Solar Orbiter finnur vísbendingar um uppruna sólvindsins

Sævar Helgi Bragason 26. ágú. 2023 Fréttir

Myndir frá Solar Orbiter gervitungli ESA leiða í ljós litla gasstróka sem virðast hjálpa til við að mynda sólvindinn

  • Píkóblossastrókar á myndum Solar Orbiter gervitunglsins

Solar Orbiter gervitungl ESA hefur uppgötvað fjölda lítilla stróka úr ofurheitu rafgasi sem þrýsta straumi rafhlaðinna agna frá sólinni út í geiminn á mörg hundruð kílómetra hraða á klukkustund. Hver strókur endist í 20 til 100 sekúndur og gætu þeir verið uppspretta sólvindsins.

Ups_FB_cover

Sólvindurinn er straumur rafhlaðinna agna, aðallega rafeinda, sem sólin sendir frá sér í sífellu. Þegar sólvindurinn skellur á segulsviði og andrúmslofti Jarðar verða til norðurljós. Stórar sólvindhviður geta líka skemmt gervitungl, valdið rafmagnsleysi á Jörðinni og stefnt lífi geimfara í hættu. Að skilja uppruna sólvindsins er því afar mikilvægt.

Stjörnufræðingum hefur þó reynst erfitt að útskýra uppruna sólvindsins, þ.e.a.s. hvernig hann verður til. Nú hefur Solar Orbiter gervitunglið þó fært okkur skrefi nær því.

Í mars árið 2022 tók Solar Orbiter ljósmyndir af ótal daufum og skammvinnum efnisstrókum við suðurpól sólarinnar. Gervitunglið var þá í aðeins 45 milljón km fjarlægð frá sólu.

Strókarnir eru kallaðir „píkóblossastrókar“ (e. picoflare jets) vegna þess að þeir eru billjón sinnum orkuminni en öflgustu blossar sem verða á sólinni. Þeir eru jafnframt þúsund sinnum orkuminni en nanóblossar sem áður voru veikustu þekktu sólblossarnir. Píkó vísar til 10-12

Rafgasið í strókunum er um það bil milljón gráðu heitt. Myndir Solar Orbiter sýna að þeir eru nokkur hundruð kílómetra langir og birtast og hverfa á aðeins 20 til 100 sekúndum.

Strókarnir þrýsta efni út frá sólinni og virðast þannig næra eða knýja sólvindinn áfram. Líklega verða strókarnir sjálfir til við truflanir í segulsviðinu í kórónunni sem er milljón gráðu heitt „andrúmslofti“ sólar.

Við höfum lengi vitað að umtalsverður hluti sólvindsins streymir út um geilar í kórónu sólar. Kórónugeilarnar eru svæði þar sem segulsviðið er opið en ekki lokað og virka dökkar á myndum. Segulsviðið teygir sig eins og lausir þræðir út í sólkerfið. 

Ekki var vitað hvað ýtir sólvindinum út um geilarnar en þegar Solar Orbiter horfði ofan í kórónugeilina á suðurpól sólar komu strókarnir í ljós. 

Á komandi árum vonast stjörnufræðingar til að fá enn betri sýn á strókana. Ástæðan er tvíþætt: Í fyrsta lagi er mun gervitunglið breyta sporbraut sinn um sólina í átt að pólsvæðum hennar og í öðru lagi er virkni sólar að vaxa. Eftir að hámarki sólvirkninnar er náð í kringum árið 2025 munu æ fleiri kórónugeilar opnast víðar á sólinni. Solar Orbiter fylgist með því af fremsta bekk.

Solar_Orbiter_pillars

Teikning af Solar Orbiter. Mynd: ESA