Stórkostleg sýn Hubbles á vetrarbrautina Centaurus A

Sævar Helgi Bragason 16. jún. 2011 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið magnaða mynd af vetrarbraut sem tekur stöðugt breytingum.

  • Centaurus A

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið nærmynd af vetrarbrautinni Centaurus A. Frábær staðsetning Hubbles ofan lofthjúpsins og myndavélin Wide Field Camera 3, sem er í hæsta gæðaflokki, færa okkur magnaða mynd af vetrarbraut sem tekur stöðugt breytingum.

Centaurus A, einnig þekkt sem NGC 5128, er fræg fyrir stórbrotnar dökkar rykslæður sem liggja um hana. Athuganir Hubbles eru þær nákvæmustu sem gerðar hafa verið hingað til á vetrarbrautinni en notast var við Wide Field Camera 3 (WFC3), besta tæki geimsjónaukans. Afrakstur athugana Hubbles hefur verið hnoðað saman í eina mynd sem spannar nokkuð stórt bylgjulengdarbil. Á myndinni sjást smáatriði í rykuga hluta hennar sem ekki hafa sést áður.

Þessi samsetta mynd sýnir okkur útfjólublátt ljós frá ungum stjörnum, nær-innrautt ljós sem sýnir okkur smáatriði sem annars eru hulin ryki og auk þess smáatriði í sýnilegu ljósi.

Dökka rykslæðan sem liggur þvert í gegnum Centaurus A er ekki til vitnis um skort á stjörnum heldur vöntun á ljósi frá þeim. Rykskýin eru ógegnsæ og hleypa þess vegna ekki hinu sýnilega ljósi í gegn til okkar. WFC3 myndavél Hubblessjónaukans beindi sjónum að þessum rykugu svæðum, sem ná millum horna á þessari mynd. Víðmyndir sjónauka á jörðu niðri sýna að ræman gengur gegnum alla vetrarbrautina.

Centaurus A ber athygliverð einkenni. Vetrarbrautarskífan, sem er úr gasi og ryki, er undin (sést ekki hér). Það ber því vitni að vetrarbrautin hafi rekist á og runnið saman við aðra vetrarbraut. Höggbylgjur sem mynduðust í hamförunum urðu til þess að ský úr vetnisgasi tóku að renna saman. Nú er þar mikil stjörnumyndun, eins og sjá má á afskekktum svæðum og rauðum flekkum á þessari nærmynd Hubblessjónaukans.

Í þéttum kjarna vetrarbrautarinnar hvílir gríðarstórt svarthol sem er mjög virkt. Kröftugir afstæðilegir strókar senda frá sér mikla geislun útvarpsbylgna og röntgenljóss. Þetta ljós er þó ekki sýnilegt tækjum Hubblessjónaukans, enda eru þau hönnuð til athugana á sýnilegum, útfjólubláum og innrauðum bylgjulengdarbilum.

Þó Centaurus A sé í rétt rúmlega 11 milljón ljósára fjarlægð, er hún tiltölulega nærri á stjarnfræðilegum mælikvarða. Jafnframt er hún mjög björt á að líta. Hún er því kjörið viðfang áhugamanna um stjörnuskoðun sem staddir eru á suðurhveli jarðar, þar sem hún er sýnileg. Stjörnuathugendur geta séð vetrarbrautina með handsjónauka en stærri áhugamannasjónaukar gætu sýnt rykugar slæðurnar.

Þrátt fyrir þetta er það einungis með Hubblessjóaukanum sem mörg einkenna myndarinnar koma í ljós. Því auk óviðjafnanlegs skýrleika og upplausnar mynda, þá gerir staðsetning Hubblessjónaukans á sporbraut um jörðu honum kleift að greina útfjólublátt ljós sem lofthjúpurinn gleypir og eru því ósýnilegt frá jörðu niðri.

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands,
Rekjavík
Sími: 663-6867
E-mail: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1110

Tengdar myndir

  • Centaurus ACentaurus A, einnig þekkt sem NGC 5128, er fræg fyrir stórbrotnar dökkar og rykugar slæður sem liggja um hana. Athuganir Hubbles eru þær nákvæmustu sem gerðar hafa verið hingað til á vetrarbrautinni en notast var við besta tæki Hubbles, Wide Field Camera 3 (WFC3). Afrakstur athugana Hubbles hefur verið hnoðað saman í eina mynd sem spannar nokkuð stórt bylgjulengdarbil. Myndin afhjúpar smáatriði í rykuga hluta hennar sem hafa ekki sést áður. Ásamt því að sýna einkenni sem eru ljós á sýnilega hluta litrófsins, þá sýnir þessi samsetta mynd útfjólublátt ljós frá ungum stjörnum og nær innrautt ljós, sem sýnir okkur smáatriði sem annars eru hulin í ryki. Mynd: NASA & ESA
  • Centaurus AMynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla af Centaurus A (NGC 5128). Mynd: ESO
  • Centaurus AÍ þessu vefvarpi fer Dr. J með okkur í ferðalag um Centaurus A