Sjötíu ár liðin frá síðasta almyrkva á sólu á Íslandi

Sævar Helgi Bragason 25. jún. 2024 Fréttir

Þann 30. júní árið 1954 flykktist fólk á Suðurland til að sjá fegurstu sýningu náttúrunnar

Sjötíu ár eru liðin frá því að alskuggi tunglsins nam síðast land á Íslandi. Þann 30. júní árið 1954 lá almyrkvaslóðin yfir syðsta hluta landsins, yfir Vík og Vestmannaeyjar. Almyrkvinn var lengstur við Reynisfjöru, 1 mínútur og 43 sekúndur. Þetta var í fyrsta sinn að almyrkvi sást frá Íslandi síðan 28. júlí 1851.

Almyrkvinn hófst í Bandaríkjunum og lá slóðin yfir Kanada, Grænland, Ísland, Noreg, Svíþjóð, Belarus, Úkraínu, Rússland, Íran, Afganistan, Pakistan og lauk við sólsetur á Indlandi.

SE1954-06-30T

Á Íslandi hófst deildarmyrkvi skömmu fyrir klukkan 11 að morgni og lauk laust eftir klukkan 13. Í Vík hófst almyrkvi kl. 12:05 og lauk kl. 12:07. Í Reykjavík sást 98,8% deildarmyrkvi en 94% á Akureyri. 

Talsverður áhugi var á myrkvanum hér á landi. Vísindamenn innlendir og erlendir gerðu mælingar á myrkavnum frá Landeyjum. Heiðskírt var. Fjöldi fólks safnaðist saman í Landeyjum og austur í Vík í Mýrdal, Dyrhólaey.

Solmyrkvi-1954-ytri-tjarnir-eyjafjordur-inga-kristjansdottir

Fólk á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði virðir fyrir sér deildarmyrkvann. Útidyrahurðin með lituðu gleri notuð. Mynd: Inga Kristjánsdóttir

Trausti Einarsson, prófessor, flutti útvarpserindi í Ríkisútvarpinu sem birt var í Morgunblaðinu 29. júní 1954. Í erindinu lýsir Trausti því sem fyrir augu ber og segir frá því hvernig óhætt sé að berja myrkvann augum. Þá telur hann upp fyrri almyrkva á Íslandi og segir reyndar að almyrkvi hafi sést frá Íslandi 7. júlí 1339 sem var raunar hringmyrkvi. 

Mbl-010754-solmyrkvi

Þá efndi Morgunblaðið til ljósmyndasamkeppni og var 300 krónum heitið í verðlaun fyrir bestu myndina. Í dag er sú upphæð 16375 kr. Verðlaunin hlaut Viggó E. Maack, skipaverkfræðingur fyrir fallega myndaröð sem sýndi demantshringinn og kórónu sólar.

Tvö ár eru þar til almyrkvi sést aftur frá Íslandi. Þann 12. ágúst 2026 liggur almyrkvaslóðin yfir vestasta hluta landsins, yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga.