Fögur endurskinsþoka

Sævar Helgi Bragason 16. feb. 2011 Fréttir

Messier 78 er virkt stjörnumyndunarsvæði í stjörnumerkinu Óríon. Stjörnurnar í þokunni gefa frá sér skært ljós sem rykagnir endurvarpa og dreifa.

  • Messier 78, M78, endurskinsþoka í Óríon

Á þessari mynd, sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í Chile, sést geimþokan Messier 78. Í þokunni eru stjörnurnar sem lýsa hana upp í aukahlutverki. Þær gefa frá sér skært ljós sem rykagnir þokunnar endurvarpa og dreifa svo hún tekur á sig bláan blæ. Igor Chekalin vann til fyrstu verðlauna í Hidden Treasures stjörnuljósmyndakeppninni fyrir sína mynd af þessu tignarlega fyrirbæri.

Messier 78 er endurskinsþoka. Útbláa ljósið sem stjörnurnar í þokunni gefa frá sér er ekki nógu sterkt til að jóna gasið svo það glói, en rykagnirnar endurvarpa þess í stað ljósinu sem fellur á þær. Þrátt fyrir þetta sést Messier 78 auðveldlega í gegnum litla stjörnusjónauka enda meðal björtustu endurskinsþoka himins. Þokan er í 1.600 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Óríon, nánar tiltekið norðaustur af austustu stjörnunni í belti Óríons (Fjósakonunum).

Ljósmyndin sem hér sést var unnin úr gögnum sem Igor Chekalin notaði í vinningsmynd sína í Hidden Treasures ljósmyndakeppninni [1] og aflað var með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla.

Ljósblái bjarminn á þessari mynd gefur raunsanna mynd á ráðandi lit þokunnar. Endurskinsþokur eru venjulega bláleitar vegna þess að rykagnirnar dreifa bláu ljósi með stutta bylgjulengd betur en rautt ljós með lengri bylgjulengd.

Á myndinni sjást mörg önnur glæsileg smáatriði. Þykkt ryklag teygir sig efst vinstra megin niður til hægri og hindrar að ljós berist frá stjörnum í bakgrunni. Neðst í hægra horninu eru líka mörg forvitnileg smáatriði, bleik að lit. Þau hafa myndast af völdum efnisstróka sem nýmyndaðar stjörnur, enn djúpt innan í rykskýjunum, hafa þeytt frá sér.

Tvær skærar stjörnur, HD 38563A og HD 38563B, lýsa upp Messier 78. Þokan geymir engu að síður fjölmargar aðrar stjörnur, til dæmis 45 ungar lágmassastjörnur (innan við 10 milljón ára) sem nefnst T-Tarfsstjörnur (T-Tauri), en í kjarna þeirra er hitastigið enn of lágt til þess að kjarnahvörf geti hafist. Rannsóknir á T-Tarfsstjörnum eru mikilvægar því þær hjálpa okkur að skilja fyrstu skrefin í myndun stjarna og einnig hvernig hringþokur verða til.

Þótt ótrúlegt megi virðast hafa töluverðar breytingar orðið í þokunni á síðustu tíu árum. Í febrúar 2004 tók stjörnuáhugamaðurinn Jay McNeil ljósmynd af þokunni með 75 mm sjónauka. Á henni sást björt þoka — keilulaga skýið neðarlega á myndinni — þar sem ekkert sást á eldri myndum. Þetta fyrirbæri er nú þekkt sem þoka McNeils og virðist vera mjög breytileg endurskinsþoka sem umlykur unga stjörnu.

Þessi litmynd er sett saman úr svarthvítum ljósmyndum sem teknar voru í gegnum bláar, gul/grænar og rauðar síur auk mynda sem teknar voru í gegnum Vetnis-alfa síu sem sýnir ljós frá rauðglóandi vetnisgasi. Heildarlýsingartíminn gegnum hverja síu var 9, 9, 17,5 og 15,5 mínútur.

Skýringar

[1] Rússinn Igor Chekalin fann gögnin í gagnasafni ESO sem notuð voru til að útbúa þessa mynd af Messier 78. Hann vann hráu gögnin af mikilli natni og vann til fyrstu verðlauna í Hidden Treasures (eso1102) ljósmyndakeppni ESO fyrir sína útgáfu af myndinni. Myndvinnslusérfræðingar ESO unnu myndina úr gögnunum upp á nýtt í fullri upplausn og sést hún hér (sjá Flickr).

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands
Reykjavík, Iceland
Cell: 896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1105.

Tengdar myndir

  • Messier 78, M78, endurskinsþoka, ÓríonMessier 78: Endurskinsþoka í Óríon. Þessi nýja ljósmynd af endurskinsþokunni Messier 78 var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Mynd: ESO og Igor Chekalin
  • stjörnukort, stjörnumerki, ÓríonÁ þessu korti sést staðsetning Messier 78 í stjörnumerkinu Óríon. Á kortinu sjást flestar þær stjörnur sem greina má með berum augum við góðar aðstæður. Þokan er tiltölulega björt og sést vel í gegnum litla áhugamannasjónauka. Kort: IAU, S&T og Stjörnufræðivefurinn
  • Messier 78, M78, endurskinsþoka, ÓríonHér sjást smáatriði á fjórum stöðum í endurskinsþokunni Messier 78. Efsti ramminn nær yfir mestan norðurhluta þokunnar og sýnir stjörnuna sem lýsir hana upp auk margra annarra smáatriða. Miðramminn sýnir rykskýin í kringum miðhluta Messier 78. Neðsti ramminn sýnir þoku McNeils auk bleikra efnisstróka frá nýmynduðum stjörnum. Mynd: ESO og Igor Chekalin
  • Messier 78, M78, endurskinsþoka, ÓríonSamanburður á litmynd af Messier 78 sem tekin var árið 2006 með 4 metra Mayall sjónaukanum á Kitt Peak í Arizona (neðri) og nýju myndinni sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla í Chile (efri). Bjarta, keilulaga skýið er breytileg þoka sem stjörnuáhugamaðurinn Jay McNeil sá fyrstur manna snemma árs 2004. Hún sést vart á eldri myndinni en er greinilega á þeirri nýju. Mynd: ESO/T. A. Rector/Alaskaháskóli í Anchorage, H. Schweiker/WIYN og NOAO/AURA/NSf og Igor Chekalin.
  • MPG/ESO sjónaukinn2,2 metra sjónauki Max Planck stofnunarinnar og ESO hefur verið í notkun á La Silla frá 1984. Mynd: ESO/H.H.Heyer.