Spælar birtast á ný í hringum Satúrnusar

Sævar Helgi Bragason 18. feb. 2023 Fréttir

Ekki hefur tekist að útskýra til fulls dularfullar, geislóttar myndanir sjást í hringum Satúrnusar við jafndægur.

  • Hubble-saturnus-spaelar

Nýjar myndir frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýna, að nýtt „spælatímabil“ er hafið á Satúrnusi. Spælarnir eru dularfullar, geislóttar myndanir í eða yfir hringunum sem birtast í kringum jafndægur á Satúrnusi.

Spælarnir (e. spokes) sáust fyrst þegar Voyager gervitunglin flugu framhjá Satúrnusi árin 1980 og 1981. Þrátt fyrir að hafa verið viðfangsefni rannsókna um áratugaskeið hefur hvorki tekist að útskýra hvernig spælarnir verða nákvæmlega til né hvers vegna þeir eru árstíðabundnir.

Talið er líklegast að myndun spælanna tengist breytilegu segulsviði Satúrnusar. Þegar segulsviðið verkar við sólvindinn verður til rafhlaðið umhverfi – líkt og gerist í námunda við Jörðina þegar sólvindurinn víxlverkar við segulsviðið okkar og norðurljós kvikna.

Talið er að litlar rykagnir í íshringum Satúrnusar verði rafhlaðnar þegar þetta gerist. Þá svífi þær tímabundið upp úr hringunum yfir stærri og þyngri agnir, eins og í nokkurs konar stöðurafmagni.

Komið hefur í ljós að spælarnir í hringunum hverfa í kringum sumar- og vetrarsólstöður á Satúrnusi en verða æ meira áberandi í kringum jafndægur.

STScI-01GRS433W3RRS3GD92NF4A30CH

Jafndægur á Satúrnusi hefjast þegar hringarnir eru á rönd miðað við sólina. Seinast urðu jafndægur árið 2009 og var Cassini geimfarið þá á sporbraut um Satúrnus og gat gert athuganir úr návigi.

Satúrnus hallar og hefur því fjórar árstíðir líkt og Jörðin. Hver árstíð á Satúrnusi er hins vegar sjö jarðarár því reikistjarnan er um þrjátíu ár að ganga um sólina.

Nú nálgast haustjafndægur á norðurhveli Satúrnusar (6. maí 2025) svo búast má við því að spælarnir verði sífellt meira áberandi. Rannsóknarferð Cassini geimfarsins lauk árið 2017 svo það fellur í hlut Hubble geimsjónaukans að vakta reikistjörnuna og fylgjast með breytingum á henni.

Upprunaleg frétt