörnustöðvar okkar eru á heimsmælikvarða og krefjast fyrsta flokks grunnstoða.“

Tengingin sem er fyrir til staðar flytur að hámarki 16 megabita á sekúndu, svipað og venjuleg ADSL heimilistenging. Með EVALSO fæst miklu hraðvirkari tenging sem flytur allt að 10 gígabita á sekúndu. Á þeim hraða er hægt að flytja gögn sem samvara kvikmynd á DVD disk á örfáum sekúndum [3].

„Mikilvægt er að evrópskir stjarnvísindamenn fái bestan mögulegan aðgang að stjörnustöðvum ESO. Þetta er ein ástæða þess að Evrópusambandið styrkir þróun á fjarskiptaþjónustu fyrir vísindarannsóknir í Rómönsku Ameríku og tengir hana við GÉANT [4] og aðrar sambærilegrar evrópskrar grunnstoðir“ sagði Mario Campolargo, framkvæmdarstjóri Emerging Technologies and Infrastructure hjá Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins.

Þessi mikla aukning á flutningsgetu eykur möguleikann á notkun gagna frá Paranal nær smstundis, þótt viðkomandi sé ekki á staðnum. Auðveldara er að fylgjast með frammistöðu VISTA sjónaukans og sækja gögn frá VLT. Með aukinni flutningsgetu gefst til dæmis tækifæri á fjarfundum stjörnufræðinga og tæknimanna í gegnum háskerpu fjarfundabúnað. Með strengnum fæst auk þess næg flutningsgeta til framtíðar svo auðvelt verður að halda í við síaukna gagnaöflun nýrra og öflugra mælitækja sem tekin verða í notkun á næstu árum í Paranal og Armazones.

Stöðugt aðgengi að gögnum á fjarlægum stöðum er ekki aðeins til þess fallið að spara peninga heldur eykur það líka skilvirkni stjörnustöðvanna. Þegar óvæntir og ófyrirséðir atburðir eins og gammablossar verða, gefst oftast ekki nægur tími fyrir stjörnufræðinga að ferðast til afskekktra stjörnustöðva en með EVALSO eiga sérfræðingar möguleika á að rannsaka þessa atburði úr fjarlægð, nánast eins og ef þeir væru í stjörnustöðinni.

Skýringar

[1] EVALSO er fjármagnað af 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins og er samstarfsverkefni Universita degli Studi di Trieste á Ítalíu, ESO, Ruhr-Universität í Bochum í Þýskalandi, GARR samtakanna (Gestione Ampliamento Rete Ricerca) á Ítalíu, Universiteit Leiden í Hollandi, Istituto Nazionale di Astrofisica á Ítalíu, Queen Mary, University of London í Bretlandi, Cooperacion LationAmericana de Redes Avanzasas (CLARA) í Úrúgvæ og Red Universitaria Nacional (REUNA) í Chile.

[2] 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins (the European Commission Seventh Framework Programme for Research and Technical Developement) er aðaláætlun Evrópusambandsins til fjármögnunar vísindarannsókna. Markmið hennar er að skipa Evrópusambandið fremst í flokki vísinda og tækni í heiminum.

[3] Nýi strengurinn hefur 10 gígabita flutningsgetu á sekúndu. Allt grunnnetið milli Paranal til höfuðstöðva ESO í Þýskalandi er fært um að flytja að hámarki 1 gígabita á sekúndu.

[4] GÉANT er samevrópskt gagnanet sem helgað er rannsókna- og menntasamfélaginu. Netið tengir saman 40 milljón notendur í 40 löndum.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Gonzalo Argandoña
ESO education and Public Outreach Department
Santiago, Chile
Tel: +56-2-463-3258
Cell: +56-9-9-829-4202
Email: gargando[hjá]eso.org

Giorgio Filippi
ESO Telescopes Division
Garching bei München, Germany
Tel: +49-89-3200-6325
Email: gfilippi[hjá]eso.org

Oli Usher
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Tel: +49-89-3200-6855
Email: ousher[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1043.