Fjöldi fólks fylgdist með þvergöngu Venusar

Sævar Helgi Bragason 06. jún. 2012 Fréttir

Um 1.500 manns lögðu leið sína að Perlunni í Reykjavík í gærkvöld til að fylgjast með síðustu þvergöngu Venusar á 21. öld.

  • Þverganga Venusar 2012

Um 1.500 manns lögðu leið sína að Perlunni í Reykjavík í gærkvöld til að fylgjast með síðustu þvergöngu Venusar á 21. öld. Fyrstu gestir voru mættir um klukkan 21:00 en þvergangan hófst rúmri klukkustund síðar. Þrátt fyrir tvísýnt veðurútlit sást þvergangan mjög vel frá Reykjavík í gegnum fjölmarga sjónauka félagsmanna Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem voru á staðnum. Á Þingeyri kom fjöldi fólks líka saman en veðrið setti því miður strik í reikninginn á Norðurlandi.

Þverganga Venusar er sjaldgæfur viðburður sem gerist á rúmlega 100 ára fresti og þá í tvígang með átta ára millibili. Árið 2004 sást þverganga Venusar vel frá Íslandi en sárafáir fylgdust með þá. Líklega hefur fjöldi Íslendinga sem séð hefur þennan einstaka atburð meira en 100-faldast eftir gærkvöldið. Enginn sem sá þvergönguna nú verður á lífi þegar þetta gerist næst árið 2117 (sú þverganga sést raunar ekki frá Íslandi).

Félagsmenn Stjörnuskoðunarfélagsins komu vel útbúnir sjónaukum og síum sem gerðu fólki kleift að sjá þvergönguna á öruggan hátt.

Sólin sjálf var útötuð í sólblettum sem sáust vel en þunnar skýjaslæður settu líka skemmtilegan svip á atburðinn. Skýin drógu einnig úr birtu sólar sem olli því að myrkvagleraugun nýttust ekki sem skildi. Þau munu hins vegar nýtast fólki árið 2015 þegar deildarmyrkvi á sólu sést frá Íslandi.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu leið sína til okkar að Perlunni. Þið gerðuð þessa notalegu kvöldstund ógleymanlega!

Þverganga Venusar 5.-6. júní 2012 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Við óskum að sjálfsögðu eftir fleiri myndum! Sendið okkur á [email protected]

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]
Sími: 896-1984

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]
Sími: 896-1984

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1210

Tengdar myndir

  • þverganga VenusarSólin sest á bakvið Ljósufjöll á Snæfellsnesi með Venus ofarlega á sólskífunni. Ef grannt er skoðað glittir í sólbletti en efst á skífunni hefur ský sett skemmtilegan svip á sólina. Mynd: Andri Ómarsson/Mons
  • þverganga VenusarFólk beið í löngum biðröðum eftir að fá að berja Venus og sólina augum. Í heild voru gestir um 1.500 talsins! Mynd: Andri Ómarsson/Mons