Úranus í nýju ljósi á mynd Webb

Sævar Helgi Bragason 18. des. 2023 Fréttir

Stórfengleg mynd Webb af Úranusi sýnir veðrabrigði á síbreytilegum hnetti

  • Weic2332a-uranus

Stjörnufræðingar hafa birt nýja mynd frá Webb geimsjónaukanum af ísrisanum Úranusi. Á henni sést síbreytilegur hnöttur sem skartar hringum, tunglum, stormum og öðrum veðrabrigðum í andrúmslofti þessarar mögnuðu reikistjörnu sem liggur á hlið. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Í sýnilegur ljósi er Úranus fremur sviplaus reikistjarna. Í innrauðum bylgjulengdum er reikistjarnan aftur á móti miklu svipsterkari. 

Fyrr á árinu var önnur glæsileg innrauð mynd frá Webb af Úranusi birt. Á nýju myndinni hefur fleiri bylgjulengdum verið bætt við svo nokkur smáatriði eru greinilegri, svo sem í árstíðabundinni norðurpólhettu reikistjörnunnar. Má þar nefna bjarta, hvíta innri hettu og dökka rák við neðri enda hennar. Þá sjást nokkrir bjartir stormar líka nærri suðurjaðri pólhettunnar.

Pólhettan verður meira áberandi þegar pólinn byrjar að snúa í átt að sólu. Þá líður að sólstöðum og póllinn fær þá meira sólarljós. Næstu sólstöður verða 2028 og fylgjast stjörnufræðingar grannt með öllum mögulegum breytingum á hettunni til að læra meira um veðrið og veðurfarið á Úranusi. 

Webb nam líka daufari innri og ytri hringa reikistjörnunnar, þar á meðal Zeta-hringinn sem er mjög daufur og þunnur og næstur reikistjörnunni. Upplýsingar um hann eru afar gagnlegar fyrir skipulagningu á komandi leiðangri til Úranusar.

Sjónaukinn sá líka mörg af fylgitunglunum 27, þar á meðal lítil tungl innan hringanna. Í bakgrunni sjást stjörnur í Vetrarbrautinni okkar og aragrúi annarra fjarlægra vetrarbrauta. Sólkerfið okkar í alheiminum - stórkostlegt!

Weic2332c-uranus

Frétt frá ESA