Uppgötvuðu risaeldfjall á Mars

Sævar Helgi Bragason 14. mar. 2024 Fréttir

Gervigígar, hraunbreiður og jöklar í mjög veðraðri og rofinni risadyngju við miðbaug Mars

  • Noctis-eldfjallid-mynd1

Reikistjörnufræðingar hafa uppgötvað mjög veðrað og rofið risaeldfjall við miðbaug Mars. Fjallið er á mörkum Noctis Labyrinthus sprungusvæisins og Valles Marineris gljúfurkerfisins við miðbaug reikistjörnunnar. Þá fundust einnig gervigígar í hlíðum þess og merki um jökulís sem virðist hafa verkað við brennheita gjósku.

Hamfarir - Vísindalæsi

Eldfjallið uppgötvaðist þegar reikistjörnufræðingar fundu leifar af jökli við rætur þess á síðasta ári. Þótt gervitungl hafi margsinnis ljósmyndað þetta tilkomumikla svæði kom ekki í ljós fyrr en nú að um risavaxið eldfjall var að ræða og hefur það hlotið tímabundna heitið Noctis eldfjallið.

Noctis eldfjallið er um 450 km breitt og um það bil tvöfalt stærra en Ísland að flatarmáli. Það rís um 9 km upp úr meðalhæð yfirborðsins. Stærð þess og flókin umbreytingasaga bendir til þess að það hafi verið virkt í langan tíma.

Við suðausturhluta þess virðast fremur nýleg gjóskulög liggja ofan á jökulís. Hversu nýleg er erfitt að segja til um en samspil elds og íss gerir svæðið sérstaklega áhugavert.

Noctis-eldfjallid-mynd2

Á sama stað komu vísindamenn auga á hraunbreiður og fjölda lítilla gíga sem virðast gervigígar . Gervigígar eru þekktir í íslenskri náttúru og verða til þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, votlendi eða grunnt vatn sem hvellsýður og springur. 

Á sama svæði fann sami vísindahópur líka leifar af jökulís undir ljósleitu gjóskulagi sem litrófsmælingar benda til að innihaldi steindina jarósít. Jarósít er járnrík, vötnuð súlfatsteind, hverasalt, sem finnst til dæmis á jarðhitasvæðum. Svo virðist sem þar hafi heit gjóskan numið staðar á jöklinum, brætt hann að hluta og steindin orðið til við það.

Myndir af rofnum gervigígum sýna líka merki um vatnaðar súlfatsteindir sem gæti bent til þess að undir gervigígunum sé meiri jökulís.

Noctis-eldfjallid-mynd3

Grafinn jökulís, súlfatsölt, gjóskulög (pyroclastic deposits) og gervigígar (rootless cones) á suðausturhluta nýfundins risaeldfjalls við miðbaug Mars.

Noctis eldfjallið er ákaflega mikið rofið, svo mjög að það minnir nánast ekkert á fjall. Það ber þannig merki um langa sögu mikilla umbreytinga. 

Fjallið er líklegast dyngja úr mörgum lögum af gjósku, hraunum og jökulís sem hafa staflast upp á löngum tíma.

Fjallið virðist hafa sprungið við landris á Tharsis bungunni, þegar kvika þrýsti sér upp í öflugum möttulstrókum þar undir. Við þær hamfarir hafa miklir sigdalir orðið til. Hraun hefur náð að brjóta sér leið í gegnum veikleika í berginu og myndað bæði kvikuganga en líka komist upp til yfirborðsins. Þá virðist jarðhiti hafa aukist samhliða því, brætt grafinn jökulís og á endanum leitt til þess að stórir hlutar af eldfjallinu hafa hrunið. 

Jökulskeið hafa haldið rofinu áfram og sorfið fjölda gljúfra. Jökulleifarnar sem fundust í fyrra gætu verið leifar af síðasta jökulskeiði sem mótaði Noctis eldfjallið. 

Margt er enn á huldu um riseldfjallið nýfundna. Þótt ljóst sé að það hafi verið virkt í langan tíma og byrjað að byggjast upp snemma í sögu Mars er óvíst nákvæmlega hvenær. Ekki er heldur vitað hvort eldfjallið sé enn í dag virkt eða kulnað.

Svæðið umhverfis fjallið er nú orðið að ansi álitlegu viðfangsefni könnunarleiðangra framtíðarinnar. Það virðist henta sérstaklega vel til að rannsaka jarðsögu Mars, sögu loftslagsbreytinga á reikistjörnunni og leita að ummerkjum um líf.

Greinin um uppgötvunina

Frétt frá Seti Institute