Leoníta loftsteinadrífan nær hámarki 17.-18. nóvember
Hægt að sjá í kringum tuttugu stjörnuhröp á klukkustund
Sævar Helgi Bragason
14. nóv. 2015
Fréttir
Hin árlega Leoníta loftsteinadrífa
nær hámarki 17. og 18. nóvember. Aðstæður til að fylgjast með drífunni
eru heppilegar því birtan af tunglinu truflar ekkert að þessu sinni.
Stjörnufræðingar sem rannsaka loftsteinadrífur gera flestir ráð fyrir að hægt verði að sjá í kringum 20 stjörnuhröp á klukkustund, eða eitt stjörnuhrap á þriggja mínútna fresti að meðaltali.
Leoníta má rekja til halastjörnunnar 55P/Tempel-Tuttle sem er um 4 km á breidd og gengur um sólina á um 33 árum. Leonítar hafa hraðfleygustu agnir allra loftsteinadrífa. Leoníta-agnirnar eru í kringum 10mm að stærð og vega um hálft gramm að meðaltali en rekast á lofthjúp Jarðar á um 72 km hraða á sekúndu (259.000 km/klst). Fyrir vikið eru Leonítar þekktir fyrir fleiri vígahnetti (mjög skær stjörnuhröp) en flestar aðrar loftsteinadrífur. Sum stjörnuhröpin skilja eftir sig áberandi rykhala sem geta varað í nokkrar sekúndur. Alla jafna eru stjörnuhröpin hvít eða blá-hvít á litinn.
Hvert á ég að horfa?
Horfðu til himins í átt að stjörnumerkinu Ljóninu og himinninn þar í kring. Stjörnuhröpin virðast stefna frá Ljónsmerkinu en geislapunkturinn er við stjörnuna Algiebu sem er í sigðinni fremst í merkinu.
|
Stjörnumerkið Ljónið að morgni 17. nóvember 2015. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium
|
Heppilegasti tíminn til að fylgjast með Leonítum er eftir miðnætti. Á Íslandi um miðjan nóvember rís Ljónsmerkið í austri um klukkan 02 að nóttu og er í suðri um klukkan 08 að morgni.
Best er að fylgjast með drífunni fjarri ljósmengun höfuðborgarsvæðisins og annarra bæja. Leggðu símann frá þér og leyfðu augunum að venjast myrkrinu. Tunglið er ekki á lofti eftir miðnætti og hefur þar af leiðandi ekki áhrif.
Hvað þarf ég til að fylgjast með?
Ekki er þörf á neinum sjóntækjum, svo sem handsjónaukum eða stjörnusjónaukum, en hins vegar getur verið gaman að skoða rykslóðirnar í gegnum handsjónauka.
Taktu með þér stól, hlý föt og heitan drykk því nauðsynlegt er að gefa sér tíma þegar fylgst er með loftsteinadrifum, helst í klukkustund eða tvær, að minnsta kosti.
Teldu stjörnuhröpin sem þú sérð á klukkustund og sendu okkur fjöldann, t.d. í gengum Facebook, sem þú taldir, ásamt tímasetningu. Fjöldi stjörnuhrapa gefur hugmynd um hversu öflug drífan var.
– Sævar Helgi Bragason
Leoníta loftsteinadrífan nær hámarki 17.-18. nóvember
Hægt að sjá í kringum tuttugu stjörnuhröp á klukkustund
Sævar Helgi Bragason 14. nóv. 2015 Fréttir
Hin árlega Leoníta loftsteinadrífa nær hámarki 17. og 18. nóvember. Aðstæður til að fylgjast með drífunni eru heppilegar því birtan af tunglinu truflar ekkert að þessu sinni.
Stjörnufræðingar sem rannsaka loftsteinadrífur gera flestir ráð fyrir að hægt verði að sjá í kringum 20 stjörnuhröp á klukkustund, eða eitt stjörnuhrap á þriggja mínútna fresti að meðaltali.
Leoníta má rekja til halastjörnunnar 55P/Tempel-Tuttle sem er um 4 km á breidd og gengur um sólina á um 33 árum. Leonítar hafa hraðfleygustu agnir allra loftsteinadrífa. Leoníta-agnirnar eru í kringum 10mm að stærð og vega um hálft gramm að meðaltali en rekast á lofthjúp Jarðar á um 72 km hraða á sekúndu (259.000 km/klst). Fyrir vikið eru Leonítar þekktir fyrir fleiri vígahnetti (mjög skær stjörnuhröp) en flestar aðrar loftsteinadrífur. Sum stjörnuhröpin skilja eftir sig áberandi rykhala sem geta varað í nokkrar sekúndur. Alla jafna eru stjörnuhröpin hvít eða blá-hvít á litinn.
Hvert á ég að horfa?
Horfðu til himins í átt að stjörnumerkinu Ljóninu og himinninn þar í kring. Stjörnuhröpin virðast stefna frá Ljónsmerkinu en geislapunkturinn er við stjörnuna Algiebu sem er í sigðinni fremst í merkinu.
Heppilegasti tíminn til að fylgjast með Leonítum er eftir miðnætti. Á Íslandi um miðjan nóvember rís Ljónsmerkið í austri um klukkan 02 að nóttu og er í suðri um klukkan 08 að morgni.
Best er að fylgjast með drífunni fjarri ljósmengun höfuðborgarsvæðisins og annarra bæja. Leggðu símann frá þér og leyfðu augunum að venjast myrkrinu. Tunglið er ekki á lofti eftir miðnætti og hefur þar af leiðandi ekki áhrif.
Hvað þarf ég til að fylgjast með?
Ekki er þörf á neinum sjóntækjum, svo sem handsjónaukum eða stjörnusjónaukum, en hins vegar getur verið gaman að skoða rykslóðirnar í gegnum handsjónauka.
Taktu með þér stól, hlý föt og heitan drykk því nauðsynlegt er að gefa sér tíma þegar fylgst er með loftsteinadrifum, helst í klukkustund eða tvær, að minnsta kosti.
Teldu stjörnuhröpin sem þú sérð á klukkustund og sendu okkur fjöldann, t.d. í gengum Facebook, sem þú taldir, ásamt tímasetningu. Fjöldi stjörnuhrapa gefur hugmynd um hversu öflug drífan var.
– Sævar Helgi Bragason