Til hamingju með afmælið Neptúnus!

Sævar Helgi Bragason 12. júl. 2011 Fréttir

Hubble geimsjónaukinn hefur tekið nýjar myndir af Neptúnusi í tilefni þess að eitt Neptúnusarár er liðið frá því að þessi útvörður sólkerfisins fannst.

  • Neptúnus

Hér að ofan sést blái hnötturinn Neptúnus, áttunda og ysta reikistjarna sólkerfisins. Myndirnar voru teknar með Wide Field Camera 3 myndavélinni á Hubble geimsjónauka NASA og ESA dagana 25.-26. júní 2011 í tilefni þess að eitt Neptúnusarár er nú liðið frá því að þessi útvörður sólkerfisins fannst. Neptúnus er 60.190 jarðdaga — rétt innan við 165 jarðár — að snúast í kringum sólina. Þann 11. júlí 2011 hafði Neptúnus því lokið sinni fyrstu hringferð um sólina frá því að hann fannst 23.-24. september 1846.

Neptúnus er svo langt í burtu og svo daufur að hann sést ekki með berum augum. Því þurfti hugvit og sjónauka til þess að finna hann.

Snemma árs 1614 var Neptúnus fyrir tilviljun óvenju nálægt Júpíter frá jörðu séð. Galíleó Galílei var þá að fylgjast með Júpíter og sýna teikningar hans Neptúnus greinilega. Galíleó taldi hins vegar sð um stjörnu í bakgrunni væri að ræða og veitti henni ekki frekari athygli. Þess vegna vissi enginn um Neptúnus í meira en tvö hundruð ár til viðbótar.

Sumarið 1846 rannsakaði franski stjörnufræðingurin Urbain Le Verrier óreglu í braut Úranusar. Le Verrier dró þá ályktun að óþekkt reikistjarna væri ástæða óreglunnar og spáði meira að segja nákvæmlega fyrir um hvar á himninum reikistjörnuna væri að finna. Á sama tíma á Englandi gerði John Couch Adams svipaða útreikninga og komst að svipaðri niðurstöðu. Innan við sólarhring eftir að Le Verrirer lét stjörnustöðina í Berlín vita um útreikninga sína fundu stjörnufræðingar reikistjörnuna skömmu eftir miðnætti 24. september 1846, keppinautunum í Bretlandi til töluverðrar armæðu.

Í gegnum stjörnusjónauka 19. aldar var Neptúnus lítið annað en bláleit skífa, næstum óþekkjanleg frá öðrum stjörnum á hvelfingunni. Þótt hann sé næstum fjórfalt stærri en jörðin að þvermáli er hann líka næstum 30 sinnum lengra frá sólinni en við. Þess vegna er mjög erfitt að greina nokkuð á honum.

Neptúnus er líka lítill í gegnum sjónauka eins og Hubble þótt smáatriði sjáist. Ólgur í lofthjúpi Neptúnusar setja sterkan svip á þessa bláu risareikistjörnu og gera stjörnufræðingum kleift að reikna út snúningstíma hans. Aðeins nokkrar vikur eru síðan nýjustu útreikningarnir voru kynntir: Einn sólarhringur á Neptúnusi er 15 klukkustundir, 57 mínútur og 59 sekúndur.

Neptúnus er nokkurs konar millistig gasrisa eins og Júpíters og Satúrnusar og smærri bergreikistjarna eins og jarðar og Venusar. Þykkur lofthjúpurinn er að mestu úr vetni og helíni en bláa litinn má rekja til metans. Líklega má þar finna öflugustu storma sólkerfisins þar sem vindhraðinn nær yfir 500 metrum á sekúndu.

Því miður hefur Neptúnus aðeins verið heimsóttur einu sinni. Árið 1989 varð hann síðasti áfangastaður Voyagers 2 áður en hann hélt í langferð út úr sólkerfinu og til stjarnanna. Í framhjáfluginu voru teknar fjölmargar myndir af reikistjörnunni og stórfurðulegum tunglum hans.

Til hamingju með afmælið Neptúnus! Vonandi færðu heimsókn frá jörðinni sem allra allra fyrst.

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands
Reykjavík, Ísland
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Tenglar

Tengdar myndir

  • NeptúnusÞessar fjórar myndir af Neptúnusi, áttundu og ystu reikistjörnu sólkerfisins, var tekin með nokkurra klukkustunda millibili með Wide Field Camera 3 á Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Mynd Hubbles var tekin í tilefni þess að reikistjarnan hefur lokið einni hringferð í kringum sólin frá því að hún fannst árið 1864. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
  • NeptúnusSamsett mynd af Neptúnusi sem teknar voru á nokkurra klukkustunda fresti með Wide Field Camera 3 á Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Myndirnar sýna hvernig fimm af tunglum Neptúnusar, Próteus, Despína, Larissa, Galatea og Tríton, hringsóla umhverfis reikistjörnuna. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
  • NeptúnusStaðsetning Neptúnusar á himninum árið 2011 og 2012. Búið er að merkja inn staðsetninguna sem spáð var fyrir um árið 1846 að reikistjörnuna væri að finna. Neptúnus er í Vatnsberanum út árið 2011. Stefnubreytingin er af völdum snúnings jarðar í kringum sólina á einu ári. Mynd: Sky & Telescope