ESO byggir stærsta auga jarðar

Sævar Helgi Bragason 11. jún. 2012 Fréttir

Á fundi sínum í Garching í dag lagði ESO ráðið blessun sína yfir European Extremely Large Telescope (E-LT) verkefnið — stærsta auga jarðar
  • ESO, E-ELT, European Extremely Large Telescope

ESO mun byggja stærsta stjörnusjónauka jarðar fyrir sýnilegt og innrautt ljós. Á fundi sínum í Garching í dag, lagði ESO ráðið blessun sína yfir European Extremely Large Telescope (E-ELT) verkefnið, að áskildu samþykki fjögurra aðildarríkja. E-ELT verður tekinn í notkun snemma næsta áratug.

ESO ráðið, æðsta stjórn ESO, fundaði í dag í höfuðstöðvum samtakanna í Garching í Þýskalandi. Aðalumræðuefnið var upphaf European Extremely Large Telescope (E-ELT) verkefnisins — stærsta auga jarðar. E-ELT mun hafa 39,2 metra samsettan safnspegil og verður reistur á tindi Cerro Armazones í norður Chile, skammt frá Paranal stjörnustöð ESO.

Öll aðildarríki ESO höfðu þegar lýst yfir stuðningi við E-ELT verkefnið (sjá eso1150). Í dag samþykkti ráðið að hefja vinnu við E-ELT og fyrstu mælitæki sjónaukans þótt beðið sé eftir samþykki fjögurra aðildarríka sem veitt hafa áskilin samþykki (ad referendum).

Tveir-þriðju aðildarríkjanna (að minnsta kosti tíu) þurftu að samþykkja áætlunina svo hægt væri að hefja verkefnið. Á fundinum greiddu Austurríki, Tékkland, Þýskaland, Holland, Svíþjóð og Sviss atkvæði með því að hefja E-ELT verkefnið en fjögur önnur lönd, Belgía, Finnland, Ítalía og Bretland, veittu áskilið samþykki. Hin fjögur aðildarríkin vinna að því að gerast þátttakendur í verkefninu í náinni framtíð.

Í samþykktinni er gert ráð fyrir að fjármögnun ýmissa hluta verkefnisins, fyrir utan almennan kostnað sem hlýst í upphafi, hefjist ekki fyrr en þau fjárframlög sem aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að veita í verkefnið, fara yfir 90% af 1083 milljón evra heildarkostnaðinum (á verðlagi ársins 2012). Þetta er í samræmi við fjármögnunaráætlun sem ráðið samþykkti síðla árs 2011.

Miðað við núverandi verkáætlun eiga fyrstu stóru E-ELT verktakasamningarnir og stórir fjármögnunarliðir að liggja fyrir innan árs. Er það talinn nægur tími til að nokkrir þættir verði uppfylltir: Að samþykktir Belgíu, Finnlands, Ítalíu og Bretlands liggi fyrir; að önnur aðildarríki gerist fullir þátttakendur í verkefninu og að Brasilía gerist fullgilt aðildarríki.

„Þetta er góð niðurstaða og frábær dagur fyrir ESO. Við getum nú stigið næsta skref áfram í þessu risaverkefni“ sagði Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

Fyrstu samningar vegna verkefnisins hafa þegar verið undirritaðir. Skömmu áður en ráðið fundaði var undirritaður hönnunarsamningur á M4 aðlögunarspegli sjónaukans, sem er mjög flókin smíð. Þessi spegill krefst eins lengsta undirbúningstímans í öllu E-ELT verkefninu og var mikilvægt að hefja verkið snemma. Frekari upplýsingar er að finna í ann12032.

Unnið er að hönnun vegarins upp að tindi Cerro Armazones, þar sem E-ELT verður staðsettur, og líklegt að lagning hans að hluta til hefjist á þessu ári. Einnig verður hafist handa við að jafna tindinn sjálfum.

„E-ELT mun halda ESO í leiðandi stöðu í stjarnvísindum næstu áratugi og leiða til ríkulegrar og spennandi vísindauppskeru“ sagði Xavier Barcons, forseti ESO ráðsins, að lokum.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Valentina Rodríguez
ePOD Coordinator in Chile
Santiago, Chile
Sími: +562 4633123
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1225.

Tengdar myndir

  • ESO, E-ELT, European Extremely Large TelescopeTeikning listamanns af European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones, 3.060 metra háum fjallstindi í Atacamaeyðimörkinni í Chile. E-ELT verður 39,3 metrar í þvermál og því stærsti stjörnusjónauki heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós — stærsta auga jarðar. E-ELT verður tekinn í norkun snemma næsta áratug og mun hann leita svara við mörgum af stærstu spurningum okkar tíma. Mynd: ESO/L. Calçada
  • ESO, E-ELT, European Extremely Large TelescopeTeikning listamanns af European Extremely Large Telescope (E-ELT) að nóttu til á meðan athuganir standa yfir. E-ELT verður 39,3 metrar í þvermál og því stærsti stjörnusjónauki heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós — stærsta auga jarðar. E-ELT verður tekinn í norkun snemma næsta áratug og mun hann leita svara við mörgum af stærstu spurningum okkar tíma. Mynd: ESO/L. Calçada
  • ESO, E-ELT, European Extremely Large TelescopeTeikning listamanns af European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones, 3.060 metra háum fjallstindi í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Mynd: ESO/L. Calçada
  • ESO, E-ELT, European Extremely Large TelescopeÞessi mynd var tekin í höfuðstöðvum ESO í Garching í Þýskalandi á hinum sögulega fundi ráðsins 11.-12. júní 2012 þegar E-ELT verkefnið var samþykkt (beðið er staðfestingar svokallaðra áskildra samþykkta fjögurra aðildarríkja). Mynd: ESO