Vetrarbrautin NGC 4214: Rannsóknastöð stjörnumyndunar

Sævar Helgi Bragason 12. maí 2011 Fréttir

Ný mynd Hubblessjónaukans sýnir dvergvetrarbraut sem er sérlega heppileg til rannsókna á stjörnumyndun og þróun stjarna.

  • NGC 4214, dvergvetrarbraut, Hubblessjónaukinn, myndun stjarna

Nýjasta myndavél Hubblessjónaukans hefur nú fest á mynd vetrarbrautina NGC 4214. Í vetrarbrautinni skína ungar stjörnur og gasský skært og aðstæður eru sérlega heppilegar til rannsókna fyrir stjarnvísindamenn á stjörnumyndun og þróun stjarna.

Stærðin er ekki allt ... allavega ekki í stjörnufræði. Dvergvetrarbrautin NGC 4214 kann að vera smá, en það sem uppá vantar í stærð, bætir hún upp með því sem hún hefur að geyma. Allt það sem stjörnufræðingurinn gæti beðið um er þar saman komið, frá ungum heitum stjörnumyndunarsvæðum að öldnum þyrpingum rauðra reginrisa.

Á þessari mynd Wide Field Camera 3 (WFC3) á Hubblessjónauka NASA og ESA, sem tekin er á sýnilega og nær-innrauða sviðinu, gefur að líta margslungin mynstur glóandi jónaðs vetnis, mikil holrúm sem stjörnuvindar hafa hreinsað af öllu gasi og bjartar stjörnuþyrpingar NGC 4214.

Gríðarmikið hjartalaga holrúm — sennilega það einkenni þokunnar sem helst grípur augað — má sjá fyrir miðri mynd. Innan í holunni er stór klasi massamikilla, ungra stjarna og nær yfirborðshitastig þeirra frá 10.000°C að 50.000°C. Sterkir stjörnuvindar sem af stjörnunum stafa orsaka holrúmið. Skortur á gasi á svæðinu varnar þar frekari stjörnumyndun.

Vetrarbrautin er í um 10 milljón ljósárafjarlægð í stjörnumerkinu Veiðihundunum. Nálægð hennar og sú staðreynd að hún skuli geyma svo margar stjörnur á ólíkum stigum ævi sinnar gerir hana að kjörlendi þeirra sem rannsaka það hvað hindir af stað stjörnumyndun og þróun stjarna. Fyrir slembilukku er tiltölulega lítið geimryk milli okkar og NGC 4214 sem gerir mælingarnar enn nákvæmari.

NGC 4212 geymir mikið gas. Sumt af því er rauðglóandi á myndinni og er mikill og góður efniviður í stjörnur. Þau svæði þar sem mest er af vetni og hýsa því jafnframt yngstu stjörnuþyrpingarnar (um tveggja milljón ára gamlar), sitja á efri hluta þessarar Hubble myndar. Rétt eins og önnur einkenni myndarinnar, þá er svæðið greinilegt vegna þess að hið orkuríka útfjólubláa ljós hinna ungu og heitu stjarna rafar gasið sem umlykur þær.

Athuganir á þessari dvergvetrarbraut hafa líka svipt hulunni af þyrpingum mun eldri rauðra reginrisa, sem eru á seinni stigum æviskeiðs síns. Stakar aldnar stjörnur má líka sjá á dreif um alla vetrarbrautina. Þótt þessar stjörnur skíni skært á innrauða sviðinu senda þær aðeins frá sér dauft ljós á sýnilega hluta litrófsins. Mikil aldursdreifing stjarnanna gefur til kynna að nýloknar og yfirstandandi stjörnumyndunarhrinur séu hvergi nærri þær fyrstu. Hin fjölmörgu svæði sem geyma rafað gas gefa þá til kynna að þær sem nú standa yfir séu ekki þær síðustu.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)-ESA/Hubble samstarfið. Þakkir: R. O’Connell (University of Virginia) og WFC3 Scientific Oversight nefndin.

Tenglar

Tengiliðir

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands,
Reykjavík
Sími: +354 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Oli Usher
Hubble/ESA,
Garching,
Þýskalandi
Sími: +49-89-3200-6855
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1105

Tengdar myndir

  • NGC 4214, dvergvetrarbraut, Hubblessjónaukinn, myndun stjarnaVetrarbrautin NGC 4214, sem sjá má á þessari mynd sem tekin var með nýjustu myndavél Hubblessjónauka NASA og ESA, er sérlega góður staður til að rannsaka myndun stjarna og þróun þeirra. Mestan hluta vetrarbrautarinnar fyllir gríðarstórt glóandi gasský þar sem nýjar stjörnur fæðast stöðugt. Gríðarmikið hjartalaga holrúm — sennilega það einkenni þokunnar sem helst grípur augað — má sjá fyrir miðri mynd. Innan í holunni er stór klasi massamikilla, ungra stjarna og nær yfirborðshitastig þeirra frá 10.000°C að 50.000°C. Sterkir stjörnuvindar sem af stjörnunum stafa orsaka tilurð holrúmsins. Skortur á gasi á svæðinu varnar þar frekari stjörnumyndun. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)-ESA/Hubble samstarfið. Þakkir: R. O’Connell (University of Virginia) og WFC3 Scientific Oversight nefndin.
  • NGC 4214, dvergvetrarbraut, Hubblessjónaukinn, myndun stjarnaMyndin sýnir nánasta nágrenni hinnar dvergvöxnu og óreglulegu vetrarbrautar NGC 4214. Sú er tekin með jarðbundnum sjónauka. Hubblessjónauki NASA/ESA hefur nú tekið nærmynd af henni sem sýna meiri smáatriði, m.a. merki um nýlega og yfirstandandi stjörnumyndun. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2