Brasilía gerist aðili að European Southern Observatory

Sævar Helgi Bragason 30. des. 2010 Fréttir

Brasilía verður fimmtánda aðildarríki European Southern Observatory og hið fyrsta utan Evrópu.

  • eso1050a

Í gær undirritaði Sambandslýðveldið Brasilía formlega samþykkt sem gerir landinu kleift að gerast aðili að European Southern Observatory (ESO). Þegar ríkisstjórn landsins staðfestir samninginn verður Brasilía fimmtánda aðildarríki ESO og hið fyrsta utan Evrópu.

Þann 29. desember 2010 undirrituðu Sergio Machado Rezende, vísinda- og tæknimálaráðherra Brasilíu, og Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO, formlega samþykkt við athöfn í Brasilíu sem gerir landið að aðildarríki European Southern Observatory. Við það verður Brasilía fimmtánda aðildarríki ESO og hið fyrsta utan Evrópu. Samþykktin snýst um alþjóðlegt samstarf og því verður brasilíska þingið að samþykkja hana formlega [1]. Undirritunin var gerð í kjölfar stjórnarfundar ESO sem fram fór þann 21. desember 2010 þar sem aðild Brasilíu var samþykkt einróma.

„Þátttakan í ESO hefur í för með sér ný tækifæri í vísindum, tækni og nýsköpun í Brasilíu og er hluti af loforði ríkisstjórnarinnar að tryggja framþróun landsins á þessum lykilsviðum“ segir Rezende.

European Southern Observatory býr að löngu og árangursríku samstarfi við Suður-Ameríku, allt frá því að stjörnustöðvum samtakanna var valinn staður í Chile árið 1963. Allt þar til nú hafa hins vegar engin lönd utan Evrópu orðið aðildarríki ESO.

„Þátttaka Brasilíu veitir brasilískum stjarnvísindamönnum fullan aðgang að öflugustu stjörnustöðvum heims. Jafnframt býðst brasilískum hátækniiðnaði að leggja sitt af mörkum til European Extremely Large Telescope verkefnisins. Þátttaka Brasilíu tryggir líka aðgang samtakanna að nýju fjármagni og tæknikunnáttu og kemur á hárréttum tíma til þess að landið geti lagt sitt af mörkum til þessa spennandi verkefnis“ bætir Tim de Zeeuw framkvæmdarstjóri ESO við.

Nýverið lauk hönnunarstigi European Extremely Large Telescope (E-ELT) og í kjölfar þess kannaði óháður hópur alþjóðlegra sérfræðinga hvern þátt þessa risaverkefnis gaumgæfilega. Niðurstaðan var sú að E-ELT verkefnið er tæknilega tilbúið til að komast á framkvæmdarstig. Búist er við því að smíði E-ELT hefjist árið 2011 og þegar rannsóknir hefjast snemma á næsta áratug munu evrópskir, brasilískir og chileskir stjarnvísindamenn hafa aðgang að þessum risasjónauka.

„Brasilískir stjarnvísindamenn munu hagnast á samstarfi við evrópska samherja sína og eiga nú að sjálfsögðu rannsóknartíma í stjörnustöðvum ESO á La Silla og Paranal, en líka í ALMA sem ESO er að koma upp ásamt alþjóðlegum samstarfsaðilum sínum“bætir Laurent Vigroux, forseti stjórnar ESO.

Skýringar

[1] Þegar aðild Brasilíu verður staðfest verða aðildarríki ESO: Austurríki, Belgía, Brasilía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Finnland, Þýskaland, Ítalía, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching, Germany
Tel: +49-89-3200-6761
Cell: +49-173-3872-621
Email: lars[hjá]eso.org

Gonzalo Argandoña
ESO education and Public Outreach Department
Santiago, Chile
Tel: +56-2-463-3258
Cell: +56-9-9-233-6137/+56-9-9-829-4202
Email: gargando[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1050.