Almyrkvi á tungli 21. desember
Sævar Helgi Bragason
16. des. 2010
Fréttir
Þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi.
Á vetrarsólstöðum, þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á vesturhimni, rétt fyrir ofan Óríon, milli fótleggja Tvíburanna og horna Nautsins. Almyrkvinn hefst klukkan 07:40 og stendur yfir til klukkan 08:54. Þennan desembermorgun mun því rautt og jólalegt tungl svífa eins og risavaxin náttúruleg jólakúla á himnafestingunni og boða rísandi sól.
Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar. Þrátt fyrir þetta verða tunglmyrkvar þó ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.
Skuggi jarðar er tvískiptur og því eru til þrjár gerðir af tunglmyrkvum: Almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar. Gerð myrkvans hverju sinni fer eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Alskugginn er dimmasti hluti jarðskuggans og þar sést sólin alls ekki. Hálfskugginn er hins vegar ekki eins dimmur en innan hans sést hluti sólar.
Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést myrkvinn best frá Norður-Ameríku en líka vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á morgunhimninum í vestri. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.
Tunglmyrkvi 21. desember 2010 from Sverrir Gudmundsson on Vimeo.
Tunglmyrkvi 21. desember 2010
Myndskeið af tunglmyrkvanum 21. des. Smellið á örvatakkann neðst til hægri til þess að stækka myndina.
Tunglmyrkvinn 21. desember hefst þegar tunglið snertir hálfskugga jarðar klukkan 05:30 að íslenskum tíma. Hálfskugginn er daufur og því sést lítil sem engin breyting á tunglinu þegar þetta gerist. Það er í raun ekki fyrr en um 70% tunglsins eru komin inn í hálfskuggann að einhverjar birtubreytingar sjást. Hálfskuggamyrkvinn verður meira áberandi eftir því sem á líður.
Þegar tunglið byrjar að ganga inn í alskuggann, klukkan 06:32, hefst deildarmyrkvi. Deildarmyrkvinn er mun greinilegri. Snemma í deildarmyrkvanum sérðu örugglega óræka sönnun þess að jörðin sem við byggjum er kúla. Jarðskugginn er augljóslega bogadreginn! Í huga okkar eru fáar sýningar náttúrunnar í senn jafn skrítnar og tignarlegar og þegar maður sér skugga jarðar gleypa tunglið hægt og bítandi.
Deildarmyrkvinn varir í 68 mínútur. Klukkan 07:40 hefur tunglið í heild sinni færst inn í alskuggann og er þá almyrkvað [1]. Lengd almyrkvans ræðst af því hvort tunglið ferðast beint í gegnum alskuggann eða ekki. Hraði tunglsins í gegnum skuggann er um 1 km á sekúndu svo almyrkvi getur mest staðið yfir í 1 klukkustund og 42 mínútur. Í þetta sinn stendur almyrkvinn yfir til klukkan 08:54 eða í 1 klukkustund og 14 mínútur.
Rautt tungl
Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig rauðleitan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki. Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit. Frá yfirborði tunglsins sæi geimfari þunnan rauðan hring umlykja myrkvaða jörð – án efa tignarleg sjón.
Litur tunglsins við almyrkva er háður skýjum, ryki og mengun í lofthjúpi jarðar. Stundum hverfur tunglið nánast alveg vegna óhreininda í loftinu. Þegar Pínatúbófjall á Filippseyjum gaus í júní 1991 spúði það mikilli gjósku upp í efri hluta lofthjúpsins sem dreifðist yfir norðurhvelið næstu vikur og mánuði á eftir. Í almyrkva sem varð ári síðar varð tunglið kolsvart og grátt en ekki rauðleitt eins og við má búast að þessu sinni.
Að almyrkva loknum færist tunglið smám saman í austurátt á braut sinni í kringum jörðina. Ferlið endurtekur sig en nú í öfugri röð. Forgönguhvel tunglsins stingur sér út úr alskugganum og hefst þá deildarmyrkvi aftur. Þegar tunglið er allt komið út úr alskugganum hefst hálfskuggamyrkvi á ný. Smám saman færist myrkrið af tunglinu svo að lokum skín fullt tungl skært á himni eins og ekkert hefði í skorist.
Næst sést tunglmyrkvi frá Íslandi að ári liðnu, þann 10. desember 2011. Almyrkvinn hefst þegar enn er dagsbirta á Íslandi og því sést ekki almyrkvað tungl frá Reykjavík en deildarmyrki verður sýnilegur þaðan þegar dimmir. Austast á landinu sést tunglið almyrkvað þegar það kemur upp fyrir sjóndeildarhringinn undir lok almyrkvans.
Ýmislegt að sjá á morgunhimninum
Þennan þriðjudagsmorgun er ýmislegt annað en tunglmyrkva að sjá líka. Prófaðu að líta í suðausturátt um klukkan 8. Þar skín skærast reikistjarnan Venus. Með stjörnusjónauka sjást kvartilaskipti á henni sem sýnir og sannar sólmiðjukenninguna.
Nokkuð hærra á himni er önnur áberandi reikistjarna, Satúrnus. Með stjörnusjónauka sjást hringar reikistjörnunnar í öllu sínu veldi, ótrúlega tignarlegir. Þar við hlið ættirðu að koma auga á tunglið Títan sem birtist sem lítil stjarna.
Stjörnukort mánaðarins og forritið Stellarium ættu að hjálpa fólki að finna þessi fyrirbæri á himninum. Við hvetjum alla til þess að fara út og njóta sýningarinnar.
Skýringar
[1] Tímasetningar myrkvans eru fengnar úr Almanaki Háskólans fyrir Ísland 2010.
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Sími: 896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is
Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Email: sverrirstjarna[hjá]gmail.com
Tengdar myndir
- Skýringarmynd af tunglmyrkvanum 21. desember 2010. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Sky & Telescope.
- Heimskort sem sýnir hvar tunglmyrkvinn sést. Kort: Fred Espenak (af vefsíðu hans – birt með leyfi).
- Kort af austurhimni morguninn 21. desember 2010. Kort: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium
- Tunglmyrkvinn í febrúar 2008. Myndin var tekin í gegnum 85mm TeleVue linsusjónauka og Canon 20Da myndavél á 1 sekúndu við ISO400. Mynd: Richard Tresch Fienberg (birt með leyfi).
Almyrkvi á tungli 21. desember
Sævar Helgi Bragason 16. des. 2010 Fréttir
Þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi.
Á vetrarsólstöðum, þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á vesturhimni, rétt fyrir ofan Óríon, milli fótleggja Tvíburanna og horna Nautsins. Almyrkvinn hefst klukkan 07:40 og stendur yfir til klukkan 08:54. Þennan desembermorgun mun því rautt og jólalegt tungl svífa eins og risavaxin náttúruleg jólakúla á himnafestingunni og boða rísandi sól.
Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar. Þrátt fyrir þetta verða tunglmyrkvar þó ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.
Skuggi jarðar er tvískiptur og því eru til þrjár gerðir af tunglmyrkvum: Almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar. Gerð myrkvans hverju sinni fer eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Alskugginn er dimmasti hluti jarðskuggans og þar sést sólin alls ekki. Hálfskugginn er hins vegar ekki eins dimmur en innan hans sést hluti sólar.
Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést myrkvinn best frá Norður-Ameríku en líka vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á morgunhimninum í vestri. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.
Tunglmyrkvi 21. desember 2010 from Sverrir Gudmundsson on Vimeo.
Tunglmyrkvi 21. desember 2010
Myndskeið af tunglmyrkvanum 21. des. Smellið á örvatakkann neðst til hægri til þess að stækka myndina.
Tunglmyrkvinn 21. desember hefst þegar tunglið snertir hálfskugga jarðar klukkan 05:30 að íslenskum tíma. Hálfskugginn er daufur og því sést lítil sem engin breyting á tunglinu þegar þetta gerist. Það er í raun ekki fyrr en um 70% tunglsins eru komin inn í hálfskuggann að einhverjar birtubreytingar sjást. Hálfskuggamyrkvinn verður meira áberandi eftir því sem á líður.
Þegar tunglið byrjar að ganga inn í alskuggann, klukkan 06:32, hefst deildarmyrkvi. Deildarmyrkvinn er mun greinilegri. Snemma í deildarmyrkvanum sérðu örugglega óræka sönnun þess að jörðin sem við byggjum er kúla. Jarðskugginn er augljóslega bogadreginn! Í huga okkar eru fáar sýningar náttúrunnar í senn jafn skrítnar og tignarlegar og þegar maður sér skugga jarðar gleypa tunglið hægt og bítandi.
Deildarmyrkvinn varir í 68 mínútur. Klukkan 07:40 hefur tunglið í heild sinni færst inn í alskuggann og er þá almyrkvað [1]. Lengd almyrkvans ræðst af því hvort tunglið ferðast beint í gegnum alskuggann eða ekki. Hraði tunglsins í gegnum skuggann er um 1 km á sekúndu svo almyrkvi getur mest staðið yfir í 1 klukkustund og 42 mínútur. Í þetta sinn stendur almyrkvinn yfir til klukkan 08:54 eða í 1 klukkustund og 14 mínútur.
Rautt tungl
Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig rauðleitan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki. Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit. Frá yfirborði tunglsins sæi geimfari þunnan rauðan hring umlykja myrkvaða jörð – án efa tignarleg sjón.
Litur tunglsins við almyrkva er háður skýjum, ryki og mengun í lofthjúpi jarðar. Stundum hverfur tunglið nánast alveg vegna óhreininda í loftinu. Þegar Pínatúbófjall á Filippseyjum gaus í júní 1991 spúði það mikilli gjósku upp í efri hluta lofthjúpsins sem dreifðist yfir norðurhvelið næstu vikur og mánuði á eftir. Í almyrkva sem varð ári síðar varð tunglið kolsvart og grátt en ekki rauðleitt eins og við má búast að þessu sinni.
Að almyrkva loknum færist tunglið smám saman í austurátt á braut sinni í kringum jörðina. Ferlið endurtekur sig en nú í öfugri röð. Forgönguhvel tunglsins stingur sér út úr alskugganum og hefst þá deildarmyrkvi aftur. Þegar tunglið er allt komið út úr alskugganum hefst hálfskuggamyrkvi á ný. Smám saman færist myrkrið af tunglinu svo að lokum skín fullt tungl skært á himni eins og ekkert hefði í skorist.
Næst sést tunglmyrkvi frá Íslandi að ári liðnu, þann 10. desember 2011. Almyrkvinn hefst þegar enn er dagsbirta á Íslandi og því sést ekki almyrkvað tungl frá Reykjavík en deildarmyrki verður sýnilegur þaðan þegar dimmir. Austast á landinu sést tunglið almyrkvað þegar það kemur upp fyrir sjóndeildarhringinn undir lok almyrkvans.
Ýmislegt að sjá á morgunhimninum
Þennan þriðjudagsmorgun er ýmislegt annað en tunglmyrkva að sjá líka. Prófaðu að líta í suðausturátt um klukkan 8. Þar skín skærast reikistjarnan Venus. Með stjörnusjónauka sjást kvartilaskipti á henni sem sýnir og sannar sólmiðjukenninguna.
Nokkuð hærra á himni er önnur áberandi reikistjarna, Satúrnus. Með stjörnusjónauka sjást hringar reikistjörnunnar í öllu sínu veldi, ótrúlega tignarlegir. Þar við hlið ættirðu að koma auga á tunglið Títan sem birtist sem lítil stjarna.
Stjörnukort mánaðarins og forritið Stellarium ættu að hjálpa fólki að finna þessi fyrirbæri á himninum. Við hvetjum alla til þess að fara út og njóta sýningarinnar.
Skýringar
[1] Tímasetningar myrkvans eru fengnar úr Almanaki Háskólans fyrir Ísland 2010.
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Sími: 896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is
Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Email: sverrirstjarna[hjá]gmail.com
Tengdar myndir