Webb geimsjónaukinn skoðar Úranus
Sævar Helgi Bragason
12. apr. 2023
Fréttir
Á nýrri mynd Webb sjónaukans af Úranusi sjást hringarnir, ský og tungl
Glæsileg ný mynd Webb geimsjónaukans af Úranusi sýnir hringakerfið, skýjamyndanir í andrúmsloftinu og nokkur af tunglum ísrisans. Myndin sýnir vel hversu öflugur Webb er til að rannsaka Úranus.
Úranus er sjöunda reikistjarnan frá sólu. Hún er „ísrisi“ sem þýðir að hún er að megninu til úr heitum, þéttum ískenndum efnum – vatni, metani og ammóníaki – yfir litlum bergkjarna.
Úranus sker sig úr meðal reikistjarnanna því hún liggur á hliðinni og rúllar um sólina á 84 árum. Pólarnir snúa því að og frá sólu til skiptis. Nú um stundir er vor á norðurpólnum og gengur sumarið í gar þar árið 2028.
Voyager 2 gervitunglið er eina geimfarið sem heimsótt hefur ísrisann hingað til. Þegar geimfarið flaug framhjá árið 1986 var sumar á suðurpólnum og snýr hann því nú frá sólu.
Á myndum Voyager 2 var Úranus fremur sviplaus reikistjarna, að minnsta kosti í sýnilegu ljósi. Í innrauðu ljósi, eins og Webb nemur, sést þó talsvert betur hversu dýnamískt andrúmsloftið raunverulega er.
Úranus og nokkur tungla hans á innrauðri ljósmynd Webb geimsjónaukans. Í bakgrunni sjást fjarlægar vetrarbrautir. Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, J. DePasquale (STScI)
Hægra megin á plánetunni er ljósleit norðurpólhettan. Hún er einstök því hún birtist aðeins þegar sólin nær loksins að bregða birtu á pólinn og hverfur á haustin. Við jaðar pólhettunnar og brún hennar hægra megin sjást björt ský.
Úranus hefur þrettán þekkta hringi og sjást ellefu þeirra á mynd Webbs. Sumir eru svo bjartir að þeir virka þétt saman og virðast blandast í einn heilan hring. Níu meginhringarnir eru úr ís en tveir eru daufari rykhringar. Rykhringarnir fundust ekki fyrr en Voyager 2 flaug framhjá á sínum tíma.
Úranus hefur líka 27 tungl en flest eru of lítil og dauf til að birtast á myndinni. Á henni sjást þó sex skærustu tunglin.
Myndin var tekin á tólf mínútna lýsingartíma með tveimur litsíum. Gögnin eru því aðeins toppurinn á ísjakanum og sýna vel hversu megnugur Webb er að rannsaka Úranus. Frekari mælingar með Webb á Úranusi standa nú þegar yfir.
Webb geimsjónaukinn skoðar Úranus
Sævar Helgi Bragason 12. apr. 2023 Fréttir
Á nýrri mynd Webb sjónaukans af Úranusi sjást hringarnir, ský og tungl
Glæsileg ný mynd Webb geimsjónaukans af Úranusi sýnir hringakerfið, skýjamyndanir í andrúmsloftinu og nokkur af tunglum ísrisans. Myndin sýnir vel hversu öflugur Webb er til að rannsaka Úranus.
Úranus er sjöunda reikistjarnan frá sólu. Hún er „ísrisi“ sem þýðir að hún er að megninu til úr heitum, þéttum ískenndum efnum – vatni, metani og ammóníaki – yfir litlum bergkjarna.
Úranus sker sig úr meðal reikistjarnanna því hún liggur á hliðinni og rúllar um sólina á 84 árum. Pólarnir snúa því að og frá sólu til skiptis. Nú um stundir er vor á norðurpólnum og gengur sumarið í gar þar árið 2028.
Voyager 2 gervitunglið er eina geimfarið sem heimsótt hefur ísrisann hingað til. Þegar geimfarið flaug framhjá árið 1986 var sumar á suðurpólnum og snýr hann því nú frá sólu.
Á myndum Voyager 2 var Úranus fremur sviplaus reikistjarna, að minnsta kosti í sýnilegu ljósi. Í innrauðu ljósi, eins og Webb nemur, sést þó talsvert betur hversu dýnamískt andrúmsloftið raunverulega er.
Úranus og nokkur tungla hans á innrauðri ljósmynd Webb geimsjónaukans. Í bakgrunni sjást fjarlægar vetrarbrautir. Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, J. DePasquale (STScI)
Hægra megin á plánetunni er ljósleit norðurpólhettan. Hún er einstök því hún birtist aðeins þegar sólin nær loksins að bregða birtu á pólinn og hverfur á haustin. Við jaðar pólhettunnar og brún hennar hægra megin sjást björt ský.
Úranus hefur þrettán þekkta hringi og sjást ellefu þeirra á mynd Webbs. Sumir eru svo bjartir að þeir virka þétt saman og virðast blandast í einn heilan hring. Níu meginhringarnir eru úr ís en tveir eru daufari rykhringar. Rykhringarnir fundust ekki fyrr en Voyager 2 flaug framhjá á sínum tíma.
Úranus hefur líka 27 tungl en flest eru of lítil og dauf til að birtast á myndinni. Á henni sjást þó sex skærustu tunglin.
Myndin var tekin á tólf mínútna lýsingartíma með tveimur litsíum. Gögnin eru því aðeins toppurinn á ísjakanum og sýna vel hversu megnugur Webb er að rannsaka Úranus. Frekari mælingar með Webb á Úranusi standa nú þegar yfir.