Perseverance finnur vísbendingar um straumþunga á og leirur

Sævar Helgi Bragason 13. maí 2023 Fréttir

Myndir frá Perseverance benda til þess að djúp og straumþung á hafi runnið í Jezero gíginn fyrir óralöngu

  • 1-pia25829-curved-bands-of-rocks-at-skrinkle-haven-web

Myndir frá Mars-jeppanum Perseverance benda til þess í Jezero-gígnum, lendingarstað jeppans, hafi djúp og straumþung á runnið fyrir óralöngu. Áin var hluti af árfarvegum sem streymdu inn í gíginn.

Ups_FB_cover

Á Mars er aragrúi sönnunargagna fyrir fljótandi vatni í fyrndinni. Einn besti staðurinn til að rannsaka þau er Jezero-gígurinn, þar sem Perseverance jeppinn lenti árið 2021 .

Þessa dagana er Perseverance að rannsaka efsta hlutann á 250 metra þykkri aurkeilu – setlagabunka sem liggur frá mynni uppþornaðs árfarvegs inn í Jezero-gíginn. Sjá má svæðið á myndinni efst.

Aurkeilan er ekki ósvipuð Skeiðarársandi. Þau sem hafa ferðast yfir sandinn taka eflaust eftir stærðarinnar hnullungum hér og þar innan um grófari möl og fínna set. Allt eru það merki um mikla á sem eitt sinn rann um jökulsandinn.

Ein af þeim lykilspurningum sem reikistjörnufræðingar vilja svara er hvort vatnið á Mars hafi flætt um í grunnum lækjum eða miklum ám. Nýjar myndir sem Perseverance tók af svæðinu bendir til þess að hið síðarnefnda eigi við. Á þeim sést grókorna set og ávalir malarhnullungar, sennilega mótaðir af straumþungri og djúpri á en ekki grunnum og rólegum lækjum. 

2-pia25830-mastcam-zs-view-of-pinestand-web

Lítið fell þar sem hvert setlagið á fætur öðru virðist hafa hlaðist upp af djúpri, straumþungri á. Mynd: NASA/JPL-Caltech/ASU/MSSS

Á svæðinu hefur Perseverance einnig komið auga á það sem virðist vera steinrunnin sandrif eða sandeyri, þ.e. nokkurs konar leirur . Á Jörðinni verða leirur til dæmis til í lónum og við árósa við framburð af fíngerðu seti. Á Mars gætu þær hafa orðið til á svipaðan hátt þegar árfarvegurinn færðist til með tímanum. Síðan hefur vindurinn mótað þær. 

Frétt frá JPL