Goshver sem spýr heitu gasi frá nýfæddri stjörnu

Sævar Helgi Bragason 02. júl. 2012 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið nýja mynd af Herbig-Haro 110, goshver sem spýr heitu gasi út frá nýfæddri stjörnu.

  • Herbig-Haro fyrirbæri, HH 110, myndun stjarna

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið nýja mynd af Herbig-Haro 110, goshver sem spýr heitu gasi út frá nýfæddri stjörnu.

Herbig-Haro (HH) fyrirbæri eru af ýmsum stærðum og gerðum en í grunninn eru þau öll fremur svipuð. Tveir heitir gasstrókar streyma í gagnstæðar áttir út í geiminn frá stjörnu í mótun. Útstreymið er knúið áfram af gasi sem fellur á stjörnuna ungu og umlukin er gas- og rykskífu. Skífan er eldsneytistankur, stjarnan sjálf þyngdarkraftsvélin og strókarnir útblásturinn.

Á mynd Hubbles af HH 110 sést einn svona gosstrókur greinilega.

Innan HH 110 og öðrum Herbig-Haro fyrirbærum eru ýmis smáatriði tilkomin vegna þess að strókarnir streyma ekki í gegnum fullkomið tómarúm. Þegar þessir orkuríku og hraðfleygu strókar rekast á kaldara gas verður til höggbylgja sem hegðar sér á svipaðan hátt og bylgjur fyrir framan skip á siglingu. Þessi stafnhögg glóa fyrir tilverknað mikils hita sem einkenna Herbig-Haro fyrirbæri.

Smáatriðin í HH 110 og öðrum sambærilegum fyrirbærum eru sem skrá yfir virkni stjörnunnar sem gefur frá sér stróknn. Stærri hviður frá stjörnunni verða þegar mikið efni fellur inn á við og sjást þær sem bjartir kekkir í Herbig-Haro fyrirbærinu. Þessir kekkir ferðast út á við með tímanum. Þótt strókarnir séu hraðfleygir, eru þeir líka feikistórir: Á þessari mynd er gasstraumurinn í kringum hálft ljósár að lengd. Þess vegna virðist hreyfingin fremur hæg frá okkar sjónarhóli, jafnvel þegar hún er mæld á nokkrum árum (sjá heic1113).

Með því að mæla hraða og staðsetningu kekkjanna í Herbig-Haro fyrirbærum geta stjörnufræðingar spólað aftur á bak í tímann og skoðað hreyfingu þeirra þegar þeir vörpuðust út frá stjörnunni. Það veitir okkur beinar upplýsingar um umhverfið í kringum stjörnuna sem er að fæðast.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni ESA og NASA.

Myndir: NASA, ESA, Hubble Heritage (STScI/AURA)-ESA/Hubble Collaboration og W. Keel (University of Alabama)

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1210

Tengdar myndir

  • Herbig-Haro fyrirbæri, HH 110, myndun stjarnaÞessa mynd tók Hubblessjónauki NASA og ESA af Herbig-Haro 110, goshver sem spýr heitu gasi frá nýfæddri stjörnu. HH 110 er fremur ólík öðrum HH fyrirbærum því svo virðist sem strókuinn sé einn en ekki tveir eins og jafnan er. Stjörnufræðingar telja að þessi strókur sé áframhald af öðru fyrirbæri, HH 270, eftir að hann hefur kastast af þéttum gasskýjum. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)