ALMA beinir sjónum sínum að Centaurus A

Sævar Helgi Bragason 31. maí 2012 Fréttir

Með nýjum sjónauka hefur stjörnufræðingum tekist að sjá í gegnum ryk sem alla jafna hylur miðju Centaurus A.

  • Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþoka, útvarpssporvala

Ný mynd Atacama Large Millimeter/submillimeter Telescope af miðju vetrarbrautarinnar Centaurus A, sýnir vel hvernig þessi nýi sjónauki gerir stjörnufræðingum kleift að sjá í gegnum ryk, sem alla jafna er ógegnsætt og hylur miðju vetrarbrautarinnar, í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Þótt ALMA sé enn í smíðum og að gera sínar fyrstu mælingar, er hún þegar öflugasti sjónauki sinnar tegundar í heiminum. Nýverið var óskað eftir tillögum fyrir næstu mælingar sjónaukans þegar greinigeta hans verður enn meiri.

Centaurus A [1] er stór útvarpsspörvöluþoka — vetrarbraut sem gefur frá sér sterka útvarpsgeislun — sú bjartasta og nálægasta sinnar tegundar á himninum [2]. Vetrarbrautin hefur þess vegna verið viðfangsefni fjölmargra ólíkra sjónauka. Í björtum kjarna hennar er risasvarthol, 100 milljón sinnum massameira en sólin.

Í sýnilegu ljósi er dökk rykslæða sem hylur miðjuna mest áberandi einkenni vetrarbrautarinnar (sjá til dæmis eso1221). Í slæðunni er mikið magn gass, ryks og ungra stjarna. Hún og sterka útvarpsgeislunin eru merki þess að Centaurus A sé afleiðing árekstrar milli stórrar sporvöluþoku og smærri þyrilþoku en rykið er leifar hennar.

Til að sjá í gegnum þennan þykka rykmökk verða stjörnufræðingar að greina lengri bylgjulengdir ljóss. Nýja myndin sem hér sést var búin til úr mælingum ALMA á bylgjulengdum í kringum einn millímetra og mælingum annars sjónauka á nær-innrauðu ljósi. Hér er því horft í gegnum rykið inn að björtum kjarnanum.

Mælingar ALMA eru sýndar í grænum, gulum og appelsínugulum litum og sýna ólíka hreyfingu gass í vetrarbrautinni. Þetta eru skörpustu og nákvæmustu mælingar af þessu tagi sem gerðar hafa verið. ALMA var stillt til að greina merki geislunar með 1,3 millímetra bylgjulengd sem berst frá kolmónoxíðgasi. Snúningur gassins í vetrarbrautinni veldur örlítilli færslu á bylgjulengdinni vegna Dopplerhrifa [3] og sést hún sem litabreyting á myndinni. Grænleitu gasskýin stefna til okkar en appelsínugulari skýin fjarlægast okkur. Sjá má að gasið vinstra megin við miðju nálgast okkur en hægra megin stefnir það frá okkur. Þannig sést snúningsstefna gassins um vetrarbrautina.

Mælingar ALMA hafa verið lagðar ofan á nær-innrauða ljósmynd SOFI mælitækisins á New Technology Telescope (NTT) sjónauka ESO. Myndin var unnin á nýstárlegan hátt þar sem birgjandi áhrif ryksins voru tekin burt (eso0944). Í ljós kemur greinilegur hringur úr gulglóandi stjörnum og þyrpingum, tættar leifar þyrilþokunnar sem þyngdartog risasporvölunnar er að rífa í sundur.

Uppröðun stjörnuhringsins sem NTT greinir í innrauðu ljósi og gassins sem ALMA sér á millímetrasviðinu, sýnir vel ólíka afstöðu svipaðra forma í vetrarbrautinni. Þetta er dæmi um hvernig mælingar annarra sjónauka geta bætt við mælingar ALMA.

Árið 2013 lýkur smíði ALMA á Chajnantor sléttunni í norður Chile þegar 66 loftnet verða að fullu starfhæf. Nú þegar hefur helmingi loftnetanna verið komið fyrir (sjá ann12035). Fyrstu mælingar hófust með hluta raðarinnar árið 2011 (sjá eso1137) og eru þær þegar farnar að gefa framúrskarandi niðurstöður (sjá til dæmis eso1216). Mælingar ALMA á Centaurus A, sem hér sjást, voru gerðar fyrir hinn svokallaða Commissioning and Science Verification fasa sjónaukans.

ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. Í Evrópu er verkefnið fjármagnað af ESO, í Norður Ameríku af National Science Foundation (NSF) í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og í Austur Asíu af National Insitutes of Natural Sciences (NINS) í Japan í samstarfi við Academia Sinica (AS) í Taívan. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Skýringar

[1] Vetrarbrautin er nefnd Centaurus A því hún var fyrsta stóra útvarpslindin sem fannst í stjörnumerkinu Mannfáknum (Centaurus) upp úr 1950. Hún er líka kölluð NGC 5128. Breski stjörnufræðingurinn James Dunlop uppgötvaði vetrarbrautina 4. ágúst 1826.

[2] Centaurus A er í um 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum.

[3] Dopplerhrif eru breytingar sem verða á bylgjulengd ljósgeisla milli athuganda og uppsprettu sem hreyfist. Sameindir í gasskýjum gefa frá sér ljós með tilteknum bylgjulengdum og ef skýin eru á mikilli hreyfingu koma fram örlitlar breytingar á bylgjulengdum ljósgeislanna sem koma frá þeim.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragson
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Douglas Pierce-Price
ESO Public Information Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1222.

Tengdar myndir

  • Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþokaÞessi mynd samanstendur af mælingum ALMA og nær-innrauðum mælingum annars sjónauka af risaútvarpssporvölunni Centaurus A. Mælingar ALMA eru sýndar í grænum, gulum og appelsínugulum litum en þær sýna staðsetningu og hreyfingu gass í vetrarbrautinni. Þetta eru skörpustu og nákvæmustu mælingar af þessu tagi sem gerðar hafa verið. Mælingar ALMA hafa verið lagðar ofan á nær-innrauða ljósmynd SOFI mælitækisins á New Technology Telescope (NTT) sjónauka ESO. Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO); ESO/Y. Beletsky

Krakkavæn útgáfa