Gormur í nýjum búningi

Sævar Helgi Bragason 19. jan. 2012 Fréttir

VISTA sjónauki ESO hefur tekið glæsilega nýja innrauða ljósmynd af Gormþokunni frægu.

  • Helix nebula, Gormþokan, NGC 7293

Þessi nýja og glæsilega mynd af Gormþokunni (Helix Nebula) var tekin með VISTA sjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni. Myndin sýnir þokuna í innrauðu ljósi og koma þá í ljós slæður úr köldu gasi sem ekki sjást í sýnilegu ljósi. Í bakgrunni sést fjöldi stjarna og vetrarbrauta.

Gormþokan er eitt nálægasta og besta dæmið um hringþoku [1]. Hún er í 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Vatnsberanum. Þetta sérkennilega fyrirbæri varð til í andarslitrum stjörnu á borð við sólina. Þegar stjarnan gat ekki lengur viðhaldið ytri lögum sínum, tók hún að varpa gasskeljunum út í geiminn hægt og bítandi. Úr varð hringþoka og í miðju hennar er stjarnan, litli blái depillinn á miðri mynd, smám saman að þróast í hvítan dverg.

Þokan sjálf er flókin að byggingu. Hún er úr ryki, jónuðum efnum og sameindagasi sem myndar fallegt en flókið blómlaga form sem skín fyrir tilverknað orkuríks útfjólublás ljóss frá heitri stjörnunni í miðjunni.

Meginhringur Gormþokunar er hér um bil tvö ljósár að þvermáli sem er næstum helmingur af vegalengdinni milli sólar og næstu stjörnu. Í heild nær þokan þó að minnsta kosti fjögur ljósár út frá stjörnunni í miðjunni. Þetta sést vel á þessari innrauðu ljósmynd þar sem rautt vetnisgas sést á víð og dreif um myndina.

Erfitt er að koma auga á þokuna í gegnum lítinn stjörnusjónauka en birtan frá næfurþunnu og dreifðu gasinu kemur vel fram í mælitækjum VISTA sem nema innrautt ljós. Þessi 4,1 metra breiði sjónauki sér líka fjölmargar stjörnur og vetrarbrautir í bakgrunni.

Öflug sjón VISTA sjónauka ESO leiðir líka í ljós smáatriði í hringþokunni. Innrauða ljósið sýnir hvernig kalda sameindagasið er samsett. Þetta efni hleypur í kekki og myndar þræði sem geisla út frá miðjunni svo þokan er sem flugeldur.

Þótt þræðirnir, sem eru úr vetnisgasi og nefnast halastjörnuhnútar, virðist smáir eru þeir á stærð við sólkerfið okkar. Sameindirnar í þeim geta staðist háorkugeislunina sem berst frá deyjandi stjörnunni einmitt vegna þess að þær kekkjast í hnútunum og njóta skjóls frá gasinu og rykinu. Ekki er vitað hvernig hnútarnir verða til.

Skýringar

[1] Hringþokur eru nefndar plánetuþokur á ensku þótt þær eigi ekkert skylt við reikistjörnur. Heitið er þannig til komið að í gegnum litla stjörnusjónauka líta margar hringþokur út eins og litlar bjartar skífur og líkjast þannig ystu reikistjörnum sólkerfisins, Úranusi og Neptúnusi. Gormþokan, sem einnig ber skráarheitið NGC 7293, er óvenjuleg að því leyti að hún er stór en mjög dauf að sjá í gegnum litla stjörnusjónauka.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1205.

Tengdar myndir

  • Gormþokan, Helix nebulaVISTA sjónauki ESO tók þessa óvenjulegu mynd af Gormþokunni (NGC 7293), hringþoku í um 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Litmyndin var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum innrauðar Y, J og K síur. Í innrauðu ljósi sést vel hve víðfeðm þokan er. Mynd: ESO/VISTA/J. Emerson. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit.
  • Gormþokan, Helix nebulaVíðmynd af svæðinu í kringum Gormþokuna sem búin var til úr gögnum Digitzed Sky Survey 2. Þokan er björt og áberandi á miðri mynd og ef vel er að gáð sjást fjölmargar daufar vetrarbrautir í bakgrunni. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.
  • Gormþokan, Helix nebulaSamanburður á Gormþokunni í innrauðu og sýnilegu ljósi. Myndin vinstra megin var tekin með innrauða kortlagningarsjónaukanum VISTA en myndin hægra megin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Innrauða myndin sýnir slæður úr köldu gasi sem sjást ekki á ljósmyndinni í sýnilegu ljósi. Mynd: ESO/VISTA/J. Emerson. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

Krakkavæn útgáfa