Webb fangar fegurð Hringþokunnar í Hörpunni

Sævar Helgi Bragason 21. ágú. 2023 Fréttir

Ein frægasta hringþoka himins í einstökum smáatriðum á nýjum myndum frá Webb

  • Hringþokan M57 í Hörpunni á mynd Webb geimsjónaukans

Webb geimsjónaukinn hefur fangað fegurð Messier 57, Hringþokunnar frægu í Hörpunni, í einstökum smáatriðum. Hringþokan er leifar stjörnur sem þeytti ytri efnislögum sínum út í geiminn þegar hún dó.

Ups_FB_cover

Hringþokan Messier 57 í stjörnumerkinu Hörpunni er í um 2500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Hún er ein þekktasta geimþoka sinnar tegundar á himninum og eru raunar allar aðrar hringþokur nefndar eftir henni. Á ensku er þær kallaðar „planetary nebula“ eftir M57.

James Webb geimsjónaukinn hefur nú loksins fangað fegurð þessarar glæsilegu geimþoku á mynd. Önnur myndin, tekin af nær-innrauðu ljósi, sýnir vel fína þræði í innri hlutum þokunar en hin myndin, tekin af mið-innrauðu ljósi, sýnir vel smáatriði í ytri hlutum þokunnar.

Hringþokan M57 í Hörpunni á mynd Webb geimsjónaukans

MIð-innrauð ljósmynd af Hringþokunni í Hörpunni. Mynd: ESA/Webb, NASA, CSA, M. Barlow, N. Cox, R. Wesson

Þokan er í laginu eins og bjagaður kleinuhringur. Við horfum ofan á annan pól þokunnar því hún er í raun og veru eins og stundaglas í laginu. Þótt miðjan sýnist tómleg er þar gríðarheitt gas á fleygiferð í burtu frá hvíta dvergnum sem er að verða til í miðjunni. Í þokunni eru meira en 20 þúsund vetnisgashnoðrar. Meginhringurinn inniheldur kolefnasambönd eins og fjölhringa, arómatísk vetniskolefni (PAH). 

Hringþokan M57 í Hörpunni á mynd Webb geimsjónaukans

Nær-innrauð ljósmynd af Hringþokunni í Hörpunni. Mynd: ESA/Webb, NASA, CSA, M. Barlow, N. Cox, R. Wesson

Allt er þetta efni sem stjarnan eitt sinn skein skært og líktist sólinni okkar varpaði frá sér, ýmist rétt áður en hún dó eða í andarslitrunum. Hringþokan gefur okkur nasasjón af framtíðinni því líklegt er að sólin okkar gangi í gegnum samskonar ævilok eftir 5-6 milljarða ára.

Frétt frá ESA