Stardust heimsækir halastjörnuna Tempel 1

Sævar Helgi Bragason 15. feb. 2011 Fréttir

Stardust geimfar NASA flaug í nótt framhjá halastjörnunni Tempel 1. Þetta er í fyrsta sinn sem halastjarna er könnuð í návígi fyrir og eftir sólnánd en áður hafði Deep Impact heimsótt hana árið 2005.

  • Tempel 1, Stardust, Deep Impact, halastjarna

Stardust geimfar NASA flaug í nótt framhjá halastjörnunni Tempel 1. Halastjarnan var þá í 336 milljón km fjarlægð frá jörðinni. Geimfarið var næst í 178 km hæð yfir kjarnanum klukkan 04:39 í nótt og tók um leið 72 nærmyndir af honum. Þetta er í annað sinn sem geimfar heimsækir Tempel 1 en þann 4. júlí árið 2005 flaug Deep Impact geimfarið framhjá henni, losaði í leiðinni frá sér koparskeyti sem rakst á halastjörnuna og myndaði gíg. Þetta er í fyrsta sinn sem menn rannsaka halastjörnu í návígi fyrir og eftir sólnánd sem gerir okkur kleift að kanna þær breytingar sem orðið hafa á henni eftir að hún lauk einni hringferð umhverfis sólina. Myndir náðust af gígnum sem myndaðist við áreksturinn árið 2005. Hann er 150 metra breiður og með bungu í miðjunni en mjög ógreinilegur.

Árið 2005 heimsótti Deep Impact geimfarið halastjörnuna Tempel 1. Tilgangur fararinnar var að láta lítið koparskeyti rekast á kjarnann og þeyta efni af honum út í geiminn sem hægt væri að efnagreinaog kanna svo stærð gígsins á yfirborðinu í þeirri von að átta sig á uppbyggingu kjarnans. Öll markmiðin náðust utan þess að gígurinn sást ekki því töluvert meira efni þeyttist frá kjarnanum en menn áttu von á.

Stardust var skotið á loft þann 7. febrúar árið 1999 og varð fyrsta geimfar sögunnar sem safnaði sýnum frá halastjörnu (Wild 2). Geimfarið sneri með sýnasöfnunarhylki aftur til jarðar í janúar árið 2006 og komu þá leiðangursstjórar NASA geimfarinu fyrir á biðbraut svo hægt yrði að endurnýta það síðar þegar tækifæri gæfist enda geimfarið við hestaheilsu.

Í janúar 2007 var ákveðið að senda geimfarið í fjögurra og hálfs árs ferðalag til halastjörnunnar Tempel 1, viðfangsefnis Deep Impact, og var leiðangurinn þá nefndur Stardust-NExT (New Exploration of Tempel).

Halastjörnur eru á sporöskjulaga brautum umhverfis sólina og hitna þegar þær eru næst sólinni svo ísinn gufar upp af kjarnanum. Efnistapið er líklega ójafnt yfir allt yfirborðið en það leiðir að lokum til þess að halastjarnan eyðist. Með því að fljúga aftur framhjá Tempel 1 gafst okkur kostur á að rannsaka breytingarnar sem orðið hafa á halastjörnunni frá því Deep Impact heimsótti hana í júlí 2005, en síðan hefur Tempel lokið einni umferð kringum sólina.

Stardust hóf að taka nærmyndir af 7,5 km breiðum kjarnanum fjórum mínútum áður en það komst næst honum. Geimfarið komst næst kjarnanum í 178 km hæð og tók um leið 72 nærmyndir af honum (minni geimfarsins takmarkast við þennan fjölda nærmynda í mestu upplausn). Hver mynd er um 15 mínútur að berast til jarðar svo í heild tekur það tæplega hálfan sólarhring fyrir öll gögn og allar myndir að berast frá geimfarinu.

Myndirnar eru betri en margir áttu von á og öll markmið náðust. Á blaðamannafundi NASA í kvöld var greint frá fyrstu niðurstöðum. Þær eru í meginatriðum:

  • Á myndunum sést gígurinn sem myndaðist við áreksturinn árið 2005. Hann er 150 metra breiður og með bungu í miðjunni. Efnið sem þeyttist upp frá halastjörnunni settist aftur á hana og gróf gíginn að hluta til að minnsta kosti. Gígurinn er mjög ógreinlegur.

  • Greinilegt er að talsverðar breytingar hafa orðið á yfirborðinu síðustu sex árin.

  • Ný svæði voru ljósmynduð í fyrsta sinn.

  • Yfirborð halastjörnunnar er mjög veikt, nánast brothætt en „lagfærði“ sig sjálft eftir áreksturinn og er sennilega hluti ástæðunnar að gígurinn er óljós.

Geimfarið er enn við hestaheilsu og mun það fylgjast með halastjörnunni er það fjarlægist hana næstu tvær vikur. Eftir það lýkur starfsemi þess. Verkefnið verður ekki framlengdur enda gengur geimfarið á eldsneytisgufunni, ef svo má segja.

Hægt að skoða allar myndirnar frá framhjáfluginu hér.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands

Sími: 896-1984

Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1105

Tengdar myndir

  • Tempel 1, Stardust, Deep Impact, halastjarnaHalastjarnan Tempel 1 séð frá Stardust geimfarinu klukkan 04:39 aðfaranótt 15. febrúar 2010. Deep Impact geimfarið heimsótti halastjörnuna árið 2005. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell
  • Tempel 1, Stardust, Deep Impact, halastjarnaHalastjarnan Tempel 1 séð frá Stardust geimfarinu klukkan 04:39 aðfaranótt 15. febrúar 2010. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell.
  • Tempel 1, Stardust, Deep Impact, halastjarnaHalastjarnan Tempel 1 séð frá Stardust geimfarinu klukkan 04:39 aðfaranótt 15. febrúar 2010. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell.
  • Árekstur Deep Impact við Tempel 1 4. júlí 2005Árekstur koparskeytis við Tempel 1 halastjörnuna 4. júlí 2005 séð frá Deep Impact geimfarinu. Mynd: NASA/JPL.
  • Tempel 1, Stardust, Deep Impact, halastjarnaSamanburður á þeim hluta halastjörnunnar Tempel 1 fyrir og eftir áreksturinn í júlí 2005. Örvarnar á myndinni hægra megin benda á brún gígsins sem myndaðist við áreksturinn. Gígurinn er um 150 metrar í þvermál. Í miðju hans er lítil bunga sem líklega myndaðist þegar efni úr árekstrinum féll aftur niður í gíginn. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell.