Webb finnur ský úr kvarsi á heitum gasrisa
Sævar Helgi Bragason
17. okt. 2023
Fréttir
Veðurspá fyrir WASP-17b gerir ráð fyrir bálhvössum 1500 gráðu heitum kvarshríðarbyl
Stjörnufræðingar hafa fundið merki um örsmáa kvarskristalla í háskýjum WASP-17b, heitum gasrisa sem líkist Júpíter og er í um 1300 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þetta er í fyrsta sinn sem kísiltdíoxíðagnir (SiO2) finnast í andrúmslofti fjarreikistjörnu.
WASP-17b er ein stærsta og þrútnasta eða útblásnasta fjarreikistjarna sem vitað er um. Hún er sjö sinnum stærri að rúmmáli en Júpíter en helmingur af massa hans. Að auki þeysist hún umhverfis móðurstjörnuna sína á aðeins tæplega 4 sólarhringum.
WASP-17b hentar því mjög vel til gegnskins-litrófsmælinga (e. transmission spectroscopy). Sú aðferð snýst um að mæla sólarljósið sem berst frá móðurstjörnunni í gegnum andrúmsloft reikistjörnunnar. Efnin í andrúmsloftinu festast þá eins og fingraför í litrófii stjörnunnar.
Árið 2013 fann Hubble geimsjónaukinn merki um einhvers konar svifagnir í andrúmslofti WASP-17b. Það þurfti þó Webb til að finna út hvers eðlis þær eru og komu niðurstöðurnar talsvert á óvart.
Í ljós kom að skýin innihalda agnarsmáar kvarsagnir, aðeins 10 nanómetrar að stærð eða sem nemur einum milljónasta úr sentímetra. Kvarsagnirnar er svo litlar að 10 þúsund slíkar kæmust fyrir hlið við hlið þvert yfir mannshár.
Kvars er sílikat eða steinefni úr kísli (Si) og súrefni (O). Á Jörðinni er kvars meginuppistaðan í ljósum sandi. Úr því eru til dæmis framleiddar kísilflögur í tölvur. Svo kvars er alls staðar í kringum okkur.
Á WASP-17b er andrúmsloftið svo heitt, um 1500 gráður á Celsíus, og þrýstingur svo lágur að kvarsagnirnar verða til í loftinu sjálfu, ólíkt steinefnunum sem finnast í skýjum á Jörðinni sem fjúka af yfirborðinu. WASP-17b hefur ekkert fast yfirborð heldur er aðallega úr vetnis- og helíumgasi.
Mælingar Webb voru gerðar fyrir DREAMS-rannsóknarverkefnið sem snýst um að rannsaka andrúmsloft þriggja lykilgerða fjarreikistjarna: Heitum gasrisa, hlýjum Neptúnusi og tempraðri bergreikistjörnu.
Frétt frá NASA
Webb finnur ský úr kvarsi á heitum gasrisa
Sævar Helgi Bragason 17. okt. 2023 Fréttir
Veðurspá fyrir WASP-17b gerir ráð fyrir bálhvössum 1500 gráðu heitum kvarshríðarbyl
Stjörnufræðingar hafa fundið merki um örsmáa kvarskristalla í háskýjum WASP-17b, heitum gasrisa sem líkist Júpíter og er í um 1300 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þetta er í fyrsta sinn sem kísiltdíoxíðagnir (SiO2) finnast í andrúmslofti fjarreikistjörnu.
WASP-17b er ein stærsta og þrútnasta eða útblásnasta fjarreikistjarna sem vitað er um. Hún er sjö sinnum stærri að rúmmáli en Júpíter en helmingur af massa hans. Að auki þeysist hún umhverfis móðurstjörnuna sína á aðeins tæplega 4 sólarhringum.
WASP-17b hentar því mjög vel til gegnskins-litrófsmælinga (e. transmission spectroscopy). Sú aðferð snýst um að mæla sólarljósið sem berst frá móðurstjörnunni í gegnum andrúmsloft reikistjörnunnar. Efnin í andrúmsloftinu festast þá eins og fingraför í litrófii stjörnunnar.
Árið 2013 fann Hubble geimsjónaukinn merki um einhvers konar svifagnir í andrúmslofti WASP-17b. Það þurfti þó Webb til að finna út hvers eðlis þær eru og komu niðurstöðurnar talsvert á óvart.
Í ljós kom að skýin innihalda agnarsmáar kvarsagnir, aðeins 10 nanómetrar að stærð eða sem nemur einum milljónasta úr sentímetra. Kvarsagnirnar er svo litlar að 10 þúsund slíkar kæmust fyrir hlið við hlið þvert yfir mannshár.
Kvars er sílikat eða steinefni úr kísli (Si) og súrefni (O). Á Jörðinni er kvars meginuppistaðan í ljósum sandi. Úr því eru til dæmis framleiddar kísilflögur í tölvur. Svo kvars er alls staðar í kringum okkur.
Á WASP-17b er andrúmsloftið svo heitt, um 1500 gráður á Celsíus, og þrýstingur svo lágur að kvarsagnirnar verða til í loftinu sjálfu, ólíkt steinefnunum sem finnast í skýjum á Jörðinni sem fjúka af yfirborðinu. WASP-17b hefur ekkert fast yfirborð heldur er aðallega úr vetnis- og helíumgasi.
Mælingar Webb voru gerðar fyrir DREAMS-rannsóknarverkefnið sem snýst um að rannsaka andrúmsloft þriggja lykilgerða fjarreikistjarna: Heitum gasrisa, hlýjum Neptúnusi og tempraðri bergreikistjörnu.
Frétt frá NASA