Jólakúla Hubblessjónaukans

Sævar Helgi Bragason 14. des. 2010 Fréttir

Ný ljósmynd Hubble geimsjónaukans sýnir jólalegar leifar sprengistjörnu.

  • SNR B0509-67,5 er leifar stjörnu sem sprakk í Stóra-Magellanskýinu fyrir um 400 árum

Á nýrri ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést jólaleg gaskúla í Stóra-Magellanskýinu sem er nágrannavetrarbraut okkar. Þessi gaskúla varð til fyrir nærri fjórum öldum síðan þegar stjarna sprakk í tætlur.

Svo virðist sem þessi tignarlegi gashjúpur svífi rólega í djúpum himingeimsins en ekki er allt sem sýnist. Hjúpurinn varð til þegar efni og höggbylgja frá sprengistjörnu þrýstist í gegnum nærliggjandi miðgeimsefni. Fyrirbærið heitir SNR B0509- 67,5, eða SNR 0509 til styttingar, og er leifar öflugrar sprengistjörnu í Stóra-Magellanskýinu, lítilli fylgivetrarbraut í um 160.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Í kúluskelinni sjást greinilegar gárur sem annað hvort má rekja til breytinga á þéttleika gassins í kring eða til tætla úr sprengistjörnunni sjálfri. Gaskúlan er 23 ljósár í þvermál og vex á yfir 18 milljón km hraða á klukkustund. 

Stjörnufræðingar hafa komist að því að um sérstaklega orkuríka og bjarta tegund af sprengistjörnu var að ræða sem kallast sprengistjarna af gerð Ia. Slíkar sprengistjörnur verða til þegar hvítur dvergur í tvístirnakerfi sankar að sér efni frá fylgistjörnunni. Hvíti dvergurinn dregur í sig meiri massa en hann ræður við og hringur saman að lokum og springur í tætlur.

Stjarnan sem áður var sprakk fyrir hartnær 400 árum síðan og hefur því verið sýnileg frá suðurhveli jarðar í kringum árið 1600. Engar ritaðar heimildir eru þó til um nýja stjörnu í Magellanskýjunum frá þeim tíma. Nýlegri sprengistjarna í Stóra-Magellanskýinu, SN 1987A, fangaði hins vegar heldur betur athygli jarðarbúa. Leifar hennar eru mikið rannsakaðar, bæði með geimsjónaukum eins og Hubble og stjörnusjónaukum á jörðu niðri (eso1032).

Þessi fallega ljósmynd var tekin þann 28. október árið 2006 með Advanced Camera for Surveys í Hubble geimsjónaukanum. Myndin var tekin í gegnum síur sem hleyptu aðeins í gegn ljósi frá rauðglóandi vetni sem sést í skelinni. Þessum athugunum var síðan skeytt saman við aðrar ljósmyndir sem teknar voru í sýnilegu ljósi með Wide Field myndavél Hubbles af svæðinu í kring þann 3. og 4. nóvember 2010.

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1018

Tengdar myndir

  • SNR B0509-67,5 er leifar stjörnu sem sprakk í Stóra-Magellanskýinu fyrir um 400 árumSNR B0509-67,5 er leifar stjörnu sem sprakk í Stóra-Magellanskýinu fyrir um 400 árum.
  • Samsett mynd af SNR B0SNR B0509-67,5 úr gögnum Hubble geimsjónaukans og Chandra röntgensjónaukans. Mynd: NASA/ESA/CXCSamsett mynd af SNR B0SNR B0509-67,5 úr gögnum Hubble geimsjónaukans og Chandra röntgensjónaukans. Mynd: NASA/ESA/CXC.

Tengt efni

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is