Enkeladus dreifir vatni um Satúrnusarkerfið

Sævar Helgi Bragason 30. maí 2023 Fréttir

Webb kortleggur stóran vatnsstrók frá Enkeladusi, ístungli Satúrnusar

  • Enkeladus dreifir vatni um Satúrnusarkerfið

Stjörnufræðingar sem notuðu James Webb geimsjónaukann hafa uppgötvað 9600 km langan vatnsstrók sem skagar út úr Satúrnusartunglinu Enkeladusi. Í leiðinni kortlögðu þau dreifingu vatnsins sem sprautast að hluta til í snúðlu en mestmegnis yfir allt Satúrnusarkerfið og hringana.

Ups_FB_cover

Enkeladus er um 505 km breitt ístungl sem gengur um Satúrnus. Þegar Cassini geimfar NASA dvaldi á braut reikistjörnuna árin 2004 til 2017 og flaug framhjá Enkeladusi kom í ljós að þetta litla tungl var einn forvitnilegasti staður sólkerfisins.

Undir ísskorpu Enkeladusar leyndist haf og í gegnum sprungur í ísnum, sem kallast tígrisrákirnar, spýttist ekki aðeins út vatn heldur líka lífræn efnasambönd. Í hafi Enkeladusar gæti þrifist líf.

Cassini tók ekki aðeins myndir af strókum Enkeladusar, heldur flaug líka í gegnum þá. Og þótt geimfarið hafi veitt okkur einstaka innsýn í leyndardóma þessa litla tungls, þá hjálpar Webb sjónaukinn okkur að setja tunglið í nýtt samhengi.

Mælingar Webb sýna hvernig vatnsstrókar Enkeladusar búa til snúðlu eða kleinuhring úr vatni sem myndar E-hring Satúrnusar. Frá tunglinu gjósa um 300 lítrar af vatni á sekúndu – flæði sem gæti fyllt Laugardalslaugina á tveimur til þremur klukkustundum. Gögnin frá Webb sýna líka að ríflega 30 prósent vatnsins helst innan snúðlunnar en 70 prósent dreifast um Satúrnusarkerfið.

Weic2314b

Litrófsmælingar Webb-geimsjónaukans á stærðarinnar vatnsstróki sem skagar út úr ístunglinu Enkeladusi.
Mynd NASA, ESA, CSA, STScI, L. Hustak (STScI), G. Villanueva (NASA's Goddard Space Flight Center)

Á næstu árum verður Webb sjónaukanum beint ítrekað að Enkeladusi og öðrum vatnstunglum í sólkerfinnu. Mælingarnar munu hjálpa til við ítarlegri fjarkönnun á hnöttunum í framtíðinni. Niðurstöðurnar verða birtar í Nature Astronomy innan tíðar.

Mælingarnar sem hér um ræðir voru gerðar fyrir verkni sem gengur út að sýna fram á getu Webb til að stunda rannsóknir á tilteknum sviðum stjarnvísinda og leggja grunninn að frekari rannsóknum.