Logar Betelgáss

Ný mynd sýnir mikla þoku umhverfis reginrisan fræga

Sævar Helgi Bragason 23. jún. 2011 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa ljósmyndað margslungna og bjarta þoku umhverfis reginrisan Betelgás í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr.
  • Betelgás, Betelgeuse, Óríon, reginrisi, rauður risi

Stjörnufræðingar hafa notað VISIR mælitækið á Very Large Telescope (VLT) ESO til að ljósmynda margslungna og bjarta þoku umhverfis reginrisastjörnuna Betelgás í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Þokan minnir á loga sem stíga út úr stjörnunni og varð til þegar risastjarnan varpaði frá sér efni út í geiminn.

Betelgás er rauður reginrisi í stjörnumerkinu Óríon, ein bjartasta stjarna næturhiminsins og ein sú stærsta sem sést frá jörðinni. Væri Betelgás í miðju sólkerfisins næði stjarnan út að braut Júpíters — fjórum og hálfum sinnum breiðari en braut jarðar. Á mynd VLT sést þokan sem umlykur Betelgás en hún er miklu stærri en stjarnan sjálf. Hún nær 60 milljarða km frá yfirborði hennar eða sem nemur 400 faldri fjarlægðinni milli jarðar og sólar.

Rauðir reginrisar eins og Betelgás eru á síðustu stigum ævi sinnar. Á þessu stutta æviskeiði vex stjarnan og varpar ytri lögum sínum frá sér út í geiminn af miklu offorsi — á aðeins 10.000 árum varpar hún um það bil einum sólarmassa af efni út í geiminn.

Tvenns konar fyrirbæri eru ábyrg fyrir því að Betelgás varpi frá sér efni. Fyrst er það myndun stórra gasstróka (sem eru mun smærri en þokan sem hér sést) sem teygja sig út í geiminn frá yfirborði stjörnunnar og hafa sést með NACO mælitækinu á VLT [1]. Hitt fyrirbærið, sem varpar stórkunum út í geim, er færsla stórra gasbóla upp og niður í lofthjúpi Betelgáss sem líkja mætti við iðustrauma sjóðandi vatns í potti (eso0927).

Nýju niðurstöðurnar sýna að strókarnir sem sjást við stjörnuna tengjast líklega þeim formum sem sjá má í ytri hlutum þokunnar á þessari innrauðu ljósmynd sem tekin var með VISIR. Þokan sést ekki í sýnilegu ljósi því birtan frá Betelgási er miklu meiri og yfirgnæfir hana. Þokan er óregluleg og ósamhverf sem bendir til þess að stjarna varpi ekki ytri lögunum frá sér á samhverfan hátt. Hugsanlegt er að kúlur úr efni frá stjörnunni og risastrókar eigi sök á kekkjóttu yfirbragði þokunnar.

Efnið sem sést á nýju myndinni er líklega ryk úr sílikötum og áli. Það er sama efni og myndar jarðskorpuna að mestu leyti sem og skorpur annarra bergreikistjarna. Á einhverjum tímapunkti í fjarlægri fortíð myndaði því massamikil stjarna sem nú er sprungin, svipuð Betelgási, sílikötin á jörðinni.

Á þessari samsettu mynd eru strókarnir sem sáust í eldri mælingum NACO í sjáanlegir í skífunni í miðjunni. Litli rauði hringurinn í miðjunni er um fjórum og hálfum sinnum breiðari en braut jarðar um sólina og markar staðsetningu Betelgáss sjálfs. Svarta skífan markar mjög bjart svæði á myndinni sem var skyggt svo hægt væri að sjá þokuna sem er daufari. Myndir VISIR voru teknar í gegnum innrauðar síur sem hleypa í gegn geislun í mismunandi bylgjulengdum. Blár litur samsvarar stuttum bylgjulengdum en rauður litur lengri. Sjónsviðið er 5,63 x 5,63 bogasekúndur.

Skýringar

[1] NACO er mælitæki á VLT sem sameinar Nasmyth aðlögunarsjóntæknikerfið (Nasmyth Adaptive Optics System, NAOS) og nær-innrauðu myndavélina og litrófsritann CONICA. Með NACO er hægt að taka ljósmyndir, gera skautunarmælingar, nota kórónusjá og gera litrófsmælingar með aðstoð aðlögunarsjóntækni í nær-innrauðum bylgjulengdum.

Frekari upplýsingar

Sagt er frá þessari rannsókn í grein í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarhópnum eru P. Kervella (Observatoire de Paris í Frakklandi), G. Perrin (Observatoire de Paris), A. Chiavassa (Université Libre de Bruxelles í Belgíu), S. T. Ridgway (National Optical Astronomy Observatories, Tucson í Bandaríkjunum), J. Cami (University of Western Ontario í Kanada; SETI Institute, Mountain View í Bandaríkjunum), X. Haubois (Universidade de Sao Paulo í Brasilíu) og T. Verhoelst (Instituut voor Sterrenkunde, Leuven í Hollandi).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Pierre Kervella
LESIA, Observatoire de Paris / CNRS, Université Pierre et Marie Curie
Paris, France
Tel: +33 1 45 07 79 66
Email: [email protected]

Guy Perrin
LESIA, Observatoire de Paris / CNRS, Université Pierre et Marie Curie
Paris, France
Tel: +33 1 45 07 79 63
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1121.

Tengdar myndir

  • Betelgás, Betelgeuse, Óríon, reginrisi, rauður risiÞokan í kringum rauða reginrisann Betelgás á mynd sem tekin var með innrauðu myndavélinni VISIR á Very Large Telescope (VLT) ESO. Þokan myndast þegar risinn varpar frá sér efni út í geiminn. Rauði hringurinn í miðjunni er fjórum og hálfum sinnum breiðari en braut jarðar og markar staðsetningu hins sýnilega yfirborðs Betelgáss. Þar fyrir utan eru eldri mælingar NACO mælitækisins af strókunum frá stjörnunni. Svarta skífan markar mjög bjart svæði sem var skyggt svo þokan, sem er daufir, sæist betur. Mynd: ESO/P. Kervella.
  • Betelgás, ÓríonKort sem sýnir staðsetningu Betelgáss í stjörnumerkinu Óríon. Mynd: IAU, S&T og Stjörnufræðivefurinn