Skýjamyndun á Neptúnusi tengist sólsveiflunni

Sævar Helgi Bragason 18. ágú. 2023 Fréttir

Stjörnufræðingar vakta veðrið á Neptúnusi og sjá ský myndast í takt við ellefu ára sólblettasveifluna

  • Breytileg skýjahula á Neptúnusi

Stjörnufræðingar hafa fundið tengsl á milli skýjamyndunar á Neptúnusi og ellefu ára sólblettasveiflunni. Uppgötvunin byggir á veðurathugunum sem gerðar hafa verið í þrjá áratugi á útverði reikistjarnanna með sjónaukum í geimnum og á jörðu niðri.

Ups_FB_cover

Þessi tengsl milli skýjafarsins á Neptúnusi og virkni sólar koma talsvert á óvart. Neptúnus er lang fjarlægasta reikistjarnan og fær aðeins 0,1% af sólarljósinu sem Jörðinni fær. Samt virðist myndun skýja í efri hluta lofthjúps Neptúnusar vera knúin áfram af virkni sólar en ekki árstíðunum fjórum sem, á Neptúnusi, standa yfir í um það bil 40 ár, hver um sig.

Þessi misserin er skýjahulan á Neptúnusi í lágmarki ef undan eru skilin nokkur ský sem svífa yfir suðurpól reikistjörnunnar. Skýin sem alla jafna sjást á Neptúnusi tóku að dofna síðla árs 2019.

„Það kom á óvart hversu hratt skýin hurfu á Neptúnusi. Við sáum skýjahuluna nánast hverfa á örfáum mánuðum,“ sagði Imke de Pater, aðalhöfundur greinarinnar um rannsóknina en niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Icarus

Stjörnufræðingarnir greindu myndir sem teknar hafa verið af Neptúnusi með Hubble geimsjónaukanum, Keck sjónaukunum á Hawaii og Lick stjörnustöðinni í Kaliforníu síðustu þrjá áratugi.

Neptunus-keck

Dramatískar breytingar á skýjahulu Neptúnusar séðar með Keck sjónaukunum á Hawaii. Mynd: Imke de Pater, Erandi Chavez, Erin Redwing (UC Berkeley)/W. M. Keck Observatory

Myndirnar leiða í ljós forvitnilegt mynstur milli árstíðabreytinga á skýjahulu Neptúnusar og sólblettasveiflunnar eða sólsveiflunnar. Sólsveiflan er 11 ára virknitímabil sólar þar sem segulsviðið flækist og snýst að lokum við. Sveiflan birtist í auknum fjölda sólbletta og fleiri sólblossum og kórónuskvettum sem, ef rafhlöðnu agnirnar beinast að Jörðinni, tendra kröftug norðurljós.

Þegar sólin er virkari stafar meiri útfjólublá geislun frá henni út í sólkerfið. Stjörnufræðingarnir komust að því að tveimur árum eftir að sólsveiflunnar var í hámarki jókst skýjahulan á Neptúnusi.

„Athuganirnar eru sterkustu sannanirnar til þessa fyrir því að skýjahulan á Neptúnusi haldist í hendur við sólsveifluna,“ sagði de Pater. „Niðurstöðurnar styðja þá kenningu að þegar útfjólublá geislun frá sólinni er nægilega mikil, gæti hún hrundið af stað ljósefnahvörfum í andrúmslofti Neptúnusar svo ský myndist.“

Athuganirnar ná yfir næstum þrjár sólsveiflum. Yfir þetta þriggja áratuga tímabil sást hvernig birtan frá Neptúnusi breyttist í takti við stækkandi og minnkandi skýjahulu. Birtan frá reikistjörnunni jókst árið 2002 en minnkaði árið 2007. Neptúnus varð aftur bjartari árið 2015 en dofnaði á ný árið 2020. Þá hvarf skýjahulan að mestu og hefur Neptúnus raunar aldrei verið daufari frá upphafi mælinga.

Neptunus-sky-solsveiflan

Myndaröð Hubble geimsjónaukans af Neptúnusi sem sýna hvernig skýjahulan dvínar og vex til skiptis og, að því er virðist, í takti við sólsveifluna. Mynd: NASA, ESA, LASP, Erandi Chavez (UC Berkeley), Imke de Pater (UC Berkeley)

Skýjahulan er stærst tveimur árum eftir hámark sólsveiflunnar. Ástæðan seinkunarinnar er sú, að ljósefnaferlin sem leiða til skýjamyndunar eiga sér stað í efri hluta andrúmslofts Neptúnsar. Það tekur skýin einfaldlega tíma að þéttast.

Enn er mörgum spurningum ósvarað svo teymið heldur áfram að gá til veðurs á Neptúnusi. „Við höfum séð fleiri ský á nýjustu myndunum frá Keck sem teknar voru á sama tíma og James Webb geimsjónaukinn beindi sjónum sínum að Neptúnusi. Skýin sem við sáum þá voru á norðlægum breiddargráðum og í mikilli hæð í andrúmsloftinu, eins og búast mátti við út frá aukningu á útfjólublárri útgeislun sólar síðustu tvö ár,“ sagði de Pater.

Frétt frá NASA og Keck stjörnustöðinni