Webb staðfestir vatn á halastjörnu í smástirnabeltinu en afhjúpar um leið nýja ráðgátu

Sævar Helgi Bragason 18. maí 2023 Fréttir

Mælingar Webb halastjörnu hjálpar okkur að draga upp mynd af sögu og dreifingu vatns í sólkerfinu

  • Weic2313a

Stjörnufræðingar sem notuðu Webb geimsjónaukann til að rannsaka uppruna vatns í sólkerfinu hafa í fyrsta sinn staðfest vatnsgufu á halastjörnunni 238P/Read í smástirnabeltinu. Um leið afhjúpaði sjónaukinn aðra ráðgátu því ólíkt öllum öðrum þekktum halastjörnum fundust engin merki um koldíoxíð í gashjúpi hennar.

Ups_FB_cover

Þótt Jörðin sé vatnaveröld er uppruni vatns á Jörðinni enn nokkur ráðgáta. Að skilja sögu og dreifingu vatns í sólkerfinu okkar hjálpar okkur ekki aðeins draga upp mynd af sögu sólkerfisins, heldur líka að skilja önnur sólkerfi og hvort í þeim gætu leynst lífvænlegar reikistjörnur.

Halastjarnan 238P/Read er óvenjuleg því hana er að finna í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters . Á þeim slóðum eru aðallega smástirni úr grjóti og málmum. Aðeins þrjár halastjörnur hafa fundist í beltinu og var halastjarnan Read sú fyrsta sinnar tegundar.

Weic2313c

Mynd Webb geimsjónaukans af halastjörnunni 238P/Read sem er í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Blái bjarminn er hjúpur halastjörnunnar og sjá má örla fyrir halanum. Mynd: NASA, ESA, CSA, M. Kelley (University of Maryland), H. Hsieh (Planetary Science Institute), A. Pagan (STScI)

Halastjörnur eru einkum taldar eiga rætur að rekja til Kuipersbeltisins og Oortsskýsins, handan Neptúnusar . Í kuldanum þar varðveitast mismunandi tegundir íss betur. Þegar nær sólu er komið hitnar svo að ísarnir gufar upp svo hjúpur myndast um kjarnann og hali þegar ísinn fýkur burt. 

Stjörnufræðingar hafa lengi velt fyrir sér hvort vatnsís gæti varðveist í hlýjunni í smástirnabeltinu en skort sannanir fyrir því – þangað til Webb kom til sögunnar.

„Í fortíðinni höfum við séð hnetti í smástirnabeltinu sem líkjast halastjörnum en aðeins með framúrskarandi litrófsgögnum Webb getum við með sanni sagt já, þarna er alveg klárlega um vatnsís að ræða,“ sagði stjörnufræðingurinn Michael Kelley við Marylandháskóla í Bandaríkjunum og umsjónarmaður rannsóknarinnar.

Mælingar Webb geimsjónaukans á 238P/Read eru mikilvægur þáttur í að rannsaka uppruna, dreifingu og sögu vatns í sólkerfinu okkar. Litrófsmælingar Webb staðfesta að vatn úr fornsólkerfinu getur varðveist sem ís á þessu svæði.

En um leið varð til önnur ráðgáta. Ólíkt öðrum halastjörnum sýnir halastjarnan 238P/Read engin merki um koldíoxíð. Koldíoxíð telur venjulega allt að 10% af reikulum efnum í halastjörnum og gufar auðveldlega upp í sólarhitanum, hraðar en vatnið.

Weic2313d

Litrófsmælingar Webbs á halastjörnuni 238P/Read annars vegar og hins vegar Deep Impact geimfarsins á halastjörnunni 103P/Hartley 2. Á báðum sést toppur þar sem vatn er til staðar en aðeins Hartley 2 sýnir merki um koldíoxíð í hjúpi sínum. Mynd: NASA, ESA, CSA og J. Olmsted (STScI)

Tvær skýringar eru taldar líklegast á koldíoxíðsskortinum. Annars vegar að halastjarnan Read hafi glatað sínu upprunalega koldíoxíði hægt og rólega í hitanum og hins vegar að Read hafi orðið til á sérlega hlýjum stað í sólkerfinu þar sem koldíoxíð var hreinlega ekki til staðar.

Hver sú sem skýringin er, þá safnast sífellt fleiri púsl í mynd okkar af uppruna og sögu sólkerfisins. Næsta skref er að rannsaka fleiri halastjörnur í smástirnabeltinu og kanna hvort þær séu ólíkar Read eða af sama meiði.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í Nature .

Frétt á vef ESA